Leita í þessu bloggi

miðvikudagur, desember 29, 2010

ég fann svona gamlan spurningalista á einhverju bloggi hjá einhverjum og var að lesa færslu frá 2008. allt í einu langaði mig til að svara svona lista, það er oft jafn upplýsandi fyrir mann sjálfan og það er fyrir lesendurna:


Sjö hlutir sem ég ætla að gera áður en ég dey

1. búa í japan
2. læra spænsku
3. vinna við að taka upp geisladiska og spila þá á tónleikum
4. eiga landrover-jeppa og hafa aðgang að enskri sveit til að keyra um í
5. skrifa og gefa út ljóðabók/bækur
6. eiga plötubúð og útvarpsstöð sem starfar fyrir jaðartónlistarmenn
7. finna "heimalandið" mitt

Sjö hlutir sem ég get gert

1. sungið og spilað á gítar
2. elskað
3. brosað breytt
4. gert fína útvarpsþætti
5. samið lög
6. skrifað góðan texta
7. verið frumleg og komið (sjálfri mér) á óvart

Sjö hlutir sem ég get ekki gert

1. Skipulagt tíma minn
2. Sofið þegar ég þarf að sofa
3. elskað kulda
4. hlustað á leiðinlega tónlist
5. vaknað klukkan 6 á morgnanna (djöfull væri það svalt...)
6. horft á sjónvarp
7. samsamað mig við íslenskan raunveruleika (mainstream-veruleika, þ.e.a.s.)

Sjö hlutir sem heilla mig við hitt kynið

1. gáfur
2. kímnigáfa
3. mjóslegin líkamsbygging
4. tónlistarhæfileikar
5. hjartagæska
6. rómantík
7. jákvæðni og gleði

Sjö staðir sem mig langar á

1. japan, búa þar í framtíðinni einhverntíma
2. færeyjar, heimsókn, aldrei komið, algjör synd.
3. írland og bretlandseyjar, húkk- eða hjólatúr með elvari og óliver!!! væri geðveikt
4. berlin (fæ aldrei nóg, flytja þangað aftur)
5. barcelona (fæ aldrei nóg, fara á primavera-tónlistarhátíðina)
6. suður-frakkland, þvælast rómantískt með elvari
7. hudson í upstate new york, búa þar eitt sumar með elvari og óliver

Sjö orð eða setningar sem ég segi oft

1. geðveikt
2. sjitt
3. djöfull
4. næææs
5. ókey
6. vó
7. óliver

Sjö hlutir sem ég sé núna

1. gítar
2. gráa teppið
3. vínil-plötur
4. elvar
5. töskur og poka
6. ullarsokka
7. tölvur

mánudagur, desember 27, 2010

Þriðji í jólum (sem er ekki til í alvörunni en allir halda upp á) og lífið er gott. Var að lesa einn af mínum uppáhaldsbloggurum og hún er með svo skemmtilegt jólayfirlits-blogg að ég ákvað að segja aðeins frá mínum líka. Parísardaman er soldið góð áminning um hvers vegna maður vill blogga og lesa blogg eftir aðra. Það er bara svo gaman að sjá heiminn með augum annarra stundum...
Mín jól hófust seint eins og oftast. Ég byrjaði að pakka inn gjöfum löngu eftir hádegi á aðfangadag og hlustaði á Peter Tosh á meðan, heima í stofu. MJÖG jólaleg tónlist, og Óliver skreytti pakkana sem ég hafði lokið við að pakka inn. Svo var keyrt út og um allt, og reyndar voru ég og Elvar að hlusta á norsku black-metal-hljómsveitina Satyricon á meðan á því stóð, hressandi! Svo pakkaði ég rest inn heima hjá pa og ma og gerði mér svo Raw Chili sem ég borðaði í aðfangadagsmat, ásamt hnetusteik sem mamma gerði, báðir réttir vel heppnaðir. Ég er frekar góð í "the art of un-cooking" því ég gerði líka hráfæðis-súkkulaðiköku á jóladag sem var spænd upp af flestum á heimilinu... Á jóladag borðuðum við hvítlaukslöðrandi humra (og kjötæturnar, allir nema ég, borðuðu víst dáið reykt lamb líka). Dánu humrarnir hafa eflaust allir verið fjölskylduhumrar, og afburðagáfaðir líka, svo ég get ekkert gagnrýnt hina sem borða dáin lömb. Við spiluðum bæði hið stórkostlega spil "Eggjadans" (look it up, snilld) og nýja Popppunktinn, að sjálfsögðu. Það var æði að fá fólk í heimsókn að spila, alltaf jafngóð stemmning sem myndast í kring um svoleiðis. Ég og Alexandra höfðum reyndar hittst fyrr um daginn og fengið okkur náttfatagöngu, sem ég ætla hér með að gera að árvissum viðburði á jóladag. Náttfataganga gengur út á að vakna í náttfötum, fá sér morgunmat og tjilla smá og allt það, og fara svo út í göngutúr, enn í náttfötum! Það má fara í gammósíur eða sokkabuxur UNDIR náttbuxur eða kjól, en það verður að sjást í náttföt! Þetta var frábært og stórkostlega frelsandi tilfinning sem fylgdi því að vera svona kósí úti. Annar í jólum (gær) var bara almenn leti og eitt jólaboð um kveld, og þar voru allir glaðir kátir og yndislegir. Horfði á tvær myndir með Óliver þann dag: Cats and Dogs II, (rokkar feitt...) og Planet 51 (meistaraverk...). Nú er ég komin á Laugavatn, búin að fara í gufu og borða fiskrétt frá tengdaföður mínum, (fiskurinn sá var einkar ljúffengur), og svo horfðum við á mynd á RÚV um kattakonur sem var stórmerkileg. Er líka búin með eina múmínálfabók til viðbótar um jólin, (Pípuhattur galdramannsins, sú besta að mínu mati) og er að fara að byrja á árlegum Arnaldi núna rétt bráðum.
Af gjöfum: Vá! Fékk allt of mikið, hápunktar líklega að ég geti haldið áfram í hot-yoga eftir áramót, thanks to mapa og að ég eigi nú Vonbrigði á vínil, thanks to Elvar! Fékk reyndar líka rauðan palestínuklút frá Elvari (nææææææææs) og nýju Neil Young á cd (ofursvöl plata)....Alla tónlist er reyndar alltaf gaman að fá, fékk eitt eitthvað furðuband frá Alberti vini mínum, og Beach Boys og Steely Dan-vínilplötur frá Kristni vini mínum. Á morgun: Heimsókn á vinnustofu listamanns á Selfossi og einn kaffibolli á Mokka seinnipartinn...

laugardagur, desember 25, 2010

Gleðigleðiggleðigleðigleðigleðigleðigleðigleðigleðigleðigleðigleðigleðigleðigleðigleðigleðigleðigleðigleðigleðigleðigleðigleðigleðigleðigleðigleðigleðigleðigleðigleðigleðigleðigleðigleðigleðigleðigleðigleðigleðigleðigleðigleðigleðigleðigleðigleðigleðigleðigleðigleðigleðigleðigleðigleðigleðigleðileði
leg

fimmtudagur, desember 23, 2010

Þriðja skata ævi minnar komin í hús(maga) og ég er sátt, megasátt (megas-átt?, hvaða átt er það?) Auk þess að vera ægilega bragðgóð og verulega sterk, sér í lagi hnoðmörinn sem okkur pabba tókst að kalla flotmaur óvart, brenndi hún tunguna á mér í tætlur. Nú er ég með sviða og rauða díla á tungunni, sem mér skilst að breytist jafnvel í blöðrur á morgun...veeeiiii! En kikkið við að borða skötuna er alveg brenndrar tungu virði. Mér líður í alvöru eins og ég hafi verið í rosa-góðum rússíbana. Ég er farin að halda að ég miði alla reynslu mína við rússíbana, gerði það víst líka í stúdíóinu um daginn: Betra en rússibani. Skatan er svona á pari við rússíbana, þannig að hljóðversvinna trónir enn efst á lista yfir það skemmtilegasta sem maður gerir. En flotmaurinn, maður.....vá! Nú mega jólin koma fyrir mér, restin skiptir minna máli.

þriðjudagur, desember 21, 2010

Jæja, nú eru 3 dagar í jólin og svona. Örlítið leiðinlegt að vera lasin svona skömmu fyrir jól, en það verður örugglega betra á morgun. Er bara búin að horfa endalaust mikið á vídeó, soldið á þætti (friends, house, cougartown) en líka á tvær bíómyndir, The Reader, sem fær hæstu einkunn, og líka fyrstu Rambó-myndina (First blood), sem fær hæstu mögulegu einkunn líka. Djúp en samt hávaði og læti. Gæti reyndar verið lýsing á mér sjálfri....Nú er ég í baði, (BLOGG Í BAÐI?) og Elvar er nýbúinn að gera ofurgeðveikan geðsýkiskvöldmat, og er að ná í e-a mynd, ég ætla að reyna að skrúbba bakteríurnar af mér, þær sem eru utaná. Fyrir innri bakteríur hef ég fjárfest í hóstasafti, paratabs, dvítamíni, ofur-cvítamíni og oil of oregano, (look it up, þetta er eitthvað rohohohosalegt stöff). Svo bara klára ég útréttingar á morgun, þegar flensan verður farin (heyrirðu það, flensa!!!). Hvað er það aftur: Bókasafn sinnum 2, ein búð (leyni), önnur búð (líka leyni), sund og gufa, pakka e-u inn, jájá, eitthvað svona meira...bless beint úr baðinu...

föstudagur, desember 17, 2010

Dreymdi rétt áðan að ég var að tala við taminn hrafn, og þetta var gæfur og góður hrafn, ekki fullvaxinn en ekki ungi (svona stálpaður unglings-hrafn). Hann hoppaði upp á hendina mína og spurði mig á hrafnamáli hvernig stæði á því að ég gæti krunkað, og þegar hann var að krunka til mín þá bara skildi ég það (svona eins og maður skilur hvað orðin í frönsku þýða). Vandamálið mitt var að reyna að svara honum þannig að hann skildi mig og ég var að reyna að hugsa setninguna "ég hef alltaf kunnað að tala hrafnamál" og krunka á sama tíma svo hann myndi skilja mig, þegar ég vaknaði. Hvað þýðir þetta? Finn ekkert um það á netinu, nema að það að sjá hrafn sé fyrir dauða, en þetta var nú ekki beint þannig draumur...þetta fjallaði fyrst og fremst um mig og hrafnamál. Anyone?

miðvikudagur, desember 15, 2010

hóhóhó það er vika síðan ég bloggaði, ég er soldill vetrarbjörn í hýði, enda tvær dimmustu vikur ársins að ganga í garð. en síðasta færsla er, samkvæmt talningu blogger, 1000 bloggfærslan mín, sem gerir þessa að 1001. 1001 nótt, það var góð búð á laugaveginum, betri en hókus pókus, að mínu mati. enda var skyldustopp í 1001 nótt og í gramminu í hverri bæjarferð unglingsáranna minna, aðallega til að kaupa barmmerki (hafði oft ekki efni á neinu öðru). en þúveist, reykjavíkurferð með laugavegslabbi, einu keyptu barmmerki (oft david bowie) og kannski stoppi á hressó eða mokka til að kaupa kakó með rjóma (ekki byrjuð að drekka kaffi), var fullkomnum. svo var hægt að setjast á bekk, annað hvort á hlemmi eða á lækjartorgi og horfa á fólk. ég held ég fari að sitja meira á bekkjum á hlemmi, án gríns, það er mjög gaman. byrja á morgun, og ég ætla líka að endurvinna dósir á morgun, fara á bókasafnið, í klippingu, og syngja hellvar-lög í stúdíói. í dag var ég hins vegar í hýði.

fimmtudagur, desember 09, 2010

Sit á kaffihúsi með sojalatte og hlýði á fullt af skemmtilegri íslenskri tónlist, gegnumsósa af chillí frá Núðluskálinni á Skólavörðustíg. Fékk mér súpu "C" með ofur-miklu chilli svo ég svitnaði kringum augun og varð kalt í þeim. Ég er að fara að spila á tónleikum með Ég í kvöld á Sódómu, og hlakka til. Gott að borða mikið af chillí áður en maður syngur. Er að lesa aðra Múmínálfabókina mína, las þetta aldrei sem barn. Núna er ég að upplifa eyju múmínpabba....Hef komist að því að ég deili mestu með Múmínsnáðanum, en ég öfunda Míu litlu soldið af því að vera svona hugrökk og hugmyndarík. Ég meina, hún notaði eldhúshnífa til að fara á skauta á tjörninni, hún bara batt þá undir skóna sína. Af hverju hefur mér aldrei dottið það í hug, og ég sem á heima við hliðina á tjörninni? Bar þetta undir Elvar, og hann, rödd skynseminnar, sagði að líklega væri erfitt að halda jafnvægi á hnífunum....Kannski er Mía litla bara kúl í bókunum, og það sem hún gerir myndi ekki heppnast í alvöru. Þá er nú bara ágætt að vera eins og Múmínsnáðinn. Ég meina, hann elskar að vera einn og leitar sér að leynistöðum. Ég líka! Hann er ótrúlega góður og saklaus, og veit ekki hvenær Mía er að djóka í honum og hvenær hún er að segja satt....uuuuuuuu, ég líka....sko kann oftast ekki að átta mig á kaldhæðni. Ég er að átta mig á því, 39 ára gömul, að ég er eins og Múmínsnáðinn. Sem er nokkuð gott...

mánudagur, desember 06, 2010

Það voru 3 dagar í hljóðveri í þetta sinn, og útkoman eru 9 grunnar að lögum. Nú á eftir að syngja allt og svo bara alls kyns til viðbótar sem verður alltaf að gera áður en plata kallast plata. Sú mikla mýta, að tónlist sem og aðrar listir séu bara næstum sjálfsprottnar og birtist eftir eitthvað smá dútl og dundur listamannanna, er hér með hrakin aftur til föðurhúsanna. Þrotlausar æfingar Hellvar síðustu mánuði skiluðu sér í því að við gátum náð grunnunum inn "læf", (trommur, bassi og 3 grunngítarar voru spiluð inn á sama tíma í sama herbergi). Þvínæst er tekið eitt skref í einu þar til að lokum við höfum í höndunum nothæft "master-copy", og þá er hægt að fjöldaframleiða geisladisk út frá því. Ég er sannfærð um að þessi diskur sem við erum nú að taka upp eigi eftir að skola okkur langt frá Íslands-ströndum, en galdurinn við alla listsköpun er auðvitað sá að maður veit aldrei hvað neinum finnst nema manni sjálfum. "Bat out of Hellvar", fyrri diskur Hellvar, hefur núþegar breytt lífi ungmenna í Japan og Kína, svo hvað veit maður hvað gerist í þetta sinn? Það eina sem við getum vitað er að okkar lífssýn breytist við að gera þennan disk. Hvert lag verður sinn eigin litli einkaalheimur, og við þurfum að fylla inn í hann allt sem er viðeigandi að þar sé, áður en við sleppum af honum takinu. Næsta skref: Syngja inn í heimana 9.

laugardagur, desember 04, 2010

Smá hugleiðing á degi 2 í stúdíói með Hellvar: Það er æðislegt að rokka, æðislegt að skapa og lífið er stórfenglegt! Mér líður eins og ALLT sé í sinki og meiki sens. Nú er verið að taka upp grunn að lagi 6 af 8, eða kannski 9 lögum (fer eftir því hvernig gengur hvort eitt lag verði tekið hér eða látin standa sú útgáfa sem er til), og þessi plata verður alveg mögnuð. Hellvítis Hellvar-mögnuð. Og jésús pétur í allan vetur hvað ég er glöð. Tilfinningin sem ég er með í maga/haus/eyrum/úlnliðum/fótleggjum er eitthvað sem ég mun reyna að muna. Þetta er allavega skjal-fest hér á bloggi til að minna mig á síðar. Skemmtilegast að vera til í stúdíói. Betra en að borða bezta mat í heimi, drekka bezta drykk sem til er og allt. Betra en rússíbani og öll tívolítæki heimsins til saman, and that is the ultimate!

miðvikudagur, desember 01, 2010

Ef einhver er til í að koma í heimsókn í kvöld til að spila yatzí, þá ætlum við Óliver að gera það...Ég uppgötvaði sumsé í sundi í gær að minn elskulegi afleggjari kann ekki Yatzí, en ég var þrautþjálfaður spilari á hans aldri. Ég fann einmitt eina slíka blokk í kassa sem verið var að ganga frá um daginn. Blokkin fór í stofugluggann og bíður þess að vera notuð. Faðirinn á heimilinu er ekki mikill spilakarl en það er ég hins vegar og nú hugsa ég mér gott til glóðarinnar að gera Óliver yatzí-óðan, helst. Svo hefur hann verið að lesa fyrir mig fyrstu Harrý Potter-bókina í nokkur kvöld, og við föttuðum áðan (á leiðinni frá lúðrasveitaæfingu) að við værum bæði spennt fyrir því sem væri að koma í bókinni. Skrifstofan í kjallaranum ber nú nafn með rentu (tja "vinnuherbergi" væri nær lagi, því þar er líka gerð tónlist) en ég hef 2 daga í röð gripið niður í Heidegger vin minn þar. Funheitt og góður stemmari með tekatli og kertum gerir setuna í neðra bara notalega. Þetta sannar að það er ekki alltaf ávísun á helvíti að það skuli vera heitt í neðra.

mánudagur, nóvember 29, 2010

Ég er svo rosalega sátt við þennan mánudag. Byrjuð í Hot-jóga aftur og fór að sofa á miðnætti og vaknaði klukkan átta í morgun úthvíld í nýja rúminu okkar. Fórum á Gnarr í gær, loksins, Pabbi, Elvar, Óliver og ég. (3 uppáhalds karlarnir mínir í heiminum). Hún er vægast sagt frábær og við hlógum og hlógum, mæli eindregið með þessari mynd, fyrir þá sem ekki eru búnir að skella sér. Ég er búin að setja í vél og búin að taka úr einni og brjóta saman. Er að fara að gera túnfisksalat, mína (ó)venjulegu blöndu: mæjó, túnfiskur, rauðlaukur, tómatar, döðlur og krydd. Te með. Kveikja á kertum. Anda. Vera til.

föstudagur, nóvember 26, 2010

ókey, þetta krefst uppskriftar, meira fyrir sjálfa mig og framtíðina, þetta var bara svo gott!!!

Sjóða dökk hrísgrjón, ca. 1 bolla,
steikja á pönnu í olíu og sojasósu einn kínverskan hvítlauk, hálfan rauðlauk, eina rauða papriku, blanda soðnum kjúklingabaunum úr dós útí (ca. 3 matskeiðar) setja til hliðar.
steikja eitt egg, hræra, á pönnu, setja til hliðar.
sjóða vatn fyrir jasmín-te og mísósúpu (úr pakka, kommon...ekki orðin það klár enn...)

soðin hrísgrjón á disk, egg og grænmeti ofaná, klippa ferskan rósmarin ofaná allt. bera fram með skál af mísósúpu og einum katli af jasmín-tei og tebolla.

VÁ!
föstudagur, hvað ertu að gera? má ég vera með þér?
Þetta er textabrot úr lagi eftir gunna, af Stóra hvelli, að mig minnir. ég er ein, komin með gott rúm og hef tíma til að vinna um helgina. heitt inni hjá mér. kalt úti. var að drekka tebolla. veit ekki hvað mig langar í í kvöldmat. soldið óákveðin hvort mig langi að hitta fólk núna eða ekki. helmingurinn af mér vill vera alein, hinn vill sjá til.

fimmtudagur, nóvember 25, 2010

For some really strange reason I can't seem to be able to blog in Icelandic today, perhaps it has something to do with the fact of me writing my final thesis in Icelandic and sort of not really enjoying it at the moment. so when i wanted to write something for me, here, nothing came until I started to do it in English. I tricked my blog-block by changing languages. Maybe it is a trick that would work for the thesis as well, and then I'd just translate it later.
Today's daylight only kicked in around 10 a.m. and I am sort of paralized in the pitch black outside. Inside is warm and I am really focusing on warm and cozy things at the moment: candle-lights, blankets, good books, tea-pots, the lot! Unbearable otherwise, it is as simple as that. Even though I am doing all I can to make the wintertime cozy, as well as going to the sauna-bath almost every other day of the week, I have already started thinking about warmer places with more sunshine. It sort of happens without me noticing it. It might start as a dream in the night. I wake up from it and remember only something about me walking around in t-shirt and skirt, barelegged, and being warm, and everything really bright with the sunshine. I then think about this dream, and it becomes a day-dream as well. Then I automatically start reading a small column in the daily paper called "veður víða um heim" (weather around the world). I read up on the temperature in Alicante, and in Rome, and in Miami, or wherever it is warm that day. Then I compare it to here. At the moment my condition is not too bad, but there is also the big cristmas-thingie coming up, and even better, our friend Rob coming over by the end of the year, which is a huge thing to look foreward to. But right about the beginning of January I start counting days until I get enough daylight and enough warmth again. Usually I have to wait for April until I am sure the winter is over. THAT is more than 100 days. February is my least favorite month, January the second least favorite, even with my birthday in there and everything. I am not fit to be in this country during January, February, and March. I really have to find a way to survive here, sort of find the trick around those 100 days, instead of just waiting. Or, second best, start working out a way to spend all winters in warm climate. Leave Iceland for the 3 coldest months every year. I mean, the birds do it, right? Isn't there a job somewhere warm that I could do next year?

mánudagur, nóvember 22, 2010

Skoh, fór að sofa 2 en vaknaði samt kl. 8. er á leið í Mosó að ná í alternator (sem er ansi gott nafn á alternative hljómsveit, helst smá industrial í leiðinni). Fer svo að kjósa, búin að raða, og svo að læra. Svo þarf ég, fari það í hábölvaðar hámerar, að drullast í bælið fyrir 11 á kvöldin. Núna í svartasta skammdegi (já eða mjög dökkgráu allavega, hið svartasta er í desember) þarf ég að lágmarki 9 tíma svefn. Vakna átta? Þá bara fara að sofa ellefu og sorrí stína og ekkert múður. Ætla ég að ljúka ritgerð, eða sofa á daginn? Ljúka ritgerð, takk. Þá: Sofa síðasta lagi ellefu. Þarna sáuð þið dæmi um heimspekilega aðleiðslu og góða vinnslu úr gögnum og forgangsröðun. Rökleiðsla í lagi líka...

sunnudagur, nóvember 21, 2010

nú er byrjað að sýna harry potter í bíó...það er alveg mögulega mín uppáhalds persóna sem birst hefur í skáldsögu. harrý potter er tákn um það sem ég sem krakki og unglingur vonaði: að ég væri svona skrítin vegna þess að ég hefði sérstaka hæfileika og ætti bara eftir að finna hópinn sem ég passaði inn í. harry hefur galdra og "fann sig" þegar hann fékk inngöngu í hogwarts-skóla, ég fann mig þegar ég byrjaði í fyrstu hljómsveitinni minni. ja eða kannski fyrst þegar ég fékk að vera plötusnúður í barnaskóla, síðasta bekk fyrir gaggó. þá var ég ellefu ára, og ég og vinkona mín fengum að spila tónlistina sem allir voru að dansa við. ég fann hvað það átti við mig og hvað ég gat það auðveldlega og hvað ég tók þetta alvarlega maður....vá!
Harry gerir vonandi mismunandi hluti fyrir alla sína aðdáendur, en ég vona að hann veiti okkur samt öllum von um að hið góða sigri og við höfum öll hæfileika sem við eigum að finna og rækta...

fimmtudagur, nóvember 18, 2010

ég á vin sem færði mér einu sinni 3 kassettubox full af kasettum sem einhver hafði hent á haugana. var heilmikið búin að skoða 2 þeirra og hlustaði reglulega á fullt af dóti þar, en 3ja boxið fór einhvern veginn forgörðum og ég var að finna það í kassa með dóti frá Óliver rétt áðan. Þarna er t.d. Linton Kwesi Johnson -Making History, æðisleg, og St. Peppers, keypt kasetta. Stórkostleg kasetta frá Triumvirat, sem er þýsk proggsveit, plata frá 1975 sem heitir Spartacus og er svokölluð "konseptplata" um skylmingaþræla......(vá!) Þetta er allt saman gott og blessað, en sú kasetta sem ég gjörsamlega er kolfallin fyrir í dag er íslensk með Valgeir Guðjónssyni og heitir "Góðir Íslendingar". Titillagið er frábært og "hittarinn" sem er eina lagið sem ég hafði heyrt, "ekki segja góða nótt", er nokkuð gott, en........"Týpísk algerlega vonlaus ást" er ÆÐISLEGT! Af hverju var þetta ekki vinsælt lag? Platan kemur út 1988, og jú, ég var líklega aðeins í uppreisn gegn öllu venjulegu á þeim árum, (lesist: uppreisn gegn öllu nema hávaða og brjálæði....) en Valgeir er bara svo stórkostlegur lagahöfundur/textahöfundur og flytjandi. Textarnir á þessari plötu eru hugleiðingar um hversdagslíf hinna góðu Íslendinga. Það er afslöppuð stemmning og maður heyrir hvað hann er bara algjörlega hann sjálfur, þrátt fyrir 1988-syntesæsera sem stundum eru soldið mikið áberandi. Svona uppgötvanir er svo gott að gera, og styrkir mann í þeirri trú manns að góð tónlist haldi alltaf áfram að vera góð tónlist, burtséð frá tískustraumum og dægursveiflum líðandi stundar. Gott lag er og verður gott lag, og gleður á óvenjulegustu stundum, í þessu tilviki: mig 22 árum eftir útkomu. Takk fyrir mig!

þriðjudagur, nóvember 16, 2010

Eureka! Okkur vantar ríkisniðurgreiddan ost. Skýra eina tegund af brauðosti "Ríkisostur" og bara gefa öllum fjölskyldum kost á að kaupa ost handa börnunum sínum. Hafiði pælt í kílóverðinu á venjulegum druslu-osti á Íslandi?
Þetta var uppgötvun dagsins. Svo fór ég í smá göngutúr, og nú fer ég í rútu í Kef. sjáumst.

mánudagur, nóvember 15, 2010

Fór tvisvar út að labba í dag, með Óliver í skólann í morgunn og ná í hann í skólann klukkan tvö. get svarið fyrir það að það er satanískur kuldi í reykjavík í dag. Fann minna fyrir því eftir hádegi, enda ekki ný-ný-nývöknuð, og búin að drekka kaffi og svona. Var líka í appelsínugulu dúnúlpunni eftir hádegi, en ekki í morgun. Hún er soldið sjúskuð, og í raun aðeins of stór á mig, veit ekki af hverju ég fékk mér ekki minni, en fokk hvað hún er hlý. Man að pabbi og mamma gáfu mér hana, líklega bara árið 2000 eða eitthvað svoleiðis. Kannski 1999 meira að segja. Fór áðan með einn reikn. og í hreinsun, svo í bónus og bakarí. gerði túnfisksalat og sit nú og íhuga lífið og tilveruna. elvar setti upp fatasnaga frammi á gangi, fyrir yfirhafnir. óliver er búinn að lesa heima og farinn niður á tjörn sem er frosin, með nýjum vinum sínum sem eru rosa góðir strákar. margir litlir góðir og hversdagslegir hlutir. í kvöld ætla ég að lagfæra smá í ritgerð. einset mér að taka bara 5 blaðsíður á dag, það er ekki of mikið og ekki of lítið. hellvar spilar næst á föstudag, og náum engri æfingu í vikunni, og því er tími fyrir ritgerð núna.

laugardagur, nóvember 13, 2010

Hænuungarnir, leikrit eftir Braga Ólafsson, frábært! Þjóðleikhúsið, frábært! Ég er alveg með puttann á púlsinum, þetta var sko 62. sýning. Ekkert minna frábært fyrir það....

þriðjudagur, nóvember 09, 2010

Trommurnar í "Come together" eru líklega uppáhalds-Bítlalagstrommurnar mínar. Sándið er fullkomið, og performansinn líka. Vona bara að þetta sé ekki eitt af þeim trökkum sem Paul spilaði yfir í skjóli nætur, án þess að Ringó fengi að vita. Paul er soldið klikk að hafa gert þetta, nú ef hann gerði þetta þá nokkuð. Sögur eru ekki alltaf sannar. Sit á Hemma og Valda og reyni að ná nægri örvæntingu til að halda áfram með breytingar á ritgerð. Það gengur illa því þeir eru að spila svo rosalega góða 60's-tónlist. Come together var að klárast, Time of the season m. Zombies er núna. Áðan var Lola og You really got me með Kinks, svo á undan því var Nights in white satin með Procul Harum. Ég drekk piparmyntute og gleðst yfir spilamennsku horfinna tíma, þegar snerilsánd snérist enn um góða mæka, staðsetningu, spilamennsku og rými sem tekið var upp í. Núna byrjaði Hello, I love you með Doors. Maður heyrir auðvitað hvers vegna Stranglers var líkt við þetta band, sérstaklega í meira agressívu lögum Doors, eins og þessu. Keyrslutrommur og bissí bassi. Noh, nú byrjar Eight days a week, það er nú gleðigjafi. Já blogg í beinni um góða stemmningu á Hemma og Valda. Djöfull þarf ég eitthvað að fá að vera með útvarpsþátt, ég veit allt of mikið um tónlist og hef of mikinn áhuga, til að þetta fái bara útrás í bloggum. Tónlist nýtur sín ekki alveg nógu vel í bloggformi....

miðvikudagur, nóvember 03, 2010

Ég er hætt að vera með rugl-veiki-kvef, enn einu sinni. Eða svona næstum því. Gruna að ég þurfi að taka einhvern vítamínkúr, það bara gengur ekki að ég fái hreinlega allar umgangspestir. Lærði samt vel um helgina, komst í gírinn og get nú haldið áfram. Þarf upp í bókhlöðu að fá eina bók og framlengja nokkrum sem ég hef. Það er ótrúlegt hvað bókasöfn eru spennó. Þori samt ekki að fara á "venjuleg" bókasöfn og taka skáldsögurnar sem flæða nú um allt. Það er jólabókaflóð að hefjast og ég hef ekki tíma í svoleiðis strax. Bráðum, bráðum...

sunnudagur, október 31, 2010

Það er mikið hægt að læra í sveitinni. Í risastórum hringgöngutúr í gær hitti ég kýr að gæða sér á káli, kindur sem eltu mig því þær fóru mannavillt, og þurfti að klifra yfir um átta girðingar til að komast heim. Sat hjá á og hugsaði. Horfði í gær upp í stjörnubjartan himin og fattaði að ég þarf að hætta að skamma sjálfa mig inni í hausnum á mér. Það er allt í lagi með það sem ég er að gera. Ég er alveg í fínu lagi. Þetta sögðu stjörnurnar mér. Svo fór ég inn og lærði og lagfærði til 4 í nótt, vaknaði samt klukkan 10 til að fara og láta hundinn Kisu pissa og gefa henni mat. Fékk svo kaffi og sveitaspjall, sem ég gat ekkert lagt til málanna í, sat bara og hlustaði. Fór svo og las yfir ca. eina bók með mörgum greinum. Var einhvern vegin búin að gera næstum dagsverk, að mér fannst og samt var bara hádegi. Tímaleysi. Finn að meira að segja flugurnar í sveitinni eru tjillaðri en flugurnar í Reykjavík. Ein sat á lærinu á mér allan tíman meðan ég las áðan, fékk sér morgunbað og lagði sig svo. Svo fór ég að hugsa um dúllusokka, og komst að því að það hefur næstum ekkert verið skrifað um dúllusokka á íslensk blogg. Langaði allt í einu einhver ósköp til að eiga svoleiðis. Hér er síða sem ég fann eftir mikla leit: http://bamasocks.com/Low-Cut/c12/index.html?page=4, sokkabúð í Alabama. Fann hana þegar ég sló inn "socks with balls" í google. Þarna á Alabama-síðunni eru þeir kallaðir pom pom socks. Þegar ég slæ það í google opnast fyrir mér fjársjóður dúllusokka í öllum stærðum og gerðum. Þá veit ég það.
Niðurstaða úr þessu bloggi: Sveitin er góð til skrifta, og dúllusokkar heita pom pom socks á ensku.

föstudagur, október 29, 2010

komin upp í sveit. það er ljúft. hér verður tekið vel á móti öllum straumum sem streyma í gegn og hjálpa til að ljúka verki. Hálfnað verk þá hafið bláa hafið hugann dregur.

miðvikudagur, október 27, 2010

Jæja, blogg dagsins er alls sem kemur í hugann svona í fljótu bragði, og tengist ekki stjórnmálum, stjórnlagaþingi eða framtíð Íslands á nokkurn hátt. Ég er meira svona í minni eigin framtíð í mínum eigin prívat-kolli, og þar er þingað um skipulagningu tímans og hvað ég eyði honum í. Hin margskipta Heiða er alveg að hætta að vera heimspekinemi, en langar svolítið "að fara út með hvelli" (go out with a bang), sem sagt gera voðalega vel í lokaritgerð. Kröfur á sjálfa mig eru því í hámarki, en á sama tíma er nýafstaðið velheppnað Airwvaves og fyrirliggjandi upptökur á Hellvar-plötu númer tvö. Æfingar og skipulagning því tilheyrandi, og svo til að rugla aðeins meira reitunum er ég svona mjög nálægt því að verða óð af því að hafa ekki vinnu sem ég mæti í á morgnanna og klára eftirmiðdag. Ég þarf röð og reglu, en samt tíma til að klára ritgerð/upptökur. Flókið? Nei ekki svo. Eitt í einu reglan verður bara að virka hér. Því er æfing og skipulag Hellvar í dag/kvöld og jafnvel líka á morgun. Um helgina verð ég að reyna að galdra fram einhvern stað sem ég get verið á alein (sumarbústaður í sveit?, eitthvað einhverstaðar?) og vera þar, ein. Klára. Ljúka. Svo er bara upptökur, og finna vinnu, vinna hana. Ekki of mikið samt, þá fer bak í lás, svokallaðan baklás......hehehe. Haus, farðu að vinna vinnuna þína. Strax. Eitt í einu, ekki allt í einu. Búið.

laugardagur, október 23, 2010

ég held, svei mér þá, að ég sé laus úr viðjum eftir-áhrifa airwaves-hátíðarinnar 2010. helmingur gesta og tónlistarmanna hefur legið í flensu alla þessa viku og í gær var fyrsti almennilegi fótaferðadagurinn minn síðan á mánudag. ég hef nokkurn veginn legið í sófa í móki og glápt á friends-þætti og chick-flicks til skiptis þessa viku. á meðan fullkláraði elvar vinnuherbergið okkar og hef ég nú alla aðstöðu til að ljúka skrifum, og við göngum einnig í gerð næstu hellvar-plötu sem verður bæ ðe vei ooooosoooommm. svo bara er lífið gott. rúllar. eitt verkefni klárast og þá leitar hugurinn að næsta verkefni. jólin byrjuð í ikea og svona.....hahahhahaha.

fimmtudagur, október 14, 2010

Hellvar in Reykjavik backpackers in Laugavegur tonight at 18.00, tomorrow in Badtaste at 15.00 and tomorrow in 10 dropar at 18.00. Saturday in NASA for the official Airwaves gigg, at 19.30. Ship, plant, raindrop, old smelly shoe and one hundred ants will all be there...will you?

mánudagur, október 11, 2010

ég er gjörsamlega laus undan fargi internets og sjónvarps. les reyndar fréttablaðið spjaldanna á milli og hlusta aðeins einbeittara á útvarp þegar ég heyri í því. en það er eins og ég sé bara að klæða mig úr mörgum fatalögum, ég er eitthvað svo sátt við þetta. ég meina, sjónvarp heima? Af hverju er það svona skemmtilegt? Er það bara til að hafa eitthvað að tala um við þá sem maður hittir og gera ekkert nema horfa á imbann? Ég er ofur-sátt, og svo smitast þetta líka inn á önnur svæði. Ég er til dæmis ekki með gsm-símann minn á mér núna...ég meina, ef einhver hringir þá hringi ég bara aftur í hann. það er bara svo gott að vera í svona tímaleysi/frelsisástandi. fórum líka í viðey á laugardag og það var alveg magnað barasta. fórum svo á sveppamyndina í gær (óliver búinn að rella um að fara á hana lengi) og jájá, ekki orð um það meir bara. ægilega leiðinlegt að hafa barna myndir í þrívídd til að geta rukkað meira...það er ekki eins og þrívíddin sé einu sinni sérlega sjáanleg í þessari mynd...var eiginlega bara gaman að sjá Avatar í þrívídd, allt annað má bara vera svona venjulega tvívítt og það er alveg nógu spennandi þannig. þetta hlýtur að leggjast af, andskotinn hafi það, er þetta ekki bara nýjungagirni?

fimmtudagur, október 07, 2010

http://vefir.ruv.is/poppland/besta_lennon_koverlagid/
Næstsíðasti dagur í kosningu í dag...
Óliver fann upp nýtt sund í gær, það heitir "Handgrímur". Felst í því að vera stífur í vatninu og halla sér afturábak og sökkva og ýta sér upp á yfirborðið með höndum og fótum, fara á afturábakstökkvum yfir alla laugina sem sagt. Sundið er frumlegt, og nafnið afar grípandi, semsagt alls sem gott sund þarf. Ég meina langar ykkur ekki að kunna að synda bæði skriðsund og "handgrím"?
Plís kjósiði mig, og úr öllum tölvum sem þið sjáið...munar um allt....

miðvikudagur, október 06, 2010

Eruði búin að kjósa mig í dag?
http://vefir.ruv.is/poppland/besta_lennon_koverlagid/

Er að lesa frábæra bók eftir haruki murakami
Hún heitir "underground" og fjallar um hræðileg hryðjuverk sem áttu sér stað í tokyo-neðanjarðarlestinni árið 1995. By the way, Murakami er uppáhalds-höfundurinn minn og ég er hér með farin að safna bókum hans. Á enn eftir að lesa dálítið samkvæmt Wikipediu um hann en af skáldsögum hef ég lesið:
Pinball, 1973
Norwegian Wood
Dance Dance Dance
South of the Border, West of the Sun
Sputnik Sweetheart
Kafka on the Shore

Svo hef ég lesið The elephant vanishes, smásagnasafn, og "Eftir skjálftann" (veit ekki nema íslenska nafnið, en það er líka smásagnasafn. Underground er semsé ekki skáldsaga, og það fyrsta sem ég les eftir Murakami sem hefur í alvörunni gerst. Það er samt svo merkilegt að lýsingar hans á "venjulegu" fólki sem tók lestina morguninn sem taugagasinu var sleppt í lestunum eru svo langt frá því að vera venjulegar. Það er líklega styrkur Murakami, að lýsa hinu hefðbundna á þann hátt að það virðist spennandi og framandi.

Eruði búin að kjósa mig í dag? http://vefir.ruv.is/poppland/besta_lennon_koverlagid/

laugardagur, október 02, 2010

Plís kjóstu I'm only sleeping með Heiðu trúbador...Ég komst nefnilega í úrslit í Lennonlagakeppni Rásar 2. Elska John Lennon og þetta lag. Hef verið að spila það síðan ég var unglingur enda fjallar það um hvað það er gott að sofa. Ég þarf samstöðu hérna krakkar mínir!
Please wote for I'm only sleeping w. Heida trubador...I made the finals in the Lennon-cover competition at Radio 2 in Iceland. I love John Lennon and this song. I've played it since I was a teenager, as it is about how good it is to sleep. I need your support here, people!
http://vefir.ruv.is/poppland/besta_lennon_koverlagid/

miðvikudagur, september 29, 2010

er ekki alveg búin að hugsa..... en fór á eina mynd á riff, sem lýsir tíbet-málum öllum afar vel. það fékk mig til að hugsa. þarf nú að hellvar-ast og klára svo að hugsa um heidegger....erum við samt einhvern tíman BÚIN að hugsa alveg? Ritgerðin verður augljóslega betri við athugasemdir snillinganna sem leiðbeina mér, en þá verð ég líka að "halda vel á spöðunum" (hvaða spaða er verið að tala um....? Er þetta úr spilamennsku eða eldamennsku? Svar óskast)Já, ég vissi nú reyndar alltaf að þetta væri ekki lokaútgáfa ritgerðar, heldur fyrsta uppkast, en svo er líklega ekki það mikið eftir. Mér var bent á að hugsa aðeins "hægar", þ.e.a.s. gefa hverjum punkti meira rými....sem sagt of mikið úr einu í annað...sem er ágæt lýsing á mér svo sem. Ég þarf að skerpa fókusinn og athuga með að stokka efniskafla aðeins upp. Við ræddum líka fjallgöngur(!!) sem tengjast alveg óvart nákvæmlega því að skrifa ritgerð á borð við þessa. Páll benti svo á að það sem væri eftir núna væri þolinmæðisvinna. Það færi þó aldrei svo að ég lærði þolinmæði á ferlinu við að skrifa mastersgráðu??? En hm, sem sagt ég er EKKI alveg búin...Ekki alveg....ekki missa fókus heiða...

mánudagur, september 27, 2010

það er svo rosalegt þegar google sér tilefni til að vera með öðruvísi myndskreytingu en vanalega fyrir ofan leitargluggann á vefsíðu sinni. allir hafa líklega rekist á jólaútgáfu eða páskaútgáfu, en svo eru sumar útgáfur bara ætlaðar í einn dag, eins og til dæmis þessi sem er í dag:



það er víst 12 ára afmæli google í dag. Tólf ára áfmæli! Getur það staðist? Þá hefur google byrjað árið 1998, einungis þremur árum eftir að ég fór fyrst á netið á Síberíu-netkaffihúsinu hans Einars Arnar. Hann hjálpaði mér einmitt að stofna fyrsta rafpóstreikninginn, sem var heida@saga.is. Þá hékk maður á irk-inu... og notaði þessa síðu svolítið: http://www.uroulette.com/

Borðaði áðan á Núðlu-skálinni sem er á Skólavörðustíg. Besta súpa sem ég hef fengið á ævinni, í alvöru! Allar aðrar súpur fölna...enda var chilli og engifer og hvítlaukur og kóríander og allskyns krydd sem ég kann ekki nöfnin á. Verulega mikið alvöru matur. Og mikið úrval af súpum. Elvars var allt öðruvísi, með kalkúnabollum og tómatsúpu-based, meðan mín var grænmetis og kókosmjólkur-based. Ég er aðdáandi súpu, pæliði í því. Og líka: Ein súpuskál getur búið til fullt af hamingju, pæliði í því...
Góðan dag, góðan dag. Vinnuvika í ritgerð að hefjast, (sú síðasta vonandi). Á leið í lagfæringu eftir hádegi, ekki svo mikið á mér heldur frekar að slá inn lagfæringar á ritgerð, en svo hitti ég leiðbeinendur, kannski bara strax á morgun, sem hafa heilmikið að segja mér til viðbótar. Það glittir í endann... Byrjaði samt daginn á löngu baði, sem var hrikalega næs, eftir 10 tíma svefn frá 10 í gær til 8 í morgun. Furðulega undarlega tilvera! Þú ert ekki svo slæm, alls ekki svo slæm. Það er líka komið að æfingum Hellvar, allavega ein á mið, og kannski jafnvel ein á mið og ein á fim. Ef við náum tveimur æfingum, getum við tekið upp læfdemó á fimmtudag, undirbúið það á miðvikudag....Lífið er prýðó...síjúó!

fimmtudagur, september 23, 2010

nú er ég á leiðinni á skrifstofuna að laga ritgerðina aðeins til, þ.e.a.s. þær breytingar/innsláttarvillur sem ég fann og vinur minn sem las hana fann. Ég hef enn ekki fengið neinar athugasemdir frá leiðbeinendum, en það kemur eftir næstu helgi. Hellvar spilar á airwaves sem er gott, og því þurfum við að æfa. við þurfum líka að koma lagi á herbergi sem er að fara að vera tónlistarherbergi, en það er hálf-fullt af dótaríi. spurning um að taka kolaportsbás....mamma og pabbi viljiði taka svona bás með mér? þið eigið nú eitthvað af dótaríi sem þið gætum losað um...svo er bara áfram áfram stuð. ólivers afmæli laugardag og sunnudag, dugir ekkert minna. á laugardag koma stórir og smáir í fjölskyldaunni og á sunnudag koma bekkjarbræður hans, í sérpantað afmæli sem stendur frá 12.00 til 19.00!!! það er ekkert slegið slöku við í afmælisfílíng þegar maður er að verða níu. nákvæmlega núna er ég ekki stressuð og ekki þreytt en ég var líka að enda við að sporðrenna tvöföldum soja-latte og sofa í 12 tíma....annars er ég í spennufalli dauðans. ætla að taka skrifstofu/tölvudag í dag og svo útréttingadag á morgun (bónus, húsaleigubótaskrifstofa....hugsanlegar vinnur til að sækja um....)
svona er lífið í heiðubæ...

mánudagur, september 20, 2010

Sumarlandið er frábær mynd, í alla staði! Enn hvað það er gaman að fara 3 kynslóðir á hana og allir fíluðu hana svona vel. Pabbinn og afinn, dóttirin og mamman, sonurinn og afabarnið og Elvarinn,(tengdasonur,maður,pabbi). Óliver talaði um hana á leiðinni í skólann í dag, og við "fullorðna" fólkið (hvenær mun þetta orð eiginlega eiga við mig?) vorum einnig mjög hrifin. Ritgerðin sem ég skilaði á föstudaginn klukkan sjö er sem strokuð út úr minninu mínu, enda hef ég ekki þorað að lesa hana aftur síðan þá. Þarf samt eiginlega að gera það í dag. Hef ekki fengið nein viðbrögð frá leiðbeinanda ennþá, en bíð spennt og tékka á meili á klukkutíma fresti. Get ekki beðið að vera bara almenniega búin, búin að verja munnlega og allt. Er soldið bara til í að finna mér einhverja vinnu núna bráðlega. Var einmitt að semja í huganum smáauglýsinguna: Ofur hress nýútskrifaður veru- og fyrirbærafræðingur óskar eftir einhverju að gera. Ég myndi bara fá eitthvað draugatengt, því það veit enginn hvað verufræði eða fyrirbærafræði er. Ætli fólk haldi ekki bara að það sé sama og "exorcist"? Að flæma út óæskilegar verur og fyrirbæri úr gömlum húsum? En mjá, góða vinnu. Anyone?

föstudagur, september 17, 2010

mánudagur, september 13, 2010

trúi ekki að ég sé búin að vera hérna í 'hlöðunni síðan klukkan ellefu í morgun (reyndar með einu matargati klukkan ca.hálf-3 til fjögur). byrjaði daginn á gufu, þ.e.a.s. saunu í vesturbæjarlaug. þar var ein gömul kona og hún var sko ekkert að spara sig, hékk endalaust í gufunni og hún var heit (gufan, ekki konan). bakið mitt hafði gott af, en nú er ég hætt að finna fyrir því og hætt að meika sens, eins og gerist á hverju kvöldi þessa dagana. held að það sé gott að ég skrifi þetta allt niður núna, svo ég geti flett upp í blogginu mínu síðar (í framtíðinni ef/þegar ég fer að pæla í doktorsnámi) og séð hvernig mér leið á lokaspretti masters. deadlines. dauðarlínur. Þegar upp er staðið er ritgerðin ekkert annað en nokkrar dauðar línur. Það er fólkið sem er lifandi og getur gert líf sitt eins lifandi og dautt og það vill. Ég býst ekki við því að ritgerðin mín muni breyta heiminum, (nema þú sért fellow-heimspekingur með áhuga á Heidegger). Svona er þá nám....ég veit helling, og afar fáir vilja vita það sem ég veit, en það er allt í lagi, því lífið er alls konar, og meikar alls ekki alltaf neins konar sens.

föstudagur, september 10, 2010

Veit ekki hvers vegna en þetta er svo sterkt í hausnum á mér núna. er að pæla í því hvert vegir Heidegger eru að fara með mig....var brjálað dugleg í morgun og las frá 9-12....svo pása og svo þegar ég ætlaði að fara að skrifa núna um eftirmiðdag kom ekki neitt....það er sól í borginni og glugginn fallegi með útsýni yfir hringbrautina og krikjugarðinn er rosalega mikið aðdráttaraft. stundum bara kemur eitthvað og stundum ekki. ég les þá bara meira í kvöld og vakna og skrifa á morgun...svona er þetta bara. en þetta lag er svo mikið lokalag, passar í lokin á alls konar eins og til dæmis útvarpsþáttum. fullkomið síðasta lag í lok útvarpsþáttar. þessi útgáfa er önnur en á plötunni, og einhvern veginn auðmjúkari, hefur eitthvað sakleysi sem hin hefur ekki, enda er hún útúrpródúsuð. stundum er less more, og ætli ég verði ekki bara að nota það líka í ritgerðinni, enda mun ég ekki geta sagt allt sem ég er að hugsa. maður klárar aldrei að hugsa í heimspeki, því þá myndi maður bara drepa heimspekina og hugsunina í leiðinni: Njótið og góða helgi!
Hér er linkur: http://gagnauga.is
Lesilesi...

fimmtudagur, september 09, 2010

NÚ er fyrst eitthvað að fara að gerast hjá mér á öllum vígstöðvum: Er að lesa Letter on Humanism, Time and Being og Enownment (grein um Heidegger) á sama tíma og ég skanna þá sjötíuogeitthvað vini sem ég á á facebook. Já, ég var með 700 og eitthvað, sagði bara já við alla, og allir sem ég sagði hæ við úti í búð eða voru með mér í sexárabekk leitaði ég að og gerði að vinum mínum. fannst mér bera heilög skylda til að hafa alla sem ég hafði nokkurn tíman þekkt þarna. en núna......bara nánustu, og ekki einu sinni allir, því suma vil ég bara hringja í eða senda rafpóst til. það er nefnilega svo að fyrir feis áttu allir vini líka. og svo fór ég áðan til læknis sem skoðaði bakmeiðsli mín tveimur árum eftir slys uppá það hvort mér beri einhverjar skaðabætur, og á leiðinni úr skoðuninni steig ég í poll svo nú er ég að drepast úr eigin táfýlu. Skítur í síðasta bloggi, táfýla í þessu, hvað verður það næst?
Allavega, ég er með 45 síður af meistaralegum skrifum í tölvu, og er að lesa (án gríns!) þrjá texta í einu, flakka á milli. Hljómar soldið manískt, en ég fæ þá ekki leið á neinum þeirra. Ók, hljómar meira Línu langsokk-ískt en manískt, sem er gott....eða er það ekki? HA! Sakna Berlín minna þegar ég bý í Reykjavík, og svo veit ég líka að Begga vinkona er núna að passa uppá að það sé ein brjáluð íslensk stelpa búsett þar. Það er mikilvægt að svoleiðis sé alltaf í Berlín. Hvað á ég svo að gera eftir RITGERÐ? Langar að skrifa bók, en myndi ég púlla það? Kannski ljóðabókina sem ég er að semja í stundum. Langar líka að hafa myndlistasýningu. Langar líka að klára Hellvar-plötu. Langar líka að gera trúbadoraplötu. Langar líka að hafa sjónvarpsþátt.....langar líka að.....ókey, ritgerð. síjúbæ.

þriðjudagur, september 07, 2010

Jæja, nú þegar einbeitingin er farin í dag, og ég að spá í að rölta heim áður en myrkrið skellur á, er gott að staldra við og fara yfir daginn: Foreldrafundur í morgun, afar vel heppnaður. Smá lestur tölvupósts og bloggs eftir það í tölvustofu H.Í. og í framhaldinu virkilega frambærilegar núðlur með grænmeti í Hámu /Elvar fékk sér lasagne með dánu dýri í. Við það búið er skundað upp í Þjóðarbókhlöðu þar sem dagurinn er virkilega tekinn með trompi og lesið og skrifað eins og vindurinn (sem reyndar ég veit ekki til að lesi né skrifi, en whatever...) Um tvöleitið fer ég að fá smá vindverki og afskrifa það sem stress, enda er ég helvíti stressuð þessa dagana. Nú svo kemur smá svona þrýstingur sem ég held náttúrulega að sé bara prumpi og leifi honum því bara að komast út til að geta haldið æsispennandi lestrinum í Fyrirbærafræði eftir Dan Zahavi áfram. En þá gerðist nokkuð óvænt. Tilvonandi Meistari í heimspeki skeit þá aðeins á sig, í orðsins fyllstu merkingu! Og já, þurfti að henda naríunum í ruslið inni á baði, en sem betur fer var ég í vænum brókum í dag svo ekkert fór í gegn. Og af hverju, spyrjið þið nú, er ég að segja ykkur þetta hér? Tja, ég veit svo sem ekki, nema ef ske kynni að ég væri orðin svo langt leidd að mér væri bara hreinlega SKÍTSAMA!!!!! Hahahhaa, þetta fáiði ekki á feisbúkk krakkar mínir....

fimmtudagur, september 02, 2010

....og koma svo allir að syngja með: Lobotomy! hjálpar með einbeitinguna fyrir mastersritgerð!
humm. mastersritgerð komin í 34 síður en ég hef trú á deginum í dag og á morgun. ef ég verð ekki búin með allavega 45 síður á morgun, þá athuga ég frest hjá páli skúla. annars held ég að ég nái fyrir 10. sept. það er bara svo helvíti erfitt að skrifa texta af réttri lengd þar sem allt kemur fyrir í þeirri röð sem ég vil að lesandinn fái upplýsingarnar í, þegar ég veit alls kyns búta af upplýsingum og þeir eru í engri röð sveimandi á milljón í hausnum á mér. svona er nú heilabúið krakkar mínir.

mánudagur, ágúst 30, 2010

labb m. óliver í Austurbæjarskóla. check. sundferð. check. þjóðarbókhlaða. check. lært. check. borðað. check. það er líka kominn vetrartími aftur svo ég er enn þar, (má vera til 10, en held ég nenniðí ekki). er samt bráðum aftur svöng. síminn aftur batteríislaus, hleðslutæki ófundið eftir flutninga. á einhver fataskáp að gefa/selja ódýrt?

laugardagur, ágúst 28, 2010

Flutt í Reykjavík. Allt rað verður þó að bíða, því ég á eitt stykki Masters-ritgerð eftir. Er þó komin með þokkalega kósí baðherbergi sem ég baðaði mig í áðan. Veitti ekki af, þar sem baðferðir höfðu hamlast tölvert sökum skorts á aðgengi. Nú er ég líka í hreinum nærbuxum (yndælt) og í kjól, í stað skítugra nær- og gallabuxna. Sit á kaffihúsinu "C is for coffee", sem er netkaffihús og statt á Óðinstorgi. Þar er nú ágætt að sitja, og svo þarf ég bara að skrifa svona 30 síður eða svo. Óraunveruleiki þessarar setningar er fullkominn, þetta er svo mikið að ég næ ekki að hugsa þetta, og þess vegna er ég ekkert stressuð. Bara veit að þetta þarf að gera og þetta mun ég gera. Og við það hefst lestur dagsins.

fimmtudagur, ágúst 19, 2010

næstum því búin að ná mér eftir flug. samt enn hálf vönkuð, en góður nætursvefn í nótt mun laga það. þarf að pakka búslóð og pakka inn hugsunum fyrir ritgerð um helgina, þ.a.l. engin menningarnótt fyrir mig. elvar er að vinna um helgina svo þetta verður bara heiðudútl, sem er alveg í lagi. vinn vel ein undir álagi...stressed out loner. óliver langar á menningarnótt í rvk. hann er eins og ég, elskar fólk og læti. ef einhver vill fara með hann í fjörið er það velkomið. hann er stilltur og vel upp alinn piltur (og djö. er gott að vera kominn heim til hans og knúsa). horfðum saman á school of rock í gærkvöldi, í áreiðanlega 10. skipti. alltaf jafn gaman. svo var gott fólk í heimsókn í dag, bæði að heimsækja mig og óliver. fullorðnir: inni að drekka kaffi og kjafta, börn: úti í fótbolta. þarf í búð, en nenni ekki. þarf að ná í kassa og kaupa mat, en nenni ekki. búin að þvo 3 vélar samt í dag. gott að sitja og anda inn og anda út. helst til skiptis. á morgun er fös. svo hef ég lau og sun. það er nægur tími fyrir bjartsýnis- og léttlyndissjúkling.

þriðjudagur, ágúst 17, 2010

finn ekki cel-ray, thad er ad gera mig gedveika. geri lokatilraun a morgun. for meira ad segja i gydingahverfi i dag til ad reyna ad fara i stormarkadina thar. enginn kannadist vid selleridrykkinn cel-ray. en eg gef thessu einn sens enn. fann einhversstadar bloggsidu sem lysti einmitt thvi sama, endalaus leit og ekkert cel-ray, en thad fannst tha loks i deli sem heitir 2 ave. deli en er ekki a 2 ave. heldur a 162E 33rd street. tek litla morgunferd thangad i fyrramalid. panta svo leigubil sem pikkar mig og dotid mitt upp klukkan 4. their lofa klukkutima ferd ut a JFK fyrir 32 dali, sem er liklega thad besta i stodunni fyrir mig. thung ferdataska, gitar i flightcase (fekk sko flightcase i budinni hans rob notad fyrir 50 dali, nice!) tolva og handfarangur, thetta er naestum omogulegt i lestum thar sem thad eru alltaf stigar og eg hef ekki elvar og ola til ad kippa thungri tosku upp. klukkan er um 11, er ad spa i ad skrida i hattinn fljotlega. alveg buin a thvi eftir labb um allt og margar gardaferdir i dag. thad er ekki neitt leidinlegt vid new york, en mikid er hun nu stor. vandamalid er ad af thvi hun er stor er allt haegt ad gera i henni, en ef madur ferdast of langar vegalengdir til ad gera eitthvad verdur madur bara allt i einu buinn a thvi og tha er enn eftir ad fara i kannski 3 nedanjardarlestir og thad tekur um 45 minutur. rugl!

laugardagur, ágúst 14, 2010

æ, það er ekkert gaman að vera að fara frá Hudson. Þetta er tvímælalaust galdrabær með endalaust af skapandi fólki sem hefur ákveðið að hanga hér. í þessum litla 7000-manna bæ er næstum því meira um að vera en í reykjavík....ótrúlega skrýtið. enda sagði patty smith í pistli sem hún reit um daginn að Hudson væri "happening". Í dag tók ég þátt í listaverki sem var tekið upp á vídeó og mun vera partur af vídeólúppu sem gengur í listagalleríi við aðalgötuna næsta mánuðinn. svo hélt ég lítið erindi um Heidegger fyrir 3 gamla menn (sá yngsti 68 ára, sá elsti 78 ára), en þeir voru allir að fá sér sinn vikulega öllara á Spotty dog, sem er besta kaffihúsið í Hudson, klukkan 3 í dag. Við spiluðum Bítla-útgáfuna af Monopoly hjá Rob í kvöld og hlustuðum á demóupptökur af hvíta albúmi bítlanna á meðan (já mamma og pabbi, ég fékk kópíu af því, þetta eru upptökur sem þeir gerðu á Indlandi, meðan þeir voru að hanga með Maharishi). Hvílíkt snilldarkvöld. Hvílík snilldarferð. Hvílíkur snilldarbær, og hvílíkur snilldarmaður sem Rob er. Svo virðist sem ALLIR nenni að pæla í tónlist ALLTAF, og Rob er ekki einu sinni með sjónvarp....til hvers svo sem? Hann er með fullt af hljóðfærum og bókum, og frjóan huga og nóg af góðum vinum sem eiga ekki heldur sjónvarp. Ég er ekki búin að horfa á sjónvarp í 10 daga....Sakna ég þess? Nei alls ekki. Sakna ég Íslands? Tja, ég sakna Mömmu og Pabba og Ólivers.....smá Reykjavíkur.....sakna að fara á skrifstofuna mína á bókasafninu.....ég held að svona dvöl erlendis setji allt í rétt samhengi. Þarf ég yfir höfuð að eiga eitthvað? Get ég losað mig við helminginn af fötunum mínum og bókunum og vídeóspólunum/dvd-diskunum og plötunum? Auðvitað. Hef ég ekki í raun og veru bara áhuga á tónlist og góðu fólki og fjölskyldunni og gæti verið án alls annars? Jú, auðvitað. Ekkert annað er spennandi....Fréttir af bulli og áhyggjum......gerir mig bara óhamingjusama og áhyggjufulla. Þetta er svo einfalt í raun. Ef þú átt ekki pening þá eyðirðu honum ekki. Það þarf ekki neitt til að lifa. Bara smá mat, og hugmyndaflug. Ég nenni ekki einu sinni að hafa internettengingu heima, ég ætla bara að fara á kaffihús með nettengingu. Ég meina, hvað er fólk að borga fyrir? Er hamingjan fólgin í góðri nettengingu og miklu sjónvarpsefni? Ég held nú ekki, sorry guys. Íslendingar eru að misskilja eitthvað, big time. Farin í draumalandið, skil ykkur eftir með spurningar eins og sönnum heimspekingi og listamanni sæmir (já ég er listamaður og heimspekingur og það er góð blanda). Næsta blogg í NYC.

miðvikudagur, ágúst 11, 2010

Gigg i Brooklyn a manudag tokst med afbrigdum vel. thad var ofurstemming og jafnvel hugsanlegt ad eg laedi inn myndum i kvold eda a morgun af tonleikunum. for a Coney-island adan, i tivoli og a strondina. Vauvauvauvau! Heitt i dag, um 100 gradur a fareinheit, eda 37 gradur. klikkad. allir ad deyja. en samt gott.

sunnudagur, ágúst 08, 2010

(I dreamt in English last night). I am up to 15 different types of root beer/birch beer/cream sodas. I haven't found any bottles marked out as Sarsaparilla yet, still looking. We had a great gig yesterday, down by the waterfront of Hudson River. I am so much in love with Hudson and the people I've met here, and Rob's apartment is out of this world cool! Sitting on top of his music store, so each time the fancy grabs you to try an instrument (any instrument!) you just go down there. Woke up around 8.30 yesterday morning and heard Sverrir banging on his bass, just having a blast! How cool is that? We're having a b-b-q on the patio in front of Rob's music-store (Musica) in the afternoon of today, as well as a small gig. Can't wait. Then tonight: a train to the city! (I am surrounded by English speaking people, it kinda influences me to write like that too)

föstudagur, ágúst 06, 2010

m´kay, við erum búin að spila eina órafmagnaða tónleika á sænska veitingastaðnum DA BA í gær. fórum svo í viðtal á útvarpsstöð í grenndinni klukkan 9 í morgun og ég og elvar spiluðum krummi svaf í klettagjá og give me gold. svo erum við að tjilla yfir okkur í dag, fórum í sund hjá yndislegri listakonu áðan og ætlum að fara út að ganga eftir um klukkustund, þangað til er verkefnið "gera ekkert" í fullum gangi. gigg á morgun, svo ferð til borgarinnar sem mun halda nær endalaust áfram (eða til 17. ágúst). búin að prufa nokkra rootbeer, cream soda og einn birch-beer. fékk rootbeer-float áðan, í fyrsta sinn. gott. síjú.

þriðjudagur, ágúst 03, 2010


going, going, gone!

miðvikudagur, júlí 28, 2010

speki heims gengur vel. náði alslemmu í síðustu viku (5 virka daga af 5 á bókasafni). Held ég sé komin með um einn þriðja af lengd ritgerðar, en það eru bara glósur, svo á ég eftir að gera það að texta. hef minni áhyggjur af þessu, og sannast nú málshátturinn góði: hálfnað verk þá hafið er. ég hóf loks að skrifa niður í tölvu og þá bara urðu 20 síður til eins og töfrasprota væri veifað. nú er tilhlökkun eftir utanlandsferð hins vegar að ná hámarki, bara 5 dagar til viðbótar. að sama skapi er ansi margt sem þarf að gera á þessum 5 dögum: klára að skrifa það sem ég get í ritgerð, æfa tvisvar, redda hellvar-bolunum (já hellvar er loks orðin alvöru hljómsveit, og er að gera boli!!!, meira um það síðar) hitta balla í spjall, fara í klippingu á föstudag, búa til handfarangurstösku úr gallabuxum (hehehe, það verður gott verkefni) taka á móti tveimur listatúristum og hýsa þá, fyrri í kvöld, næsti á fimmtudagskvöld....should I go on??? neinei, það er bara dútl og gleði í gangi. uppgötvaði í gær að ég er með nostalgíu fyrir núinu: þ.e.a.s. ég veit að ég á eftir að sakna núlíðandi stundar í framtíðinni og ég finn næstum fyrir því hvernig sú saknaðartilfinning verður. alltaf í þjóðarbókhlöðu, alltaf í hámu, alltaf í rútu að bögglast við að lesa, alltaf með heimspekibók í töskunni, ef ske kynni að ég næði smá lestri, alltaf með ákveðnar hugmyndir á bak við annað eyrað sem eru svona að vinna á bak við tjöldin. nýt þess í botn að vera í skóla núna. alveg tvímælalaust áhugaverðasta djobb sem ég hef unnið, fúll tæm djobb við verufræðilegar rannsóknir. Sooooooo practical!!!!

fimmtudagur, júlí 22, 2010

skunda til móts við heimspeki, 4 daginn í röð á þjóðarbókhlöðu. tvímælalaust góð nýting á skrst. þessa vikuna. enda er ég að verða klár í að fara að skrifa eitthvað af viti annað en að pára niður í litlu stílabókina mína. þar eru reyndar komnar ansi margar síður af pári. pár verður að ritgerð í word, blaðsíður hrannast upp og áhyggjusúlan í hryggjarsúlunni minni fer lækkandi. Í kvöld spilum við fyrir fólk á Paddys, og við hlökkum svo svakalega til að fá að frumflytja nýtt efni og fá viðbrögð. En í dag er röðin þessi: Heimspeki -og svo músik!

miðvikudagur, júlí 21, 2010

Hvernig er hægt að ætla að stilla klukku á 08.30 en stilla hana óvart á 03.30? Er ég blind og gömul eða hvað? Allavega vaknaði útfrá mjög svo súrum draumi klukkan 10.00, búin að missa af rútunni og þarf nú að bíða til 11.30 eftir næstu...Þetta er líklega "the downside" við að búa í kef....hefði ég vaknað kl. 10.00 í rvk. hefði ég fengið mér snöggan morgunmat og hjólað svo upp í bókhlöðu og verið komin þangað vel fyrir 11.00. í staðin kem ég nú kl. 12.30. (get reyndar byrjað að lesa í rútunni, sem ég á auðvelt með, því ég verð aldrei bílveik). en ægilega er ég vel útsofin. Svo erum við hrikalega vel æfð, og tónleikar á morgun, 22.07 á Paddys! ÞAÐ verður rosalegt.

mánudagur, júlí 19, 2010

var að taka út á bókhlöðunni "The rough guide to New York", "Coping with America" e. Peter Trudgill, "The Great cities - New York" myndabók, og síðast en ekki síst "In America" e. Maxim Gorky. Þetta ætti að kenna mér eitthvað. Svo þarf ég bara að eignast svona Lonely Planet New York bók, og þá ætti þetta að hanga þarna ein í stórborginni í 3 daga. get ekki beðið...alein í suðupotti milljóna. Hjartað slær örar bara við tilhugsunina. En fyrst....já þið vitið, ritgerðin...
Vaknaði 08.45, úthvíld! Gerði hráfæði, mundi eftir fúkkalyfjum, fór í bað, Óliver fór í bað, sentist um og útrétti í rvk, settist á skrifstofu og opnaði smá bók, lokaði aftur, hékk á neti, og nú er inspiration komin aftur. ætla að vera til 5 hér á skrifstofu en svo í sund og gufu smá. það eru 2 vikur, 14 dagar, þar til við förum út. verð að skrifa ritgerð, bara verð. finnst eins og ég viti ekki nóg, en það er klassískt syndróm...vita meira áður en maður fer að skrifa. annars kemur eitthvað bull á blaðið. bla bla blaðið. blablabla. en ég vakna á morgna og sofna fyrir miðnætti...og það er mjög jákvætt. svo er ævintýralega gott veður. jájá, það er nú svo.

föstudagur, júlí 16, 2010

Ég held það sé hægt að skipta stelpum/konum niður í tvennt: Þær sem segja "mín kæra" og "skvísa" við hvora aðra og þær sem myndu aldrei nokkurn tíman fyrir sitt litla líf láta sér detta í hug að segja annað eins.......

þriðjudagur, júlí 13, 2010

barkabólga. netið segir mér að það sé svona frekar mikill barnasjúkdómur...týpískt. rúmliggjandi með barnasjúkdóm, get bara ekki "act my age". allavega, með fúkkalyf, sagt að reyna að hósta ekki, kyngja frekar. drekka heitt, anda að mér gufu. parkódín fyrir svefn til að slá á hóstann...þá ætti þetta að vera komið á nokkrum dögum, mesta lagi 1 viku. Einhver fleirri ráð? Anybody???

fimmtudagur, júlí 08, 2010

Komin á eistnaflug, ennþá skítaveður, en það verður örugglega betra. gufan hér er æði, fer örugglega daglega. vaknaði 9 í morgun, útsofin. svefnpokinn hennar mömmu er mjúkur og hlýr.

mánudagur, júlí 05, 2010

sofa á nóttunni. núna.

sunnudagur, júlí 04, 2010

One must never underestimate the power of Sonic Youth. Annars er ég hress, bara.

laugardagur, júlí 03, 2010

Jæja, sökum ábendingar um augnverki sem ég fékk ákvað ég að prufa aðra liti en hina sterku uppáhalds mína og datt niður á þessa ofur-smart skemmtilegu "lita-sjatteringu" (ég er 80 ára þegar ég segi þetta). Allavega er grátt og bleikt og rautt og smá órans (pabbi segir órans, ekki appelsínugult, finnst það svo skemmtilegt), og þetta er bara fagurt!

Fagurt og teið kallar,
fagurt og bókin bíður,
fagurt og úti er heitt og tíminn líður,
fagurt og maginn tómur,
fagurt og bóndinn blíður,
fagurt og vindur vanga strýkur, þýður.

heiða rómantíker sænar út!

miðvikudagur, júní 30, 2010

Þetta er einhver spurningalisti sem ég fyllti út í nóvember 2004, þegar ég bjó í Berlín. Nú ætla ég að svara honum aftur, en fyrra svarið er þetta gamla, nýtt svar er eftir skástrik. Hvað hefur breyst á 6 árum???

ever had a song written about you? Já, alveg nokkrum sinnum//einhvern tíman
what song makes you cry? eitthvað með Tom Waits, You're a big girl now með Dylan, öll platan Troubadour með J. J.Cale//barnakórar
what song makes you happy? rétt lag á réttum stað við réttar aðstæður. Ef ég þarf rólegheit og spila stuð er það ónýtt og öfugt. En það sem virkar næstum alltaf, alveg sama hvað er Lík-ami með Purrki Pillnikk. Og HAM-lög....og allskonar pönk...og.....;-)//Buffalo Virgin-platan með HAM, Sonic Youth, sumar Bítlaplötur...
height? 1,62//1,62
hair color? ljósbrúnt//appelsínubrúnt
eye color? sakleysisblár//ljósblágrá
piercings? nei//nei
tattoos? nei//nei
what are you wearing? gamalt pils, svartur rásar2-bolur, svartar sokkabuxur, dökkbrúnir apainniskór, themotherfuckingclash-ullarpeysa,...svört nærföt//appelsínubrúnir ullarsokkar, rauðar gallabuxur, ljósbrúnn blómatoppur frá Alexöndru, svört hneppt peysa, ...rauð nærföt.
what song are you listening to? la folie með stranglers//ekkert lag, með beach boys á heilanum.
what taste is in your mouth? tungubragð//hnetusmjörs-banana-smúþþí-bragð
what's the weather like? ííííískalt og rakt//kalt og skýjað, samt örugglega 14 gráður
how are you? soldið svöng, ætti líklega að borða smá áður en ég fer að reyna að sofna//einbeitingalaus, en stendur til að drekka meira te og læra Heidegger úti í skúr.
get motion sickness? nei//nei
have a bad habit? hugsa að ég hafi helling, man eftir einum: ég bít alltaf í puttana mína á hlið þegar ég er að horfa á tónleika sem ég fíla. Ef ég eeeelska bandið þá bít ég bara alveg fast, og það kemur far og allt//reyki, en samt bara lítið.
get along with your parents? jájájájá//að sjálfsögðu, enda skemmtilegasta fólkið.
like to drive? skemmtilegt já, sérstaklega þegar maður er að fara eitthvað skemmtilegt eins og t.d. út í sveit. Leiðinlegt að keyra í umferð innanbæjar//neee, alveg sama þótt ég sleppti því...
boyfriend? Elvar//Elvar
girlfriend? neibb//ekki enn....(djók, Elvar er alveg nóg, sko)
children? Óliver//Óliver
had a hard time getting over somone? mhmm//bla
been hurt? já//blabla
your greatest regret? æ ég veitða ekki, þýðir nokkuð að sjá eftir einhverju? Það gerist alltaf eitthvað, sama hvað maður velur. Stundum kemur eitthvað frábært út úr jafnvel klúðri og mistökum.//sama svar og áður...
your cd player has in it right now? Sonic Nurse með Sonic Youth//Holland með Beach Boys
if you were a crayon what color would you be? Svartur//Appelsínubrúnn
what makes you happy? Að spila á tónleikum, og gleyma sér//að klára, bara hvað sem er, en þessi góð samviska tilfinning er ómetanleg
what's the next cd you're gonna get? Vantar að kaupa nýja Tom Waits, nýja Nick Cave, nýja P.J.Harvey, nýja Björk, nýja Streets, og svo ætla ég að reyna að eignast Joy Division, það er svo frábært að hlusta á þá á veturna.//þarf ekkert
seven things in your room? gítar, bækur, kósílampar, hvít sería, vekjaraklukka, ullarsokkar, tölva,//Bækur, geisladiskar, spólur, myndavél, málarateip, almannak og mýkingarefni...
seven things to do before you die? Semja lag sem lætur fólk skilja að það þurfa ekki að vera stríð, borga skuldirnar mínar, biðja alla sem ég hef gert eitthvað fyrirgefningar, sjá Sonic Youth spila, fara til Japan, finna staðinn sem ég vil verða gömul á, verða hamingjusöm,//ókey ég get skrifað undir margt af fyrri lista, en ég ER hamingjusöm og BÚIN að sjá Sonic Youth, þannig að listinn er: fara til Japan, finna staðinn sem ég vil verða gömul á, taka mótorhjólapróf, krúsa um Bandaríkin á mótorhjóli, safna tattúum, hætta að vinna dagvinnur og lifa af tónlist, og semja lag sem lætur fólk skilja að það þurfa ekki að vera stríð!
top seven things you say the most? já, vá, æðislegt, sökka, geðveikt, snilld, sjiiiiiit,//sjitturinn, geðveikt, alveg rugl, hellað, óliver, elvar, já,
do you...
smoke? nehei//jamm
do drugs? neits//nei
pray? stundum//já
have a job? er tónlist vinna?//hehehe
attend church? neeee//neinei

have you ever....
been in love? Já//duh
had a medical emergency? ha, verið í lífshættu, neinei þaldéekki//ekki svo ég viti
had surgery? já, kirtlataka, og nokkrar aðrar smávægilegar//já
swam in the dark? já, meira að segja nöppuð af löggunni fyrir að brjótast inn í heitu pottana í sundlauginni í kef að nóttu til...vá það er soldið langt síðan...//já það er víst
been to a bonfire? já//mmmmmmm já, elska varðelda
got drunk? já//já
ran away from home? já, hef hlaupist á brott eftir að ég flutti að heiman//er það? hef ég hlaupist á brott? Nú man ég ekkert eftir því...
played strip poker? já//unglingaflipp eitthvað
gotten beat up? verið kýld einu sinni//kýld
beaten someone up? aldrei, einu sinni sparkaði ég samt í öxlina á fyllibyttu sem var að horfa uppundir mig, hann sat fremst á sviði og glápti, og svo byrjaði hann að blása til að kjólinn lyftist...djöfull varð ég brjáluð, bara tók tilhlaup og sparkaði//satt
been onstage? -Jájá//jújú
pulled and all nighter? jájá//jújú
been on radio or tv? Helling bara//lala
been in a mosh pit? oft þegar ég var ung og brjáluð, nú er ég bara brjáluð (hehe), en ég er svo lítil og létt, og hugsa mér að ég gæti svo auðveldlega slasast (ég veit það, ég er allgjör aumingi)//æ, nú er ég með smá bakvandræði, þannig að ég fer víst ekki í neinn pytt. Það er þó ekkert til að skammast sín fyrir, ég er snarbrjáluð inní mér!!!!!
do you have any gay or lesbian friends? Já//sem betur fer
describe your first kiss... bjakk!//gömul blaut karamella...það var tilfinningin
wallet? rautt slitið mikkamús og eitt svona indverskt hippalegt//svart leður-seðlaveski sem ég erfði frá óliver, hann átti svo mörg...
coffee? latte macciato//svart, helst espressó
shoes? einir rauðir háhælaðir, einir rauðir doctormartins sem eru að syngja sitt síðasta, enda 15 ára gamlir, og einir skeitarastrigaskór//böns
cologne? á anais anais, langar í armani-mania (hint hint)//kate moss-vintage

in the last 24 hours you have...
cried? var döpur fyrr í kvöld og þá sluppu nokkur,//alls ekki
bought anything? nei, gleymdi meira að segja að kaupa mjólk//matvörur, afturljós (sem ég borga eftir mánaðarmót), gleymdi að kaupa klósettpappír...
gotten sick? smá magaverkur//nei
sang? syng eitthvað á hverjum degi//söng perfect day með píanóundirleik, er að reyna að pikka það upp sjálf.
been kissed? smá//já
felt stupid? nei//nei
talked to an ex? nei//nei
talked to someone you have a crush on? já//já
missed someone? já//já
hugged someone? já//já

Jæja, sumt er breytt, annað er eins. Ég er sátt.

þriðjudagur, júní 29, 2010

Nýtt útlit. þá týndust linkar. mundi eftir mörgum, en ekki öllum....komiði nú með linka á ykkar skemmtilegu blogg, þið sem skrifið reglubundið. síjú.
Ég er að segja ykkur það, þetta er besti morgunmatur sem ég hef borðað, ever!:


Uppskrift: Tröllahafrar (ss grófmalaðir hafrar) ásamt rísmjólk í pott, bætt út í söxuðum möndlum og söxuðum döðlum (ca. 5 möndlur 3 döðlur).
Hitað í gegn, sett í skál, 2 matsk af lífr. eplamauki og 2 matsk af dökku tahini út á, final-touch-ið: 1 fersk fíkja skorin út á!
Saddur í marga klukkutíma, alvöru orka. It's the shit!!!!

æ-i hvað það er gaman að hanga heima í stað þess að læra. EN nú fer ég í smá lærlær:

sunnudagur, júní 27, 2010

Velkominn í tenglalista Skarpi!
Er að fara að kaupa málningu á baðherbergi. Múrbúðin er því miður lokuð á sunnudegi, en Húsasmiðjan er opin. Nú er spurningin, á ég að kaupa dýrari málningu og vera búin í dag, eða ódýrari málningu og dagurinn í dag nýtist í ekkert og ég er ekki búin fyrr en á morgun...? Á morgun segir sá lati...

mánudagur, júní 21, 2010

Ég hef nú upplifað eitthvað nýtt í boði drauma minna. Mig hefur nokkrum sinnum dreymt eitthvað "frægt" fólk og oftast hafa það verið alveg yndælir og súrrealískir draumar,(óborganleg steypa um Ringo sem dæmi), en mig hefur aldrei dreymt Jón Gnarr, fyrr en í nótt.
Ég og Jón Gnarr ásamt fullt af öðru fólki vorum stödd í einhverjum sumarbúðum, þar sem einhverjir voru að fá sér tattú og aðrir að spila á spil, enn aðrir að plana fjallgöngu. Semsagt fjölbreytt aktivití. Ég bið Jón að hjálpa mér að velja tattú á handarbakið, og hann segist bara myndu redda þessu sjálfur fyrir mig. Tekur upp túss og teiknar á hendina einhvern spilaflöt, leit út eins og sambland af Lúdó og Yatzi, og límir svo við hliðina upphleift plast-stykki með tveimur teningum í sem hægt er að "kasta" með því að ýta á þartilgerðan takka. "Svona", sagði Jón. "Nú ertu með tattú og spil og þarf ekki að leiðast á meðan!"

Takk fyrir mig, draumadísir!

miðvikudagur, júní 16, 2010

Ljósfælni er þýtt á ensku sem photophobia, allavega í google translate. Það er ég nú hitta á, og enska orðið er alls ekki eins lýsandi og hið íslenska. Ég hef ekki neina fóbíu, hvorki fyrir ljósi eða fyrir myndum. Hef ofurviðkvæm augu sem leyfa mér ekki að lesa heimspeki núna, allavega ekki lengi. Ætla samt aðeins að kíkja á skrifst. fyrst ég er á annað borð komin í Rvk. Það er task út af fyrir sig að fá sig til að lesa, hvað þá að skilja hvað maður les. Task um tösk frá töskum til taska. Taskan mín er merkt New York og hún var keypt í China town 2007 á 5 dollara. Hefur verið notuð óspart síðan, og orðin nokkuð götótt til hornanna. Veit ég mun fá mér nýja þar í ágúst.

fimmtudagur, júní 10, 2010

í dag: rúta, blautt úti, buxurnar þornuðu í miðstöðvarheitu rútunni, sofnaði útfrá bók um heidegger og engla???!!! hafragrautur í hámu, kaffi líka. skrifstofa, hlustaði á massive attack úti að labba. horfi nú á kukl-myndbönd og kem mér í gírinn. kukl, heidegger, englar, djöflar, massive, hellvar æfði í gær, (mj. gott!). æfum aftur í kvöld (mj. gott!) erum með markmið. ég er líka með markmið fyrir ritgerðina. 5 kaflar hver um 15 síður. þá eru þetta 5 "stuttar" ritgerðir en ekki 1 RISASTÓR. svona svona heiða, þetta klárast. fer til nevjork í ágúst. flugarhug í gangi í dag.

mánudagur, júní 07, 2010

excoriate

góð orðabók, ókeypis á netinu. alltaf að auglýsa ef maður finnur eitthvað ókeypis sem virkar. annars bara gott. er að huga að samanburði á schopenhauer og heidegger, hægt af stað, en mjakast. þegar það fer hægt en mjakast á maður að gleðjast samt, því það er þó ekki kyrrstaða. er komin með japanska klippingu, ógeðslega sæt! The barber theater rúlar!

miðvikudagur, júní 02, 2010

Blue Lagoon - Live Webcam - Inspired by Iceland

Blue Lagoon - Live Webcam - Inspired by Iceland
Hér er alveg frábærlega skemmtilegt blogg, sett fram á alveg frábærlega skemmtilegu máli, skrifað af alveg frábærum og skemmtilegum manni:
http://deetheejay.blogspot.com
Hef nú tengt þetta sómasamlega hér í listann minn, vertu velkomið á listann, blogg!
Þetta er að bresta á! Jájájá. Farin að fá mér hádegishlé, áður en ég byrja að læra. (reyndar búin að kíkja á vefinn og skanna einn texta, en það telst ekki með, bara upphitun). Gulrótin verður borðuð áður en aðal-lærdómur dagsins er tekinn með stæl.

þriðjudagur, júní 01, 2010

sunnudagur, maí 30, 2010

Ég held með Haruki Murakami í kosningunni sem fer fram í hausnum á mér um hver sé skemmtilegasti rithöfundurinn. Öðrum held ég ekki með.

fimmtudagur, maí 27, 2010

veit ekki með hverjum ég held í júróvisjón, því eistland datt út. horfði á nokkur lög áðan og held að mér líki ansi vel við spán, með sitt sirkússtuð:

...en líka við þýskaland sem skartar sætri eðlilegri stúlku með kokkneihreim á enskunni sinni. Það lag minnir mig líka bara helling á sigursveit músiktilrauna 2010, Of monsters and men með hinni æðislegu söngkonu nönnu innanborðs. Hún syngur nú ekki með þessum hreim, en það er eitthvað sambærilegt við tónlist þeirrar sveitar og framlag þýskalands í ár:

hér er Of monsters and men á æfingu:

...svo er þarna lagið sem gunni var að tala um í síðasta Alla leið, Opa frá Grikklandi:

ég var ekki búin að átta mig á því lagi, en bakraddirnar eru svo ógeðslega flottar. Öll húa, og hó, eins og í laginu War með Edwin Starr, en það er flottasta lag sem ég pósta hér í dag, tekur því miður öll Júrólög í nefið. Hvers vegna semur fólk ekki betri lög í dag?

þriðjudagur, maí 25, 2010

Ég geri hér með þessi orð að mínum, en þau er að finna á http://vf.is/Politikin/44618/default.aspx ef þið viljið lesa í upprunalegu umhverfi. Konan, Kikka, er snillingur, og greinin ber því merki. Svona er þetta bara, krakkar mínir, og ég hvet ALLA til að lesa og læra.

„Búa bara hálfvitar í Reykjanesbæ?“

Þessa spurningu fékk ég í símanum fyrir stuttu, frá bróður mínum sem býr norður í landi. Hann og fleiri skilja ekki hvernig íbúar Reykjanesbæjar hafa sýnt það í skoðanakönnunum að þeir ætli að kjósa yfir sig óbreytt ástand. þ.e. algert gjaldþrot bæjarfélagsins.


Sameining bæjarfélaga
Fyrir 16 árum voru sveitafélögin Keflavík, Njarðvíkurnar og Hafnir sameinuð og allar eignir sveitafélagana settar í sameiginlegan pott sveitafélagsins Reykjanesbæjar. Ekki voru allir sáttir við sameininguna en þeir sem kölluðu helst eftir henni lýstu því hvernig hagræðing myndi hljótast af þessum gerningi og hagsmunum bæjarbúa væri best borgið í sameiginlegu sveitafélagi. Íbúarnir voru rúmlega tíu þúsund og möguleikar að byggja upp blómlegt samfélag úr sameinuðu sveitafélögunum töluverðir. Átta árum síðar fóru fram örlagaríkar kosningar þar sem núverandi meirihluti náði völdum og hefur haldið þeim síðan, án gagnrýni, án lýðræðis og án þess að bera hag íbúa bæjarins fyrir brjósti. Þetta er ekki gamalt sveitafélag sem berst nú í bökkum.


Smá útúrdúr til sveitafélagsins Farum í Danmörku
Nánast á sama tíma stjórnaði Peter Brixtofte bæjarfélaginu Farum í Danmörku og kom með nýja, róttæka stjórnunaraðferð sem var uppfrá þessu kölluð “Farum módelið” bæjarfélaginu til heiðurs. Farum módelið gekk út á það að selja allar eignir bæjarins til eignarhaldsfélags, nota hagnaðinn í allavega og allskonar fyrir hinn og þennan sem Peter Brixtofte þekkti, eða hitt og þetta sem Peter Brixtofte vildi. Snilldin fólst svo í því að leigja eignirnar aftur, en reyndar á töluvert hærra verði en það hefði kostað að halda þeim við og reka sjálf. En við þetta fékkst lausafé sem hafði verið bundið í fasteignunum, og það var jú mikilvægt fyrir bæjarstjóra sem vildi eyða peningum og reysa misvellukkuð minnismerki um sjálfann sig að hafa nóg af peningum.


Aftur til Reykjanesbæjar
Árið 2002 bjuggu um 11000 íbúar í Reykjanesbæ og skuldir bæjarins voru um einn milljarður. Það þýðir að hver bæjarbúi skuldaði rúmar 90 þúsund krónur og bærinn átti allar skólabyggingar, leikskólabyggingar, íþróttamannavirki, Stapann og fleira og fleira, sem sagt fullt af eignum. Þá frétti einhver af “Farum módelinu” og vildi endilega selja, bæði til að borga miljaðinn (það voru ein rökin) og líka til að losa fé svo það væri hægt að “fegra” bæinn og gera allavega og allskonar eins og sumir bæjarstjórar vilja gjarnan gera.


Aftur til Farum, skömmu síðar
Eftirlitsstofnun með sveitafélögum í Danmörku gerði athugasemd við skuldir bæjarfélagsins Farum sem voru orðnar svo miklar að því varð ekki bjargað. Sveitafélagið Farum, átti engar eignir og skuldaði margfalt það sem það hafði skuldað fyrir sölu eignanna. Sveitafélagið var lagt niður og íbúarnir, án þess að hafa nokkuð um það að segja, sameinaðir öðru svitafélagi. En bæjarstjórinn Peter Brixtofte var dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir spillingu og mútugreiðslur nokkrum árum síðar.


Aftur til Reykjanesbæjar
Árið er 2010, íbúafjöldinn er um 14000 manns, hreinn pólitískur meirihluti hefur verið við völd í átta ár og nánast apað allt upp eftir Farum módeli hins dæmda glæpamanns Peters Brixtofte. Það er búið að selja allar eignirnar, og skuldirnar eru yfir 30 miljarðar, sem mér skilst að sé varlega áætlað miðað við allar bókhaldsbrellurnar sem hafa verið notaðar til að fela skuldirnar. Þetta þýðir að hver einasti íbúi Reykjanesbæjar skuldar tæpar 2,2 miljónir, og bærinn er gersamlega eignalaus og á hausnum. Meira að segja fjöreggið, stolt Suðurnesjamanna, Hitaveitan, er farin. Með þessu áframhaldi, kjósi fólk aftur yfir sig meirihluta sem ekki hefur hag bæjarbúa að leiðarljósi, þá er bæjarfélagið Reykjanesbær á leið í gjaldþrot. Íbúarnir þurfa þá að leita á náðir, eða verða neyddir til að sameinast, öðru bæjarfélagi sem fer þá með forræði yfir því sem áður var Reykjanesbær. Þannig verður draumurinn um hið sterka sameinaða bæjarfélag orðinn að sannri martröð fyrir íbúana.


Aftur að bróður mínum
Er nema von að bróðir minn spyrji hvort hér búi eintómir hálfvitar. Honum finnst, eins og svo mörgum öðrum að fólk sem kýs áfram svona meirihluta, sem hefur ekkert gert nema margfalda skuldir bæjarins síðustu árin svo gjaldþrot blasi við, vera hálfvitar. Ég hins vegar trúi því að íbúar Reykjanesbæjar sjái gerðir meirihlutans síðustu árin í réttu ljósi og átti sig á því að það er ekki í lagi að fara svona með almannaeign og ráðastafa henni eins og um einkaeign væri að ræða. Ég trúi því að íbúar Reykjanesbæjar horfist í augu við vandann sem meirihlutinn hefur skapað bæjarfélaginu einn og óstuddur og neitar að horfast í augu við. Aðeins þannig er hægt að vinna á fjármálavanda bæjarins og gera Reykjanesbæ aftur að sjálfstæðu og sterku sveitafélagi.


Og nú að kosningum
Kæru íbúar Reykjanesbæjar, ég bið ykkur, ekki láta blekkjast af glansmynd núverndi meirihluta sem er með allt niður um sig og reynir endalaust að kenna öðrum um hvernig komið er fyrir bænum okkar. Skuldasöfnunin og sala eignanna er þeirra verk. Ekki kjósa þennan meirihluta yfir okkur einu sinni enn, kæru kjósendur. Núvernadi meirihluti Sjálfstæðismanna er búinn að sigla bænum okkar í strand, ekki leyfa þeim að brenna hann líka. Ekki láta mig þurfa að svara spurningu bróður míns játandi.

Það má lesa um Peter Brixtofte og fyrrverandi sveitafélagið Farum hér: http://en.wikipedia.org/wiki/Peter_Brixtofte


Kristlaug María Sigurðardóttir
Tvennt sem liggur mér á hjarta:

Svitalyktareiði...
...eins og í "ég er farinn að kaupa svitalyktareiði"

Would you like to eat Jesus?
...ja, vantar kommu í þessa setningu eða ekki?

laugardagur, maí 22, 2010

Lag dagsins fyrir mig:
skilaði næst-síðustu ritgerðinni minni í háskóla íslands á miðnætti (í bili allavega, aldrei að segja aldrei. vinnuhelgi í víkingasafni og svo gæti ég alveg hugsanlega náð að mála baðherbergi í næstu viku. elvar er búin með vorhreingerninguna svo íbúðin er draumur. ljósblátt baðherbergi, jafnvel ljósgrænblátt. fagurt og þá er hægt að liggja í baðkarinu og finnast maður vera fiskur.
Best geymda leyndarmál íslenskrar fjölmiðlunar frá upphafi eru róttæku pistlarnir í Víðsjá á Rás 1. Einn svoleiðis pistill næstum daglega, og er oftar í síðari klukkutímanum, milli 5 og 6 á daginn. Hlustið t.d. á róttæka pistilinn frá því í gær á netinu: víðsjá 21.05.2010
Fátæktarhverfi og franskt rapp, sem fær hárin til að rísa!

föstudagur, maí 21, 2010

júppí, vaknaði níu, er að leggja af stað á bókasafnið núna. nú hef ég allan daginn til að klára.

fimmtudagur, maí 20, 2010

jæja, erling tv. klingenberg í hafnarborg hf. kl. 8 í kvöld. þar tek ég þátt, ásamt 5 snillingum, auk listamannsins sjálfs auðvitað. ég sé glitta í endann á rannsóknarritgerð. hef gert blað með ca. 12 atr. sem ég þarf að klára áður en ég get skilað (finna atr.í tímabili heimsmyndanna, finna hvort talað er um worst case scenario/höfnun aðferðarinnar í framlögum til heimspekinnar, laga neðanmálsgreinar, þýða tilvitn.úr þróun á dasein-textanum, koma punktum úr enownment-texta yfir í samfellt mál og koma því fyrir á réttum stað í ritg, og fleirra í þessum dúr). Þetta hljómar eins og piece of cake og er lúmskt hellað, því ég er perfectionisti og vill helst ekki láta neitt frá mér með neinn lausan enda. lús-les yfir aftur og aftur. en nú er bara í dag og á morgun eftir, og ég veit ekki af hverju en ég bara get ekki vaknað snemma á morgnanna. var reyndar útkeyrð í gærkvöldi og yfirspennt og náði ekki að sofna fyrr en hálf-eitt, en maður myndi ætla að kl. hálf-níu væri ég útsofin. neibb. skreyddist á fætur um hálf 12. það er ungbarnasvefn, 11 tímar, takk. ég er að verða ungbarn með árunum.

miðvikudagur, maí 19, 2010

Ort í þjóðminjasafninu í dag:

Skjaldarmerkið
Tryggvi Magnússon hafði rétt fyrir sér:
Við erum þrjósk eins og þursinn,
heimsk eins og uxinn,
dramblát eins og örninn,
og illskeytt eins og eldspúandi drekinn.

mánudagur, maí 17, 2010

en þori ég vil ég og get ég klárað ritgerðina í þessari viku, og það hefur ekkert með það að gera hvort ég er stelpa eða ekki? já, ég þori get og vil. 14 síður niðurskrifaðar, og nú þarf ég aðallega að finna staði og tilvitnanir, gera neðanmálsgreinar, ásamt því að einbeita mér aðeins að in-between-ness-inu sem heidegger lítur á sem einhvers konar lausn. svo þarf ég auðvitað að draga af þessu öllu ályktun. ég hef, held ég, lýst ferlinu frá da-sein til ereignis ágætlega, meira að segja komin með sæmilega íslenska þýðingu á ereignis (sem er leyndarmál ennþá). af öðru: gerði tabulleh from scratch áðan. það var gott, og verður betra eftir nótt í ískápnum. nú vantar bara svona 30 og eitthvað stiga hita og steikjandi sól, og þá gæti ég verið eins sæl og ég var þegar ég snæddi þetta í tíma og ótíma í Marseille hér um árið....Er hægt að panta 30 stiga hita í svona 1-2 daga eftir næstu helgi? þá ætla ég nebblega að vera búin að skila og gæti hugsað mér sólbað og hjólaferðir.

föstudagur, maí 14, 2010

heiheiheidegger! hvað segirðu gott?
heiheiheiða er að skrifa um þig flott!
ég fékk áðan speltpönsur þegar ég átti að vera að læra.
maður þarf líka alltaf að muna að stoppa og sig næra.
þetta er föstudagsþula um það að vera í skóla,
ég er inná bókasafni en ekki úti að hjóla.
svo held ég að ég skelli mér í gufu og í sund,
haldi áfram á morgun með heidegger og hans dund.
ef einhver er kátur, og vill kíkj'á mig í kvöld,
þá má hann það sko alveg, ég er af stuðinu margföld.
ég verð bara heima og hlusta á músik og hlæ.
þetta verða lokaorðin vertu sæl(l) og bæ!

laugardagur, maí 08, 2010

Mér gengur hægar að galdra fram guðdómlega og frumlega ritgerð en ég hefði viljað, en það er í góðu lagi, því ég hef allan maí. Á mánudagsmorgunn ætla ég að taka daginn snemma og hendast í að ljúka "stuttu" ritgerðinni (12-14 bls. og ég er búin með ríflega 10) og skila henni eftir hádegi. "Langa" ritgerðin (um 20 síður) er hálfnuð núna, og ef ég held vel á spöðunum og spilunum og öðru sem halda þarf vel á gæti ég mögulega verið búin fyrir 20. maí. Þá á ég strangt til tekið sumarfrí út maí, því sumarönn byrjar í júní. Í júní, júlí og ágúst þarf ég að galdra "lengstu" ritgerð æfi minnar, sem mun vera allavega 70 blaðsíður, gæti orðið lengri. Þá nota ég "löngu" ritgerðina og blæs hana út svo hún lengist enn meira. Þetta er bara bók sko, for crying out loud. Einnig fer ég í tónleikaferð til ameríku í ágúst, en meira um það síðar þegar allt er á hreinu. Það sem ég vil hinsvegar ná að gera í lok mæ, sumarfríinu, er að þrífa húsið hátt og lágt og mála baðherbergið. Svo þurfum við að æfa hljómsveitina Hellvar og ljúka nokkrum lögum líka. Það er lagskipt og snar-geðbilað stuð að vera ég þessa dagana!
Neil Young á lokatóna bloggsins í dag, og hann er með boðskap sem ég hef í hjartanu:

fimmtudagur, maí 06, 2010

Thank's to Rob for providing this really really silly and entertaining video:

miðvikudagur, maí 05, 2010

3 DDR-pönkbönd, Austur-þýsk pönkbönd: Schleim keim (þýðir slímfræ) með lagið Ata, Fit, Spee, en textinn fjallar um vörur sem er hvergi hægt að fá nema í ddr:



Þetta er svo hljómsveitin Müllstation (ruslastöðin) með lagið Alles grau, og er ádeilutexti um hvað allt var grátt í ddr og hann vill gjarnan fá liti:




og að lokum L'Attentat með lagið Karriere, þarna er hann að velta fyrir sér atvinnumöguleikum í gamla ddr:



Alvöru pönk, Albert njóttu sérstaklega vel!

mánudagur, maí 03, 2010

Uppgötvanir síðustu daga:
Einn daginn ætla ég að búa í japan. Mér finnst gaman að dansa diskódans. Ég vinn ekki bara best undir pressu hendur alls ekki nema það sé pressa (ég veit, óheilbrigt). Ég þarf mikið fólk, þeim mun meira þeim mun betra, samt finnst mér alltaf best að hafa smá pláss í kring um mig. Fíla sól svo vel að þegar hún skín á skinnið mitt finnst mér eins og ég sé rafhlaða sem verið er að hlaða, bókstaflega! Dreymdi New York í nótt, þar ætla ég líka einhvern tíman að búa. Finnst ísl. sjónvarp ekki nógu skemmtilegt. Finnst gaman að horfa á bíómyndir, sérstaklega annað hvort 70's, má vera hvað sem er, eða sakamálamyndir, helst breskar. Hercule Poirot-myndin sem ég sá á DR1 í gærkvöld var hressandi. Er búin með enga ritgerð af tveimur. Ein klárast í kvöld (bara verð), hin þarf að klárast fyrir lok mai. Frestunarárátta dauðans mun ekki klára þessar ritgerðir, svo það er eins gott að henda sér af stað í bæinn.

miðvikudagur, apríl 28, 2010

Ég er ekki hópdýr!

mánudagur, apríl 26, 2010

Ég dró rún í víkingaheimum í gær, það var Vígsla. Er rún endurfæðingar og því að vera tilbúin undir gagngerar breytingar áður en allt umturnast og hlið opnast. Ég er að fara að klára eina ritgerð í vikunni (búin með 2 síður, hún á að vera 12-14), svo fer ég í mitt fyrsta píanópróf á morgun, (spila Amazing Graze, 8 days a week, impró-blús í C og skala og brotna hljóma í C og G). Elvar er svo að fara í hálskirtlatöku á eftir. Það er eflaust endurfæðing hjá honum líka, að vera laus við eiturspúandi kirtla úr líkama sínum. Þetta verður áhugaverð vika. Hvað eru þið að gera?

þriðjudagur, apríl 20, 2010

sunnudagur, apríl 18, 2010

Eric Burdon band One more Cup of Coffee Live 1976


...sjúklega falleg útgáfa, æðislegt lag og frábær flutningur!
Fyrst kemur æðislegt lag með Animals, og sérstaklega ber að skoða dansarana, sem slá allt út:



Sama lag árið 1985, töluvert hraðara, en ótrúlega ferskt og skemmtilegt í þessari útgáfu



...og svo snarbrjáluð útgáfa af Boom Boom sem er frá 2005, svo Eric Burdon er ekkert hættur að hljóma vel neitt. Snillingur, og ekkert annað.

föstudagur, apríl 16, 2010

Ég vil fá heimsendann heimsendan...

þriðjudagur, apríl 13, 2010

Jæja, keypti skýrsluna á útgáfudegi, svona upp á sögulegt gildi þess að kaupa það svart á hvítu hvað fór úrskeiðis. Bindin eru svo mörg og þung að plastpokinn sem ég fékk í Bóksölu stúdenta rifnaði strax, og hélt ég því á skýrslunni í fanginu eins og barni. Ég hef ekki enn opnað innsiglið en þó kom skýrslan heldur betur að gagni þegar ég þurfti að bíða eftir rútunni á Hringbrautinni og gat notað skýrslubunkann upp á rönd eins og lítinn skemil, og var sætið alls ekki óþægilegt. Hef vonandi ekki rýrt gildi innihalds rannsóknarskýrslunnar með því að styðja óæðri endanum á hana. Annars verð ég að líta á 12. apríl sem merkan dag fyrir það að það komu út rúmar 2000 blaðsíður af útskýringum á því hver sætir ábyrgð, og mér leið í raun og veru eins og sigurvegara að hafa þessar blaðsíður í fanginu. Skýrslan er auðvitað ókeypis á netinu, en þaðan má auðveldlega fjarlægja allt. Engum sögum fer svo um það hvort ritin verða endurútgefin eða ekki, og ef hægri stjórn kemst aftur til valda verður eflaust ekki lögð nein sérstök áhersla á aðgengi að þessari skýrslu. Mér leið, þegar ég rölti um bæinn með níðþungu skýrsluna mína, eins og staðan hefði þokast nær réttlæti, og það væri að einhverju leiti vinstri stjórn að þakka að ég héldi á upplýsingum í fanginu, sem búið var að reyna að fela fyrir mér í fjölda ára. Soldið svona míní-útgáfan af því þegar Stasi-skýrslurnar voru gerðar aðgengilegar almenningi í gamla DDR. Og ég efast ekki um það að réttlæti nái fram að ganga að lokum, og þeir verði dregnir fyrir dómstóla sem eigi það skilið. Þetta er með því jákvæðasta sem mér hefur liðið síðan hrunið varð. Hvet ég nú alla til að verða sér út um eintak (áður en það verður of seint...maður veit aldrei) og lesa svo helvítið, því þeim mun fleirri þjóðfélagsþegnar sem eru með það á hreinu hvað fór úrskeiðis, þeim mun minni líkur eru á að allt byrji upp á nýtt við fyrsta tækifæri (lesist: þegar hægri stjórn tekur við).

sunnudagur, apríl 11, 2010

Víkingasafnið er nokkuð rólegt í dag, og því auglýsi ég eftir safnþyrstum gestum sem langar að kíkja á víkinga. Það var nefnilega fullt að gera í gær, portúgalir, skandínavískir læknar á ráðstefnu, kanar, bretar, íslendingar og allir skemmtilegir. Ég elska fólk, það er nú bara þannig. Ég elska líka þegar ég næ að setjast niður með bók og lesa í stað þess að hanga í tölvu. Það er bara svo margt að skoða á netinu, og ég er ekkert alltaf að hanga í einhverju heimskulegu facebook-drasli. Blogg eru góð, þá les maður hvað annað fólk í heiminum er að hugsa og pæla. Svo er google frænka alveg svakalega fín síða sem svarar hreinlega öllum spurningum í heiminum. Eins er wikipedia yndisleg vinkona mín. Ég hafði til dæmis hugsað mér að fara núna á eftir á wiki eða á imdb.com (internetmoviedatabase.com) og finna kórönsku myndina sem ég datt í seinni hlutann á í gærkvöldi á einhverri sænskri stöð. Horfði á hana til enda, með sænskum texta og skildi allt, og verð nú að kanna hvaða mynd þetta var. Mjög Murakami-ískur söguþráður, og ég hélt að hún væri japönsk, en elvar er semsé búin að fletta upp dagskrá gærdagsins á sænsku stöðinni og finna nafnið (man það ekki núna) og þá er eftirleikurinn auðveldur. Netið er safn upplýsinga og svo er það ímyndunarafl okkar og heilastarfsemi sem gerir nettíma manns áhugaverðan eða heiladauðan. Netið kemur þó ekki í staðin fyrir að lesa góðan texta úr gamaldags bók, og það ætla ég að gera í kvöld, og líka á eftir. Svo bara ætti ég að búa til system fyrir mig: Fyrir hverja klst. sem ég hef lesið heimspeki má ég fara í tuttugu mín. netið. Þá þarf ég að lesa og læra í 3 tíma fyrir klukkutíma af browsing-tíma. það er snjallt. held ég taki þetta upp....