Leita í þessu bloggi

mánudagur, apríl 20, 2015

Í tilefni af fréttum þess efnis að David Bowie finnist Lulu, samstarf Lou Reed og Metallica snilld, gróf ég upp texta frá í október 2011 þar sem ég hlustaði á Lulu og skrifaði um hana beint eftir hvert lag á facebook.

20. október 2011: Mitt eigið hlustunarpartý: Lulu með Lou Reed og Metallica.

1. lag: Brandenburg gate, nokkuð gott, lofar góðu. Helst að bakraddir Headfield séu soldið cheap, en sleppur.

Lag tvö: The View. Geðveikt! Rosalega flott riff, og dimm og drungaleg stemmning í texta og flutningi hjá Lou. Djöfull er hann flottur, kallinn.

3. lag, Pumping blood, hefst með strengjum og minnir vissulega á V.U. fyrir vikið, en svo takast strengir a la V.U. á við strengi a la Metallica (rafgítarstrengi). Manni dettur einhvern veginn strax í hug að Lou Reed sé að óverdósa með eiturlyfjunum sínum sem hann er að sprauta....og gítarar Metallica og trommugeðveiki einhver undir sem undirstrika þá undarlegu tilfinningu að Lou liggi bara með sprautuna í handleggnum og allt í blóði...sjiiiiiiiiit. Flott lag, ótrúlega flott.

Lag 4: Mistress Dread....byrjar á snilldarkeyrslu, langar að keyra bíl hratt og hlusta á þetta lag. Það er einhver undirliggjandi sturlun í gangi.
...og keyrslan heldur áfram. þetta lag er um eitthvað brútal S&M-kynlíf, eða það hljómar þannig. Við erum að tala um kynlíf, eiturlyf og rokk. Vissulega ekki það nýjasta í textagerð, en hey! Lou fökking Reed hefur leyfi til að gera slíka texta ef einhver hefur það.

5. lag, Iced Honey, hljómar mjög mikið eins og Lou Reed-lag, eiginlega meira þannig en hin 4 sem komu á undan, sem eru greinileg samblanda af tveimur hljóðheimum. Aftur finnst mér Headfield-bakraddir soldið skrýtnar, en allt hitt alveg mjög flott. Gítarar æðislegir.

6. og síðasta lag á fyrri disknum heitir Cheat on me og ég elska byrjunina á því. Virkilega heillandi gítarheimur sem á einhvern stórundarlegan hátt hljómar kínverskur. Auðvitað allt of listrænt fyrir "the average Metallica fan" en ég dýrka þetta. Lagið er 11 mínútur, og því kannski ekkert léttmeti, enda er því gefinn góður tími til að byrja og fer svo aðeins að lyftast um miðbikið. Mætti þó líklega vera ögn styttra. Svona 8-9 mín. myndu kannski duga. Of oft er sungið: Why do I cheat on me?"

Fjögur lög á diski 2, það fyrsta komið af stað, Frustration, og er 8 og hálf mín. Gott riff hjá strákunum. Hvernig er hægt að vera svona kúl eins og Lou? "I wish that I could kill you, but I do love your eyes" Geðveikt. Klikkaður texti. Alveg bara vá! Allt rosalegt við þetta lag. Það tekur á flug í lokin. Hlýtur að vera æðislegt að sjá þetta læf.

2. lag á diski tvö heitir Little dog. Akkústískur gítar og dularfull stemmning. Hljóðheimurinn alveg eins og klæðskerasaumaður fyrir Lou Reed. Dularfullt. Manni finnst eins og eitthvað ógurlegt sé að fara að gerast. Þessi texti er örugglega um eitthvað annað en lítinn sætan kjölturakka.

lag 3 á diski 2 heitir Dragon. Tilraunakennt. Rosalega held ég að Metallica sé að fara að skipta um aðdáandahóp. Þetta er svo miklu meira sándandi eins og Sonic Youth heldur en nokkurn tíman eins og Metallica, og það er svo fráááááábært. Dragon er líka 11 mín. og það tekur á flug eftir ca. 3 mín. með mjög fínu riffi, repetetive og myrkt, sem er alveg virkilega up my alley. Við þessa aðra hlustun er þetta eitt af mínum uppáhalds lögum á plötunni, ásamt Frustration og Mistress Dread. Sex-tuttugu og eitthvað og ég er að headbanga!!!!! Vá, hvað ég ætla að hjóla út um allt með þetta lag á repeat. Shitt, er þetta besta Metallica lag ever?

Lokalagið, það fjórða á diski 2 heitir Junior Dad og er að mínu mati smá feil í byrjun, því Dragon er svo flott og gæti vel staðið sem frábært lokageðveikislag. Junior Dad er 19 (!) mín. og fyrstu 5 eru eins og metallica lag, sem lou reed gerði sönglínu yfir og gítararnir og sönglínan passa ekki alveg. svo tekur annar kafli við, með strengjum, og maður fær á tilfinninguna að þarna hafi lou samið kafla. svo heldur metallicalagið áfram. Ég hef samt ekki hugmynd um hvernig lagið er samið eða neitt, bara að giska. En þetta er ekki besta lag plötunnar, og alls ekki betra lag til að enda á en Dragon. Og eftir átta mín, er maður farinn að bíða eftir því að eitthvað stórkostlegt fari nú að gerast í þessu lagi...

skil ekki allar þessar instrumental hugleiðslumínútur í lok síðasta lagsins, og það gerir plötuna ekki betri að mínu mati. Hefði mátt sleppa alveg og gera lagið að "filler" ef það þurfti þá að vera með. Svona 6 mínútur og hafa það á undan lokalaginu. Það hefði gert plötuna betri. En þrátt fyrir þetta er platan æði, og bara slökkva eftir Dragon og þá er maður í rosa stuði. Ótrúlega gaman að dæma hana í beinni hér, fyrir sjálfa mig, og kannski les þetta einhver...who knows? Who cares? Takk fyrir!

fimmtudagur, janúar 08, 2015

Á 68-ára afmæli David Bowie, 08.01. 2015

Ég er David Bowie-aðdáandi og hef verið síðan ég var 12 ára, og heyrði Starman spilað í löngufrímínútunum og hélt að það væri John Lennon að syngja. Ég var örlítið móðguð í smátíma að það væri einhver annar sem leyfði sér að hljóma eins og Lennon, enda var hann nánast í guðatölu á mínu heimili, en svo áttaði ég mig á því að Bowie hafði líka sinn eigin hljóm, og hljómaði bara eins og Lennon í þessu ákveðna lagi. Ég hóf ævilangt samband mitt við David Bowie, og fór að safna plötunum hans. Ég bað um plötuna með Starman í jólagjöf, og keypti síðar allar plöturnar sem ég gat komist yfir, flestar á vínil, og á sumar bæði á vínil og geisladiski. Ég spila reglulega Bowie-plötur, og finnst ekkert koma í staðin fyrir það efni sem hann hefur sent frá sér. Ég er enn að uppgötva sumar eldir plötur hans og „fá dellu fyrir“ þeim upp á nýtt, eins og til dæmis þegar ég hlustaði á Heroes af kasettu í hvert sinn sem ég þurfti að hreyfa bílinn minn (þar til kasettutækið bilaði, ekki það að ég fengi leið á Heroes). Heroes á ég líka á vínil svo ég hlusta enn öðru hverju. Á einhverjum tímapunkti hætti ég að pæla í nýju efni með Bowie. Ég missti ekki áhugann á honum, ég heyrði bara lög sem hann sendi frá sér sem hreyfðu ekki við mér eins og áður, og þorði því ekki að leggjast í hlustun á plötum sem myndu ef til vill gera það að verkum að ég yrði afhuga einum af mínum uppáhaldslistamönnum. Ég held að í fyrsta sinn sem ég varð fyrir vonbrigðum með Bowie hafi verið með Never let me down sem er platan sem kom út á eftir Tonight, sem er platan sem kom út á eftir Let‘s dance. Tonight var umdeild en ég fílaði hana, (enda David Bowie-aðdáandi) en þegar ég kom valhoppandi heim með brakandi ferskan vínilinn af Never let me down undir hendinni, og smellti henni á fóninn, áttaði ég mig á því að ég og Bowie áttum ekki samleið, um stundarsakir að minnsta kosti. Never let me down er sautjánda stúdíóplata Bowie og kom út árið 1987, þegar ég var 16 ára. Ég var orðinn pönkari, og fannst þetta vægast sagt útþynnt hjá honum. Svo stofnaði hann hljómsveitina Tin machine og ég fór í fýlu og hlustaði ekki á næstu sex plötur, sú síðasta sem ég missti af var Reality sem kom út árið 2003. Ég hefði auðvitað átt að vera búin að átta mig á því að svo góður tónlistamaður gerir ekki alslæmar plötur oft í röð, en einhvern veginn hafði ég dottið úr takti við nýjar Bowie-plötur... þar til árið 2013 þegar öllum að óvörum smáskífan Where are they now“ kom út að vori, og svo skömmu síðar stóra platan The next day. Sú fyrsta í 10 ár, og sú 25. í röðinni. Ég fjárfesti í vínilnum af The next day, eftir að vera búin að hlusta á nokkur lög af henni sem voru til á Youtube, og fá að renna henni hjá Kidda í Smekkleysu. Ég viðurkenni að ég var hikandi. Ég vildi ekki kaupa lélega Bowie-plötu, ég var hreinlega hrædd við það. Skelfd en spennt borgaði ég afgreiðslumanninum í Lucky Records fyrir The next day-vínilinn, skundaði heim á leið og setti hann á fóninn, og komst í leiðinni að því að geisladiskurinn fylgdi með í hvítu ómerktu umslagi inni í plötuumslaginu! Það var gott, því það þýddi að ég gat hlustað í stofunni og á ferð og flugi. Platan fékk nokkrar umferðir á plötuspilaranum mínum, sem undirspil fyrir bóka- eða blaðalestur, sándtrakk fyrir morgunmat eða krossgátulausnir, eða sem tónlist leikin fyrir gesti í kaffiheimsókn, en svo fór platan í bunka á hillu og ég að hlusta á eitthvað annað. Þetta var ekki slæm plata, en hafði ekki kveikt í mér ennþá. Þegar ég þurfti að skreppa til Barcelona um daginn ákvað ég að kippa geisladiskaútgáfunni af The next day með í ferðina, og ganga um og hlusta rækilega á þessa plötu. Ég kláraði vinnuna og fékk langþráðan frídag sem ég gat eytt í göngutúra um Barcelona-borg og þá fékk Bowie að fylgja mér í eyrunum. Það er skemmst frá því að segja að eitthvað gerðist. Ég fór að leggja við hlustir á textana, sem er einmitt eitthvað sem ég lagði mig í líma við að hlusta á sem unglingsstúlku-Bowie-aðdáandi. Textarnir byrjuðu að opna fyrir mér Bowie dagsins í dag. Hver var hann núna? Hvað var hann að ganga í gegn um sem 66 ára breskur karlmaður sem margir gerðu ráð fyrir að væri sestur í helgan stein? Var hann of mikill listamaður til að geta hætt að skapa? Hvað er innblástur fyrir tónlistarmann sem hefur gengið í gegn um 24 plötur áður, unnið með mörgum meisturum og dregið lærdóm af alls kyns persónulegum og alheimslegum feilsporum og viðburðum? Ég rölti um götur Barcelona á miðvikudagsmorgi og drakk í mig það sem David Bowie var að segja mér. Platan hefst á laginu „The next day“, sem mér finnst í raun vera frábært opnunarlag fyrir skilaboðin sem Bowie vill koma á framfæri. Ég er ekki dauður enn, ég er á lífi að gera eitthvað, þótt sumir kunni að halda að ég sé bara gamall lurkur. Ég verð hérna á morgun og hinn og hinn líka. Lagið er í anda laganna á Scary Monsters, gítardrifið án þess að vera hefðbundið rokklag. Það fær mann til að leggja við hlustir. Útsetningin á næsta lagi, Dirty boys, minnir á einhvern hátt á Tom Waits, en þó bara í erindunum. Viðlagið er svo púra Bowie, og Waits-samlíkingin er ekkert yfirþyrmandi heldur, kannski bara saxófónn og brassnotkun sem færði mér þessi hugrenningatengs, en þess ber þá að geta að David Bowie er vel spilfær á sax sjálfur, hvort sem hann er nú að spila þarna eða ekki. Lag 3 var annar singullinn af plötunni, The stars (are out tonight), og maður fer að átta sig á því að þessi plata er langt yfir eitthvað miðlungsmok og miðjumoð hafið. Bowie er sögumaður sem segir sögur sem eru opnar fyrir túlkun með hugmyndaflugi hlustandans. Hann segir frá stemmningu en ekki alveg sjalfum atburðunum, sem er líklega það sem margir bestu textahöfundar eiga sameiginlegt. Ef sagan er ófrágengin er pláss fyrir mínar eigin myndir og hún verður sterkari fyrir mig. Þarna fylgjumst við með stjörnum sem gætu vel bæði verið á himni og gangandi á jörðu. Bowie kann líka að semja lög sem virðast að einhverju leiti vera um geiminn og það heillar mig (samanber Starman). Fyrsta-flokks Bowie-lag tekur við af stjörnunum, Love is lost, og ég myndi vilja að það hefði fengið meiri athygli. Þarna gæti verið heilmikil sjálfskoðun hjá Bowie, eða bara saga um einhvern annan: „Your country's new, your friends are new Your house, and even your eyes are new Your maid is new, and your accent, too But your fear is as old as the world“ Heimurinn endurtekur sig, þótt allt sé nýtt, þá er óttinn síendurtekið stef, jafngamalt sjálfum heiminum. Helst að lagið endi of skyndilega, hefði ef til vill mátt endurtaka oft og lengi í lokin. Hugsanlega hefði yngri Bowie gert það, en hér erum við einmitt ekki að tala um hann, heldur nútíma-Bowie og þá hlustum við á þær ákvarðanir sem hann tekur í núinu. Við erum komin að lagi númer 5 og þar er kominn fyrsti singull plötunnar, Where are we now? Upprifjun á tímum Bowie í Berlín, og nostalgía með íhugun á því hvar hann standi í lífi sínu í dag. Stórfínt lag, og myndbandið ekki síðra, þarna er krækja í viðlagi, og texti, útsetning og flutningur lýtarlaus. Lagið var instant-klassík, en í raun er þetta eina lagið sem er svona yfirvegað og íhugult á plötunni. Minni sturlun og kraftur en í hinum lögunum, eða kannski eins mikil sturlun en hún er fullorðinslegri. Róleg sturlun, og ég elska hana. Sjötta lagið heitir Valentine‘s day og er að mínu mati fyrsta lag plötunnar sem er ekki framúrskarandi heldur bara gott. Það segir samt heilmikið um heildarmynd plötunnar að fyrsta lagið sem ég dýrka ekki út af lífinu sé prýðis-lag með fullt af litlum smáatriðum sem hægt sé að njóta, eins og skemmtilegum bakröddum sem Bowie er algjör meistari í, og alveg skuggalega flottum gítarlínum sem djamma í lok lagsins. Helst að lagið sé of „djollí“ fyrir minn smekk, ekki eins myrkt áferðar og mörg önnur lög plötunnar. Sjöunda lagið, If you can see me, bætir mér upp fyrir gleði og áhyggjuleysi síðasta lags. Myrk lagasmíð, afturábak-delay, mikið myrkur, klikkuð skrýtin aukahljóð í tónum, gítarinn með jafnvel einhvers konar yfirnáttúrulega stemmningu, draugalega, í riffunum. Bakraddir minna á bakraddirnar sem settu sterkan svip sinn á lagið The Bewely Brothers af plötunni Hunky Dory frá 1971. Þetta lag vinnur endalaust á, og þegar maður er kominn inní það veldur það gæsahúð. Indislegasta tegund af gæsahúð er David Bowie-gæsahúð og ég átta mig á því hvað ég var búin að sakna þeirrar tegundar. Tvímælalaust eitt af mínum uppáhaldslögum á plötunni. I´d rather be high er áttunda lag plötunnar og þar ræðst Bowie á stríðsbrölt heimsins. Hann fer ekki í felur með skoðun sína á hvað stríð er heimskt. Þar skorar hann auðvitað aukaprik hjá friðarsinnanum mér, og ég er svo sammmála Bowie í að maður myndi frekar vera dauður eða klikkaður en taka þátt í stríði með byssum. Það besta við þetta lag er hvað c-kaflinn kemur flott inn, og þarna vantar sko ekki enda með endurtekningum sem dáleiða mann, og svo rennur næsta lag fallega saman við. Næsta lag heitir Boss of me og er sjúklega töff. Það er skrítið að það hafi ekki verið gefið út sem smáskífa. Gítarsánd og gítarspilamennska á sinn þátt í því hvað þetta lag er vel heppnað, og við nánari eftirgrennslan kemur í ljós að gítarleikari Bowie á þessari plötu, Gerry Leonard, samdi þetta lag með Bowie. Þetta er afskaplega svalt, það er varla hægt að orða það öðruvísi. Svo detta inn saxófónar á hárréttum stöðum, og svo byrja gítarar að sleppa sér. Ótrúlega pottþétt lag, og textinn fjallar um hvað Bowie er jafn mannlegur og við hin. Þrátt fyrir að vera súperstjarna þarf hann að finna fyrir því að einhver ráði við hann. Vonandi á hann frábæra konu sem minnir hann á þegar það er komið að honum að vaska upp og fara út með ruslið! Tíunda lag plötunnar heitir Dancing out in space, og það byrjar eins og Iggi Pop-slagarinn Lust for life og er með skrýtnar Oh Baby-bakraddir og enn furðulegri texta sem ég botna lítið í, en mér líkar samt vel við lagið. Útsetningin á bakröddum og hljóðfæranotkun er eiginlega svolítið Frank Zappa-leg, mjög speisað allavega og allt skemmtilega samansoðið. How does the grass grow? er ellefta lag plötunnar, en það er með viðlagi sem er eiginlega bara stolið úr lagi með hljómsveitinni The Shadows, laginu Apache. Kannski ekki stolið, því Bowie er allt of meðvitaður um rokksöguna, en hann er allavega að vitna í stef sem er gegnumgangandi í þessu Shadows-lagi, og ég veit hreinlega ekki hvort það trufli mig, en ég held að minnsta kosti ekki að það sé að gera lagið eitthvað betra að mínu mati. Eins og áðan þegar frábært lag fylgdi lagi sem að mínu mati var bara „gott“ er lagið sem fylgir How does the grass grow? framúrskarandi rokk-slagara-grípandi og æsandi skemmtilegt lag. Það heitir (You will) Set the world on fire og er sólid! Gott gítarriff, æðislegt eyrnabræðandi gítarsóló, smáatriði í útsetningum jafnt í gítarlínum sem og í bassa- og trommuleik. „Kennedy would kill for the lines that you‘ve written“ er ein lína úr textanum og lýsir textagerð Bowies sjálfs afskaplega vel. Það er mikil list að gera dægurlagatexta sem fólk getur látið fjalla um það sem það er sjálft að hugsa um. Eitt besta lag á plötunni og þetta gítarsánd er tímalaus snilld, enda er Earl Slick að spila á gítarinn þarna en hann spilaði meðal annars inná tónleikaplötuna David live og stúdíóplöturnar Young Americans og Station to Station, ásamt því að vinna með fjölda annarra tónlistarmanna. Ekkert myndband hefur verið gert við þetta lag, og það ekki gefið út sem smáskífa, en ætti mikið erindi. Þrettánda og næstsíðasta lag The next day heitir You feel so lonely you could die, og er alveg frábært, og er líka mjög frumlegt á Bowie-kvarðanum, þ.e.a.s það er meira en bara frábært Bowie-lag heldur líka frumleg lagasmíð og ótroðnar slóðir fetaðar. Þetta gæti svo hæglega verið smáskífulag líka, gæti líka verið kover af gömlum standard með Animals eða einhverri annarri sixtís hljómsveit, en á sama tíma hljómar það splunkunýtt. Það endar svo með hendingu úr trommum sem Bowie-aðdáendur ættu að kannast við úr laginu Five years, af plötunni The Rise and fall of Ziggy Stardust and the Spiders from Mars. Lokalag plötunnar heitir Heat, og þar vegur textinn þungt og þrungaleg og þrúgandi lagasmíðin er framúrskarandi. Bowie viðurkennir hve týndur hann er, eins og kannski allir í heiminum. Mér finnst eins og hann sé að horfa í augun á mér þar sem við sitjum sitt hvoru megin við tveggja manna borð á litlu og fjölmennu kaffihúsi, og viðurkenna mennsku sína. Bowie er að breytast einu sinni enn, en nú er hann að verða að manni, frá því að upplifa tilvist sína sem eins konar geimveru. Hann er að klæða sig úr öllum stjörnum prýddu leikbúningunum og slekkur í leiðinni á reykvélinni og ljósasjóinu. „My father run the prison“, segir hann, og horfir fast í augun á mér. Það er kannski einn fangavörður í lífi hverrar manneskju. Á geisladisknum mínum eru 3 aukalög sem heita So she, Plan og I‘ll take you there, og þetta er því ekki partur af heildarsýn Bowie‘s sem platan á að endurspegla, en eru samt fínustu lög. So she er ef til vill smá áreynslulaust. Plan er ósungið og minnir um margt á mest spennandi plötur Bowie, Heroes og Low, þar sem má einmitt finna instrumental lög. Síðasta aukalagið, I‘ll take you there, er alveg frábært og eiginlega stórfurðulegt að það sé eitthvað auka. Það er reyndar í styttra lagi, en samt er það gott. Bowie gaf svo líka út sérstaka safnútgáfu af plötunni þar sem þessi 3 lög eru á sér diski ásamt lagi sem bara kom út í Japan, og remixum og svo enn öðrum aukalögum. Hann á nóg af lögum, svo virðist að minnsta kosti vera. Það er hægt að segja margt um David Bowie en ef til vill er samt aðalatriðið og það merkilegasta eftirfarandi: Hann er listamaður, og það er ekkert skrýtið að hann sendi frá sér mjög góða plötu. Það sem er skrýtið er hvers vegna það heyrðist ekkert frá honum svo lengi. Kannski þurfti Bowie að vera til í alvöruheiminum og finna sig, eða líklega fremur hætta að fela sig, svo hann gæti haldið áfram að skapa. Hann er allavega kominn aftur, hvaðan sem hann kom nú. Til hamingju með 68 ára afmælið elsku Bowie. Takk fyrir öll trúnóin, og takk fyrir að hjálpa mér oft með alls konar vesen og klúður. Þú átt svör við mörgu, og nú finnst mér að ég geti gefið þér svar til baka: Haltu bara áfram á þessum nótum. Þú þarft ekki búninga eða show, tónlistin þín nægir. Þú ert góður, sama hvernig þú ert. Hlakka til að heyra meira. Þín vinkona og aðdáandi, Heiða Eiríks. Skrifað í Reykjavík, 2013-2015