Leita í þessu bloggi

þriðjudagur, júní 24, 2014

Um grá sumar-rigningarský

Sumardagurinn fyrsti er löngu búinn, líka 17. júní, hvítasunnuhelgin og jónsmessan. Ég er búin að fara til Hollands og Finnlands og ligg nú hér á sófa og horfi út um gluggann minn á regnský, dökkgrá, sem liðast framhjá himninum, ljósgráum. Það er ekkert svakalega sumarlegt við þetta ástand. Það sumarlegasta sem er í gangi eru malbikunarframkvæmdir og vegavinna um allt. Það er ótvírætt merki þess að nú sé sumar. Ég er á hjóli þessa dagana og það gengur glimrandi. Það var meira að segja smá sólarglenna í gær um hádegisbil, og í gærkvöldi á miðnætti hjólaði ég heim úr vinnunni minni í stillu og sólarlagi/sólarupprás. Þá hlakkaði ég til að eyða deginum í dag í tjilli niðri í miðborg, ja kannski bara á Austurvelli, sem væri þá jafnframt fyrsti Austurvöllur sumarsins fyrir mig. En nú er bekkirnir blautir og vellirnir votir. Ég hef hug á að hinkra örlítið og fylgjast með þessum dökkgráu skýjum halda sinn vel, burt úr miðborginni, og þá. Þá, sko, verður tekið á því. Ég á sólaráburð og sudoku-blað og allt.