Leita í þessu bloggi

mánudagur, ágúst 29, 2005

í gær átti ég skrítinn dag, þar sem mér fannst allan daginn að hundraðkallar væru fimmtíukallar. kannski ber það vott um hvað "góðærið" í landinu er farið að hafa víðtæk áhrif á mann, meira að segja hundraðkallarnir líta orðið út fyrir að vera smámynt. ég sá kannski verðgildi þeirra... Hvaðumþað, peningar eru nú ekkert til að hafa áhyggjur af, fremur en annað. Maður bara kaupir það sem mann vantar, og borðar þegar maður er svangur og reynir að vinna þá vinnu sem býðst, og sjá...lífið heldur áfram, skuldir greiðast, rigningu styttir upp og sól brýst fram úr skýjum. ég er samt enn atvinnulaus á virkum dögum, svo nú fer hver að verða síðastur að festa sér mig í vinnu í vetur. ég er ógeðslega skemmtileg, í alvöru....
Hlakka til að mála veggi, fáum lykla að íbúð á morgun. ég ætla að mála með mikið af gleði og góðri tónlist, og þá verður alltaf gaman í húsinu og mikil sköpun. festa kreativítetið í blauta málninguna á veggjunum.

laugardagur, ágúst 27, 2005


þetta er hellvar á tónleikum í berlín. tónleikarnir í gær voru æði. endurtökum leikinn 1.sept. á gauknum

föstudagur, ágúst 26, 2005

Jæja, þetta er bæjardagur, svo ég er búin að vera á þeytingi um allt. Fór fyrst að undirbúa þátt um atvinnugreinar fyrir morgundaginn (já, Bjössi á Mjólkurbílnum er með). Hugmyndir að lögum í þemað vel þegnar, hér að neðan í kommentakerfið. Síðan labbaði ég löngu leiðina til Magga Strump upp í Síðumúla, og náði í flæ-era. Strætó á Hlemm, gekk niður Laugaveg og dreifði. Er á Kaffi Hljómalind, á nokkra flæ-era eftir, og þegar möndlukakan er upp urin og jasmínuteið er drukkið mun ég klára að dreifa miðunum. Sándtékkum svo á eftir. Grandrokk opnar 2200 og fyrsta band, Vonbrigði, á svið klukkan ellefu, stundvíslega. Ef þú getur réttlætt það að sökum fullkomra blankheita eigir þú að vera á gestalista, skaltu senda mér sms í síma 6986638 með upplýsingum um þig, og ég set þig þar. Ef þú átt hins vegar pjéning, þá kostar 500kall inn, og mun það vera ákaflega sanngjarn verð fyrir Vonbrigði, Hellvar og Dýrðina. leiter skeiter

miðvikudagur, ágúst 24, 2005

ég man ég hugsaði eitthvað í gær, en það er alveg dottið út. svo ég sleppi líklegast bara að skrifa það. Fór á Tjaldó og fékk mér Laugarvatnskaffi (kaffi með ís útí) og Bláskógarborgara (hamb. með rauðlauk, beikoni osti og gráðostasósu). Sannkallað laugvetnískt sælkerafæði. Lærði helling þarna á Tjaldó, og þeir opna 11, svo ég er að spá í að rölta aftur þangað og klára Heidegger-ritgerðina. Náði meira að segja að tengja Bruce Springsteen við Heidegger, svo mikill var sköpunarkrafturinn í gærmorgunn. Skólarnir voru að byrja hér, og í tilefni að því var mikill ratleikur fyrir nýnema Menntaskólans. Ég var í gufunni í allan gærdag og kvöld, og varð því á korters fresti í nokkra tíma var við hóp af unglingum sem spurðu mig undarlegra spurninga eins og "Hefur nokkur falið blað ofaní gufuhvernum?" og "Hvernig gufubað er þetta?". Þá var blaðið umspurða falið við hlið öskutunna fyrir utan, og þar átti að svara því hvernig gufa væri á laugarvatni (Náttúruleg, byggð ofaná hver) og svo voru þau beðin um að botna einhverja vísu sem ég hef aldrei heyrt áður. Ég hvatti þau til dáða, og sagði þeim að semja bara sjálf seinnipart. Þetta lífgaði heilmikið upp á daginn, og svo kom 25 manna hópur og dásamaði allt og alla, og kaffið og mig og svifu alsæl út úr gufubaði og inn á veitingastaðinn Lindina. Góður dagur.

mánudagur, ágúst 22, 2005

dagarnir fljúga áfram, ritgerðarnar kroppast. í fullkomnum heimi myndi ég taka hlé á öllu öðru og ljúka þeim, en það er í svo mörg horn að líta. vinna í gufubaði, vinna í útvarpi, redda leikskólaplássi, redda mér skemmtilegri vinnu með útvarpi í haust, spila smá á tónleikum, reyna yfir höfuð að koma sér í kreatívagírinn sem við vorum í í berlín. þetta hefst allt, sko íbúðin er fundin, bráðum bankar einhver frábær vinna uppá hjá mér, svo kemur leikskólapláss fljúgandi, og svo bara skrifa ég ritgerðaafgangana á eins og 2 dögum eða eitthvað. Komið. Hellvar spilar á Grandrokki ásamt Dýrðinni og Vonbrigðum næsta föstudag, 26/8. 500-kall inn, hús opnar 2200, tónleikar hefjast 2300.

föstudagur, ágúst 19, 2005

Ég elska lífið. Það er eitthvað svo mikið að gerast og gera þessa daganna, og virðist ganga bara þokkalega. Tónleikar, ritgerðir, vinna, alveg að fara að flytja í nýja íbúð sem þarf að mála og svona. Það er nóg að gera, en ég er samt ekkert áhyggjufull, bara með svona spenningsskordýr í maganum, er líka að sækja um hina og þessa vinnuna í rólegheitum. Þetta er svo spennandi allt. Ég er líka orðinn heimsmeistari í húkki, húkka far landshlutanna á milli. Mæli með myndinni "Even cowgirls get the blues" fyrir fólk sem hefur gaman af að húkka far. Fjallar um stúlku sem fæðist með ofvaxinn þumal, alveg risastórann, og hún er best af öllum í að húkka far. Þessi mynd fékk einu sinni hauskúpu í Pressunni, svo ég dreif mig (hef svo gaman að lélegum myndum) og svo var hún bara svo léleg að hún var frábær. Eftirminnileg fyrir vikið. Sonic Youth komu nú ekki í gufubað á Laugarvatni, eins og ég var að vona, en þau koma bara næst. Tónleikarnir þeirra virkuðu eins og vítamínsprauta í rassinn á mér. Ég er svakalega hress. Svo gengur mér ofsa vel að vakna snemma á morgnanna. Kannski er ég bara manísk.

fimmtudagur, ágúst 18, 2005

hér er smá um sonic youth-tónleikana.

þriðjudagur, ágúst 16, 2005

sonic youth, please play theresa's sound world tonight or tomorrow. bless, heiða

sunnudagur, ágúst 14, 2005

Lína langsokkur hafði rétt fyrir sér. það er alls kyns skemmtilegt dót og fólk og þannig út um allt, en maður finnur það bara ef maður er opinn fyrir því, og tilbúinn í einhver ævintýri. Einu sinni hélt ég að það væru meiri ævintýri og óvæntar uppákomur í t.d. París en í Reykjavík, en ég er komin á aðra skoðun. það eru nákvæmlega jafnmörg ævintýri alls staðar, maður þarf bara að vilja finna þau. Eins og í dag, þá heyrði ég rússneskt diskó út úr einu húsi, og labbaði soldið lengra og þá heyrði ég einhvern vera að æfa sig að spila á greiðu út um glugga í öðru húsi. svo fann ég fallega spennu liggjandi á jörðinni, og svo hitti ég tvo stráka á svona unglingafylleríi, og þeir voru rosa fyndnir og annar var með appelsínugular linsur í augunum. svo talaði ég um sci-fi og pólitík á kaffihúsi, og rambaði á eina útitónleika, og sá sýninguna í kling og bang (ási og gunnhildur...allgjört æði), og svo....bara þetta er endalaust, ef maður hefur augun hjá sér. Lína langsokkur fann bæði perlufesti og spennandi bók, en Anna og Tommi fundu ekkert, því þau voru viss um að þau myndu ekkert finna. Hehehehehe, ég er búin að ná þessu. Snilld!!!!!

föstudagur, ágúst 12, 2005

vúhú, fengum íbúð!!! Þetta gekk ævintýralega hratt og vel fyrir sig. það er merkilegt hvað allt gengur vel og fallega hjá okkur. Við búum á Grandavegi 39 frá og með næstu mánaðarmótum, rétt hjá sjónum, rétt hjá jl-húsinu, (krónan er þar), rétt hjá vesturbæjarlauginni, rétt hjá þjóðarbókhlöðunni. Í vesturbænum, þar sem fólk heilsast á götum úti, og gott er að vera. jesssss, ég er svo glöð. verið að skipta um invols á baðherbergi, svo verður smá sýslað í að laga nokkur perustæði, og í lok mánaðarins megum við mála eins og við viljum. Held að það verði nú bara antikhvítt út um allt, en annars var mamma að koma með hugmynd að því að velja mediterranian litablöndu á eldhúsveggi, því það snýr í norður, og norðursólin er svo köld að það verða að vera smá hlýjir litir þar inni. hún seldi mér þetta gjörsamlega, greinilega góður innanhúshönnuður þar á ferð. býð bara eftir að hún sýni elvari bókina sem hún sýndi mér, og segi 2-3 vel valdar hönnunarlegar setningar við hann líka, og þá verður alveg ábyggilega miðjarðarhafsstemming í eldhúsi grandavegs 39!!! mamma snillingur. ég hef rosa góða tilfinningu í maganum, að vera nú ekki lengur húsnæðislaus í haust, heldur bara hálf-atvinnulaus (allavega virka daga). koma svo, redda mér vinnu í haust. ég kann mörg tungumál, er nokkuð skörp, fremur lagleg, vel tennt, prýðilega máli farin, lykta vel, og svo er ég svo fyndin..............hahahahhahahah

fimmtudagur, ágúst 11, 2005

Á leið í bæinn, í bíó með óliver, skoða íbúðir sem eru til leigu. Óska eftir gistingu hjá einhverju góðu fólki.

þriðjudagur, ágúst 09, 2005

rólegheitadagar í sveitinni. þögn á kvöldin. skemmtilegt fólk sem ég hitti í gufunni. óliver og afi og amma fóru á akureyri um helgina en komu í gær aftur heim. hann fékk riddaradót, og nú eru plast-riddarar að stingast upp í iljarnar hvar sem ég stíg. mjög gott fyrir punktalækningar. ég þarf, án gríns, að redda íbúð til að flytja í um næstu mánaðarmót, í reykjavík. ef einhver er með góð ráð í íbúðareddingum væri indælt að fá komment um þau.

laugardagur, ágúst 06, 2005

Ok, ég er sjúklega þreytt, og er að fara að vinna í útvarpinu. eins gott að drekka smá kók og borða smá súkkulaði til að hressast. Er búin að gera eftirfarandi um helgina: húkka far á þingvelli frá laugarvatni, undirbúa einn þátt, syngja lag í hljóðveri, æfa með stelpubandi eitt lag, sofa illa í barnarúmi, sándtékka, bíða, halda á mögnurum, redda magnara þegar hinn klikkaði í sándtékki (TAKK STEBBI MAGG! I OWE YOU), spila lag á gay-pride með stelpubandinu Eldkexi, labba sjúklega mikið. Á eftir að: vera með Næturvörðinn í kvöld, húkka far til Keflavíkur í nótt til að gista, redda mér á Laugarvatn á morgun.
Ha, þetta er slatti fyrir eina helgi.
Svo vantar mig vinnu virka daga frá byrjun September og íbúð miðsvæðis til að leigja frá byrjun September. Anyone??!

föstudagur, ágúst 05, 2005

reykjavík, indisleg. ég að þvælast og þvæla. á leið í hljóðver að syngja lag með 5du herdeildinni. svo rafmagnsgítarleikur á gay-pride á morgun. þáttur annað kvöld, rás 2, milli 10 og 2. Þema: Veiðiferðir, hugmynd sem Guðni Már kom með. Allar hugmyndir velkomnar. bæó.

miðvikudagur, ágúst 03, 2005

Brigðult samband við netheima á Laugarvatni þessa daganna. En það er svo sem ekkert að frétta. Vinn í gufubaðinu, og það er besta gufubað í heimi, svo allir að koma og heimsækja mig og prufa það. Svo kom útlenskt úrhelli og þrumur og eldingar áðan, en rétt áður var sól og hiti, svo kom líka haglél, þetta gerðist allt á svona 20 mínútum,eða svo. Síðan hélt amazon-rigningin áfram, og er enn að. Ég er að lesa "Einhvers konar ég", eftir Þráin Berlelsson, en verð að taka tíma á hverjum degi til að lesa Schelling og punkta hjá mér, og eins að lesa smá listaheimspeki og punkta hjá mér, og að lokum að lesa eitthvað sem ég hef ekki ákveðið og punkta hjá mér, og úr þessu þyrftu 3 ritgerðir að verða til mjög fljótlega, þar af ein á þýsku en hinar tvær á ensku. Sú þýska verður annað hvort skrifuð á ensku og farið þess á leit við þýskan vin að vera þýdd, eða að hún verður skrifuð með orðaforða barns. Ef til vill er það betri nálgun, þegar öllu er á botninn hvolft. Heimspeki er jú að átta sig á að maður veit alltaf minna og minna, minna í dag en í gær. En ritgerðir, hér kem ég, óhrædd og tilbúin. Hvort sem þið verðið góðar, sæmilegar eða arfaslakar, þá verðið þið skrifaðar í átaki næstu daga og vikur.