Leita í þessu bloggi

föstudagur, júní 15, 2018

Slys

Ég veit eiginlega ekki hvernig og/eða hvort ég eigi að segja ykkur það sem gerðist. Mér líður einhvern veginn asnalega samt að segja ekki frá því. Það er svo mikil sönnun á því að maður segi bara frá því frábæra sem er að gerast í lífi manns og þegar eitthvað bjáti á, þá þegi maður. Þá bíti maður á jaxlinn, í það súra epli jafnvel. Íslendingar kvarta ekki. Svo er reyndar alveg ógeðslega mikið til af fólki sem er í alvörunni að deyja úr lífshættulegum sjúkdómi og það kvartar aldrei, svo þetta er allt mjög afstætt. Það sem kom fyrir mig er ekki lífshættulegt, og ég mun jafna mig, og ég er ekki að kvarta, en ég ætla samt að segja frá því, því mér finnst það leiðinlegt og mér líður illa og er smá döpur. Það var semsagt keyrt á mig, þar sem ég var að hjóla á hjólastíg. Mjög týpísk útkeyrð ung kona sem sagðist vera að koma heim úr vinnu á sjúkrahúsi, þar sem allt of mikið var að gera, og allt of fáir að vinna, og hún leit ekki til beggja hliða áður en hún keyrði af stað frá biðskildunni sinni og á mig. Ég hafði séð bílinn stopp á biðskildu og var á hjólastíg og treysti bara heiminum, eins og maður gerir. Góðu fréttirnar eru að ég er óbrotin, en vondu fréttirnar að ég er öll marin á vinstri hlið, og get ekki legið í neinni stellingu án þess að finna til, þótt að ég sé að taka parkódín. Svo er ég með bakvesen og við það að hlífa einum líkamsparti fer jafnvægið úr skorðum þannig að mér er beisikklí illt alls staðar núna. Læknirinn sagði að þetta væri verst fyrstu 3 dagana á eftir og þetta gerðist á miðvikudag, þannig að ég bind vonir við sunnudaginn.
Hjólastígurinn sem ég var á þegar þetta gerðist er laugavegur fyrir ofan Hlemm, og ég var á leið frá Hlemmi uppí grasagarð að labba og þaðan ætlaði ég í sund og gufu. Ég er nýflutt í laugardalinn og nota því hjólið sem samgöngutæki, með mjög góðum árangri. Þarna klukkan ríflega hálf-fimm er bæði umferð keyrandi og gangandi vegfarenda og því fór ég yfir götuna á horni Nóatúns til að nýta þennan prýðis-hjólastíg sem þar er. Mikið af túristum sem voru á gangi með ferðatöskur og ég vildi ekki vera leiðinlega hjólastelpan sem sikksakkaði á milli þeirra, þegar búið er að gera aðstöðu fyrir hjólafólk hinum megin götunnar. Gallinn við þennan hjólastíg er þó augljóslega sá að ef bílar á biðskyldu muna ekki eftir því að hjól eru að koma úr báðum áttum þarna, þá gerast svona slys. Ég reyndi að bremsa þegar ég sá að bíllinn tók af stað, en var komin of nálægt og það var úðarigning svo ég rann bara á fullri ferð á bílinn sem var að taka af stað og því ekki á fullri ferð, en skellurinn var samt nægur til að meiða mig og kasta mér í götuna. Þarf ekki að taka fram að hjólið er ónýtt en það er nú minnsta málið. Keypti það árið 2010 fyrir hluta af peningum sem ég fékk þegar herbalife-sölumaðurinn keyrði á fullu aftan á mig og rústaði bakinu mínu. Kaldhæðnislegt. Ég var í rétti þá, er í rétti núna. Keyri alltaf varlega, hvort sem ég er á bíl eða á hjóli. Mér finnst þetta eiginlega dáldið ósanngjarnt, en lífið er oft ekkert sanngjarnt. Hennar hlið, (ökumannsins) er ekki sanngjörn heldur. Hún vinnur allt of mikið í allt of miklu álagi, því heilbrigðiskerfið er í molum. Sama heilbrigðiskerfi og lét mig bíða í 3 klukkutíma eftir að komast í röntgen og 2 tíma eftir að fá úrlesturinn úr myndunum. Bottom line-ið hér er: Það er allt of mikið álag á öllum, þannig að meira að segja þeir sem eru ekki í stresskasti og eru bara úti á leið í grasagarðinn að anda að sér blómalykt og semja ljóð og vera í fíling áður en þeir fara heim að elda í meiri fíling eru ekki óhultir. Þetta slys setur alveg strik í reikninginn hjá mér, og þá er ég ekki bara að meina peningalega. Það er mjög erfitt að koma sér af stað þegar maður er með líkama sem er smá hnjaskaður fyrir. Andlega hliðin hrynur líka í leiðinni og lífið virðist ekkert voðalega skemmtilegt. Plús að það sem mig langar mest að gera núna er að vera að njóta endalausra sumardaga og vera úti að hjóla, en það get ég sko alls ekki gert strax. Ég hef aldrei fengið svartari marbletti en þá sem eru að koma út á rassinum og allt í kringum hann.
Vona núna innilega að veðrið muni sökka í allan júní, og svo komi sól og blíða í allan júlí og allan ágúst og þá verði ég orðin heil heilsu og komin á heilt hjól líka. Takk fyrir að lesa. Ég er ekki að leita að vorkunn, en ef einhver er með sambönd í borgarstjórn má gjarnan benda þeim á slysahættu á núverandi hjólastígum milli Hlemms og Kringlumýrarbrautar.

mánudagur, janúar 22, 2018

Tutlusalat?

Kannast einhver við tutlusalat? Það var alltaf á boðstólum, í miklu magni á milli tveggja brauðsneiða, og gekk þetta undir nafninu "Tutlusamloka" í F.S. þegar ég gekk í þann skóla. Í tutlusalati er: mayónes, hangikjöt í bitum, rauð paprika í bitum og gular baunir. Ef ekki var til hangikjöt mátti nota skinku og þá hét samlokan Tutlusystir. Ég var að enda við að gera Tutlufrænku. Vegan-mayó, rauð paprika, gular baunir og Tofurky vegan-álegg í bitum. Aldeilis stórfenglegt. Ég gúgglaði tutlusalat, til að kanna hvort einhver hefði skrifað um það og svo virðist ekki vera. Bara gömul bloggfærsla frá mér, frá 2009, kom upp, ekkert annað. Þessi blanda, þetta salat, þessi samloka. Hvaðan kom þetta eininlega í mötuneyti Fjölbrautaskóla Suðurnesja? Og af hverju er enginn að tala um þetta? Áfram Tutlusalat!
Annars gerði ég fáránlega mikið í dag: Bíl í skoðun (skoðaður til 2019), keypti mér náttföt og nýjan tannbursta, keypti afmælisgjöf f. Elvar, fór í bókasafnið, keypti mér íþróttastuttbuxur og fór í Bónus. Svo pantaði ég badminton-völl í kvöld! Fer í badminton eftir klukkutíma.

þriðjudagur, janúar 09, 2018

Heilsuvandræði

Ég er að skrifa þetta hér, mjög meðvituð um að þetta er blogg um heilsufar og þar af leiðandi ekki endilega skemmtilestur, en mig langar bara að skrifa eitthvað og heilsan er það eina sem poppar upp í kollinn á mér þessa dagana. Ég hef fengið þrjár flensur í röð, síðan í október. Ég náði reyndar líka að gera þrjár plötur undir nafninu Heidatrubador árið 2017 svo það virðist margt gerast í þrennum þessa dagana. Vonum að hið gamla og góða máltæki "Allt er þegar þrennt er" sé máltæki sem hafi fest sig í sessi vegna þess að það sé satt. Ekki samt í tengslum við útkomnar plötur Heidatrubador, heldur út af fengnum flensum. Óliver hefur líka fengið nokkrar flensur og Elvar líka. Fjölskyldan, utan kötturinn, hefur verið meira og minna veik í allt haust og vetur. Í gær fórum við uppá læknavakt með Óliver, þá á sjötta degi hósta, kvefs, beinverkja, eyrnaverkja, hálsbólgu og hitavellu. Læknirinn á Læknavaktinni tók á móti okkur raddlaus og slappur. Meira að segja læknarnir eru með flensu þessa dagana. Hann sagði okkur hins vegar afskaplega merkilegan hlut. Mitt ástand, þ.e.a.s. flensa eftir flensu, veirusýking eftir veirusýkingu, er ekkert einsdæmi. Það virðist vera að flensubakteríur séu núna búnar að stökkbreytast og því er fólk, meira að segja fólk sem nánast aldrei verður veikt, meira og minna í bælinu þessa mánuði.
Læknirinn sagði reyndar að þetta hefði byrjað í vor á Íslandi, og sæi ekki fyrir endann á þessu. Ég var hraust í vor og sumar (f. utan eina nokkuð öfluga uppogniður sem ég upplifði alein í vor) en ég var líka í Berlín. Í Berlín borðar maður hollt, hreyfir sig mikið því maður labbar og hjólar allt og á vorin og sumrin er gott veður og því svitnar maður á heilbrigðan hátt og manni verður aldrei kalt. Veturnir í Berlín eru reyndar allt öðruvísi, en það er önnur saga. Ég hitti reyndar líka afskaplega fáa í Berlín í vor og sumar. Það hittist bara þannig á að mínir vinir og kunningjar voru mikið að vinna eða ferðast og voru því ekki á staðnum. Hitti einn og einn og langt á milli, en allavega engin mannamót að ráði.
Ég kom til baka frá Berlín í byrjun október, og fékk fyrstu flensuna rúmri viku síðar. Alltaf þegar ég náði að jafna mig fór ég út og hitti fólk og fékk næstu flensu. Eða svoleiðis held ég að þetta hafi gerst. Ég fór reyndar að vinna sem norðurljósagæd eftir fyrstu og á undan annarri flensu og þar varð mér kalt og ég fékk bronkítis og kvef og eftir það ævintýri hef ég verið með asmahósta sem fer alls ekki. Ég er því búin að hósta á hverjum degi síðan í nóvemberlok. Ég þarf að stoppa og herpa mig saman þegar ég er úti að labba og þarf að hósta, því annars pissa ég á mig. Það er allt komið í rugl.
Þriðja flensan kom svo og fór og nú er ég, í upphafi ársins 2018, með asmakast sem neitar að fara, úthóstuð og einhvern veginn svo máttfarin að það er næstum því fyndið. Mér hefur aldrei liðið eins mikið eins og persónu í skáldsögu. Veiklulegri listaspíru, alltaf með vasaklútinn á lofti til að hósta í hann. Skáldsagnapersónan væri líklega með berkla en ég er blessunarlega laus við að hósta blóði, enn að minnsta kosti. Ég labbaði í sund í gær, korters labb hvora leið, kannski hálftíma stopp í sundi. Sofnaði í öllum fötunum fyrir miðnætti í gær, búin á því. Vaknaði klukkan 3 eftir hádegi í dag. FIMMTÁN TÍMAR! Ég var að minnsta kosti útsofin þegar ég rumskaði, frekar ringluð. Fór að lesa bók, sem er reyndar það skemmtilega við að vera svona mikið veikur. Maður getur þá lesið bækur eins og vindurinn. Það er viss gleði fólgin í að týna sér í bókalestri, en ó, hvað ég vildi að þetta tímabil færi að taka enda. Er ég ekki að verða búin með stökkbreyttu veirurnar í bili?

mánudagur, janúar 01, 2018

Fyrsti í 2018

Vaknaði og steig fram úr rúminu, beint í ælu frá Ljóna, sem var köld og klístruð, svo ég byrjaði árið á að þrífa kattagubb og fara svo í fótabað með hægri fót í klósettvaskinum. Gat eiginlega ekki byrjað á áhugaverðari hátt, svo ég ákvað að láta í vél og tékka á veðrinu úti á leið úr þvottahúsinu. Breskir túristar óskuðu mér gleðilegs árs. Það var skemmtilegt og ég ákvað að láta einhverja "sparíplötu" á til að vaska upp og fá mér morgunmat, áður en ég fer í vinnuna. Ég fann Googooplex, þessa hér í vínylsafninu mínu og hún er mjög sparí! Kannski uppáhaldsplatan mín ever af íslenskum plötum. Það að hlusta á hana, ásamt glöðu bresku túristunum, var alveg nóg mótvægisaðgerð gegn því að stíga í kattaælu, svo nú er ég búin að vaska upp, fá mér te og beyglu og hálfnuð með Googooplex. Plata 2 er betri en plata 1, en það er nauðsynlegt að hlusta á þetta í réttri röð þegar maður leyfir sér. Úti er stilt og millt áramótaveður og þokan og reykurinn frá í gær virðist hafa gufað upp í nótt. Eftir eina vínylplötu og kannski einn tebolla til er ég tilbúin í útvarpsþáttagerð.