Leita í þessu bloggi

sunnudagur, febrúar 27, 2005

Dag einn í Berlín: Eftirfarandi samræða er skrumskæld og stórlega færð í aukana, til að gefa innsýn inn í þýskt þjóðfélag og menningu.

Kúnni: "Góðan dag. Gæti ég ef til vill fengið hjá yður eins og þrjá brauðsnúða?"

Afgreiðsla: "Hvað eruð þér að ybba gogg? Komið hér æðandi inn og heimtið brauðsnúða?"

Kúnni: "Ja, þér getið þá bara tekið þessa brauðsnúða yðar og troðið þeim upp í.....

Afgreiðsla: "Auðvitað getið þér fengið brauðsnúða, sjálfsagt mál. Þrjá segið þér. Og eitthvað fleira með því?"

Kúnni: "Ha,...ha já ef þér gætuð selt mér eina fernu af mjólk líka?"

Afgreiðsla: "Þér eruð bara farinn að færa yður upp á skaftið. Mjólk líka. Það er ekki að spyrja að frekjunni í dag."

Kúnni: "Heyrið þér, þér getið bara sleppt þessu. Ég er farinn eitthvað annað að versla"

Afgreiðsla: "Já, semsagt þrír brauðsnúðar og ein mjólkurferna. Það gera þá 2 evrur. Já, takk fyrir og eigið þér ljómandi eftirmiðdag"

Kúnni: "??? hu, takk ???"

laugardagur, febrúar 26, 2005

Ja, það er stutt öfganna á milli. Loks þegar ég kem mér út út þessu get-ekki-sofnað mynstri, með því að vaka í rúman sólarhring, þá bara get ég ekki vaknað. Sofna eins og steinn, og vakna eftir 12-14 tíma, með herkjum. En það er sko í lagi, ALLT er betra en að upplifa svona vonleysi sem fylgir því að geta ekki sofnað. Ég hef í kjölfarið á þessu minnkað kaffidrykkjuna mína til muna, og má nú fá mér einn bolla á morgnanna, einn seinnipartinn, og síðan ekki söguna meir. Hef líka hafið drykkju á róandi tei, sem tekur víst viku að virka almennilega, en maður á að fá sér einn bolla fyrir svefninn. Heitir Jóhannesarjurt, og ég byrjaði í gær. Fer í munnlegt próf á þýsku klukkan sjö í kvöld, það verður spennandi. Þar sem ég hef verið að lesa þýsku á hverjum einasta degi í svona 2 vikur (í formi HarríPotterbókar) þá er ég ekkert stressuð. Ætla að tala um Arthur Schopenhauer, sem ég skrifaði BA-ritgerðina mína um. Já, ekki frá því ég hlakki bara til að krafla mig út út þessu. Svo er ein ritgerðarvinna hafin, og við á leið til Íslands á þriðjudag. Ef einhver veit um gistingu fyrir okkur í Köben frá 1. mars til 2. mars (á milli flugvéla), vinsamlega sendið mér póst: heidingi@hotmail.com
bæ,
Heiða

föstudagur, febrúar 25, 2005

Hvað er að ske?

fimmtudagur, febrúar 24, 2005

Stofnaði enskt blogg. Veit ekki alveg afhverju, en langaði það bara svo ég gerði það. Þar má ég bara skrifa á ensku. Stundum kannski dettur manni bara eitthvað skemmtilegt í hug á ensku, og þá verður það skrifað þar. Annars vakti ég í sólarhring, fór að sofa kl. hálf sex í gærkvöldi, og vaknaði útsofin kl. 4 í nótt. Fór svo, eftir smá kúr, á fætur um fimmleytið og fékk mér morgunmat, skoðaði fréttir, svaraði emailum, og nú er klukkan korter yfir sjö og ég er glaðvöknuð og tilbúin að fara að læra. Mér líður eins og ég sé Doktor Gunni eða einhver annar frægur morgunhani. Ég vona að ég nái að halda þessu, fara að sofa um 9 eða 10 leytið í kvöld, og vakna hress eins og Helga Kress. Fínt að vera á fótum klukkan fimm. Ég sverða, mér líður ekkert smá vel með'etta.
Í dag: Banki, ná í ritgerð, læra Heidegger heima og svo á kaffihúsi, og ef ég verð dugleg ætla ég að verðlauna mig með sundferð seinnipartinn.

miðvikudagur, febrúar 23, 2005

Sko, ætla að gefa ykkur innsýn inn í það sem fer í gegn um hausinn á mér þegar ég ligg og bylti mér, andvaka. Í sirka einn og hálfan tíma núna áðan hugsaði ég m.a.:
-hugsaði "Verð að muna að gera lista yfir allt sem ég þarf að muna að gera á morgun"
-hugsaði um hvernig ég ætti að útsetja nokkur lög, byrjaði jafnvel á því í huganum.
-velti fyrir mér hvort það væri ekki til eitthvað íslenskt orð sem þýddi bæði galdranorn og þruma, held að það sé "Skrugga" en er ekki viss hvort það getur þýtt norn líka.
-bjó til lista í huganum um fólk sem ég yrði að senda diska eða póstkort eða bæði.
-rifjaði upp ´drekinn-skjetsið úr Fóstbræðrum
-hugsaði um hvað þetta væri fáranlegt að liggja og hugsa í stað þess að sofa
-hugsaði um allt sem ég hefði hugsað um só far, og að ég ætti að blogga það allt og athuga hvort ég myndi sofna þá. (Þannig að ég hugsaði um hvað ég væri að hugsa, og það hef ég að mér vitandi aldrei gert áður)

Eins og ég sagði þetta er smá innsýn, en listinn er svona þrefalt lengri, og allt jafn ótrúlegir hlutir. Og nú er ég komin í hring, þar sem ég gafst upp og hætti að reyna að sofna, og sit hér klukkan sjönúllníu að morgni, ósofin og ósyfjuð en örmagna.
Er komin með verki í vöðvana af þreytu...en kannski eru bara of mikil læti hér í íbúðinni. Barinn hættir að spila sirka þrjú,og hendir fyllibyttum út,...og klukkustund síðar rúmri byrjar fyrsti sporvagninn að ganga.
Og já, ég elska sporvagna en að geta ekki sofið fyrir þeim gerði það að verkum að ég fór líka að hugsa um sprengjur og sporvagna sem enduðu í logum og með öllu óstarfhæfir.
En á léttari nótum...ég hef, sökum svefnleysis, klárað að lesa fyrstu bókina mína í fullri lengd á þýsku!!!
Harrí Potter og viskusteinninn á þýsku kláraðist áðan, og Harrí Potter og leyniklefinn á þýsku, here I come. Gríp líka í léttari heimsbókmenntir eins og Tinna og Ástrík svona á milli.
Hehehehehe ég skiiiiiiil.

mánudagur, febrúar 21, 2005

Sáum Butterfly effect. Rosa góð, mæli með'enni. Fjallar um að allt sem maður gerir skipti máli. Skiptir allt sem ég geri máli? Skipti ég máli? Ég vona það. Ef ég skipti máli fyrir einhvern annan en mig, þá er bara það að ég sé til gott, og allt hitt sem gerist eða ég geri er þá bara bónus umfram það. Soldið eins og eitthvað leikrit sem ég lék í með VOX ARENA -hinu stórkostlega leikfélagi Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Leikritið hét "Hjólreiðaverkstæði Hennings", og fjallaði um téðan Henning sem var dáldið dapur og drykkfelldur og að spá í að fremja sjálfsmorð. Þá kom draugur Johns Lennons og sýndi honum hvernig fullt af fólki hefði hreinlega farið í hundana ef hans hefði ekki notið við. Hann bjargaði fólki frá vondum "örlögum" bara með því að tala hressilega við það á verkstæðinu, eða brosa fallega. Hann gaf vonlitlu fólki von, án þess að hafa hugmynd um það. Hann bjargaði fólki, bara með því að vera til. Auðvitað hætti Henning við að drepa sig, og allt fór vel og happy ending....Ahhhh nostalgían úr stuttum leikferli mínum hríslast niður um bakið. Jamm, en Butterfly Effect er góð. Allir að taka hana.

laugardagur, febrúar 19, 2005

Klippti tvo stráka, og svo neðan af bláum rifflaflauelisbuxum,og þá passa þær. Svo tók ég upp 5 lög, þar af eitt samið á staðnum. Vaskaði líka haug af leirtaui upp, skil ekkert í mér. Gleymdi hins vegar að borða kvöldmat og nú er ég svöng og langar í kebab, en það er enginn peningur í nýju buxunum. Bókuðum líka ferð til Íslands til að hitta elsku drenginn, og verðum því á Íslandi frá 2. mars til 16. mars. Yndislegt. Vona að snjórinn fari svo við getum stungið af til Frankfurt sem fyrst. Kannski er nógu snjólaust til að fara bara á sunnudag, því okkur er boðið í eitt ammæli á morgun.Svo bara einhverntíman þarna í og með og í millitíð og meðfram geri ég tvær ritgerðir, aðra um Heidegger og hina um Schelling. Hva, ekkert mál fyrir Heiðu kál. Bíð bara eftir bókum og svo ligg ég yfir þeim.
Kennsla búin, Elvar kláraði sína ritgerð í nótt, og er nú farinn í partý með Mella. Ég bara varð að sleppa því. Er nú komin með 10 kassagítarslögdemó, og nokkur óupptekin sem ég geri á morgun.
Haha, gamangaman, en djö....langar mig í kebab hjá tyrkjunum okkar í Grillhaus út á horni.

miðvikudagur, febrúar 16, 2005

























































































































HEIDAEIRIKS
H is for Honorable
E is for Energetic
I is for Irresistible
D is for Deadly
A is for Artistic
E is for Elitist
I is for Ideal
R is for Refreshing
I is for Ideal
K is for Keen
S is for Silly




Ókey, NÚNA er ég farin að sofa, ég bara held ég sé að missa vitið að gera bullupróf á netinu á þessum almennt viðurkennda svefntíma fólks. Og þar heyri ég í fyrsta sporvagninum fara, jámm, kl. rúmlega fjögur byrjar hann, og ég fer í háttinn
veit ekki alveg hvað ég þarf að segja núna. Það er eitthvað um unglinginn í mér. hann er svo frjáls eitthvað að hann fer í uppreisn og nú vill hann bara gera óskynsamlega hluti en ekki skynsamlega. En ég leyfi honum það ekkert. Ég er reynslan OG minn innri eilífðarunglingur, og þess vegna ætla ég ekki að hringja í bankann, fá mér vísnakort, og kaupa myndavél og dokkúmenta berlín, og próva svo alla fínu veitingastaðina fyrir afganginn. Ég ætla að elda, baka, kaupa ódýrt inn, dokkúmenta með augunum og þá er ég að sanna það fyrir sjálfri mér að ég hef lært af reynslunni, og froskast pínu. En ég má samt ennþá sparka í steina á götunni, (því það er unglingapönk), snúa sólarhringnum við alveg fram og tilbaka, (því það er svona unglingagoth), og hlusta nonstop á háværa tónlist, og hlæja í lestinni upphátt og kæra mig kollótta um alla sem hneykslast og glápa (því það er bara gaman).
Já, þetta er niðurstaðan.
Góða nótt
P.S.
Og júhú Christoph, ef þú ert að lesa, ég fékk lánaðan bíl hjá portúgalskri stelpu í kvöld, og hún segir að við meigum alveg keyra til Frankfurt á honum. Það eru samt sumardekk, svo nú bíðum við bara eftir smá snjóleysi, þá er ferðinni heitið til ykkar.

mánudagur, febrúar 14, 2005

litskynjun er aftur eðlileg, svo þessi nýjung entist ekkert. Fíla pastel ekkert vel, en allt nýtt er gott meðan nýjabrumið er ekki farið af því. Augu mín sjá sumsé aftur liti, og klæjar ekki eins mikið í augun, svo ég er farin út að þvo þvott. Er alveg viss um að rykmaurar, mannaflær og veggjalýs hafi hertekið rúmið okkar. Fór á vísindavefinn að lesa mér til, og jújú, þetta er allt til, og jújú partur af því að losna við þetta er að þvo sængurföt reglulega. Þar sem við eigum bara eitt lak, og enga þvottavél þá hefur þetta lak verið dáldið lengi á, sængur-og koddaver kannski skemur, en samt alveg 2 mánuði. Shiiiiiit. En það kostar að þvo, og við erum að spara, en nú læt ég ekki bjóða líkama mínum lengur upp á rykmaura. Komst nebblega að því á vísindavefnum að jafnvel þó rykmaurar séu vinir okkar og borði bara dauðar húðfrumur af okkur en ekki skinnið sem er áfast, þá getur fólk verið með ofnæmi fyrir draslinu sem þeir skilja eftir sig. "Draslið" eru dauðir rykmaurar og skíturinn úr þeim.....OOOOOOOJJJJJJJJJJ. Nú klæjar mig um allan líkamann.

sunnudagur, febrúar 13, 2005

Já, it's official, ég sé pastelliti í stað lita. Sko, ég er nebblega með streptokokkasýkingu í hinum ýmsu slímhúðum líkamans, og kokkarnir eru greinilega eitthvað að baka í augunum, líklega bara vandræði. Fór til læknis á mið. í síð. vik. og hún sagði mér að fá hjá henni krem en þar sem ég er með ofnæmi fyrir pensilini þarf ég annars konar fúkkalyf, og þau bara þurfti að sérpanta í apóteki og koma á þri. í næstu viku. Jabbs, sko ég er með smá svona vírustilfinningu en ekkert of slæmt, bara eins og slöpp, en svo vakna ég og sé pastelliti! Vei, þetta er svo sprenghlægilegt að ég bara spring. Já, er að reyna að sofa ekki allan sólarhringinn, en mig langar samt meira að sofa en vaka í slappleikanum. Er samt að lesa fyrstu Harry Potter-bókina á þýsku og er hálfnuð.Hún heitir "Harry Potter und der Stein der weisen", og er að byrja að vera spennandi. Alveg nýtt, eitthvað verður spennandi á þýsku...En ég hef náttúrulega lesið bókina á ensku tvisvar, þessvegna er ég að skilja. Samt góð æfing í þýsku. Þá er bara að lesa meira, læra hratt og örugglega þetta móðurmál Blixa Bargeld, sem er áræðanlega kúlasti þjóðverji sem ég veit um. Kannski eini alvöru kúl Þjóðverjinn?

laugardagur, febrúar 12, 2005

Ég fór í bað og ilma og er mjúk eins og ungabarn. Spiluðum púl á "Musikladen" sem er svona ellilífeyrisþegastaður, meðalaldurinn er ábyggilega 50 ár, og þeir elstu á áttræðisaldri. Þau virðast ekki vera að fíla billjard neitt sérstaklega, og því er borðið alltaf laust. Það er gaman þarna. Fullur kall gaf mér brenndan disk með átta plötum með Bruce Springsteen, bara svona upp á djókið... Svo söng ég Kisslagið "I was made for lovin' you baby" með gömlum rokkara, og hann sagði mér allt um Kiss, enda var hann aðdáandi. Og allt þetta gerðist milli 9 og 12 og svo fórum við heim. Í dag lærðum við á kaffihúsi, tæp blaðsíða í Heidegger sem ég er að reyna að klóra í á þýsku. 19 orð glósuð, náði samt ekki samhengi...Hlakka til að fá bækur á ensku sendar til að geta farið að skilja. Get semsagt átt samræður um Kiss á þýsku, en ekki lesið Heidegger. Hmmm. Jóhann Jóhannson hélt snilldartónleika hér í gær. Matti Hemstock á trommur, og svo einhver fiðlukvartett. Mjög flott og soldið brjáluð tónlist hjá Jóa. Allt fullt af Íslendingum að horfa, og svo er líka einhver voða fín kvikmyndahátíð í gangi, sem sumir Íslendinganna eru komnir til að fara á. Ætlum að reyna að komast á eina á morgun, eftir Íslandsáhugamanninn Wolfgang Muller sem ég hef aldrei hitt, en heyrt margt um. Svo er önnur eftir Börk Gunnarsson á fimmtudag. Bruce er bara ágætur, alltaf gaman að fá geisladiska upp í hendurnar. Vááááá, Christopf sendi mér nýja Tom Waits um daginn, og það er bara besti diskur í heimi, ég sver'ða. Langar svo að heimsækja Christoph til Oberursel, sem er rétt hjá Frankfurt, en ég er með einhverja streptokokkasýkingu, og viðkvæm í öllum slímhúðum. Reykurinn á barnum fór t.d. alveg með augun mín, sem eru núna með rauð og bólgin augnalok. En baðið var gott.
Verð að taka því rólega bara og ná þessum vírus í burt, þá getum við skroppið til Christophs, og séð nýja Tuomo Kjartan, Jako Kára og Nóru. Bless.

miðvikudagur, febrúar 09, 2005

Oohh the glory of sótthiti, sbr. síðustu færslu. Ég held að Bítlarnir hafi aldrei samið neina texta á LSD-i, heldur bara notað sér farandsflensur þeirra tíma.
Kaffi, ristaðbrauðmeðsultu, verð að mæta í skóla, verð að klæða mig vel, má ekki verða kalt. Nenni þessum kulda ekki lengur, því hann er hundleiðinlegur. Ef ég væri Óliver myndi ég nú segja: "Skamm kuldi"!!!

þriðjudagur, febrúar 08, 2005

sunnudagskvöld, úti að labba í leit að poolborði sem hægt væri að spila á ballskák. Ægilegur kuldi og ólýsanlega mikill raki sem fylgdi. Hópurinn gekk eins rösklega og fætur leyfðu, en engu að síður nær kuldaboli mér. Ein brún prjónahúfa dugði engan vegin, og ég var komin með höfuðverk af kulda. Gekk hraðar, en kuldinn og verkurinn magnaðist. Loks fundum við stað, og sjá, þar er poolborð. Ég sest, en líð nær útaf, og nú er ekki um neitt annað velja en koma sér aftur heim. Það hefur eitthvað ægilegt komið fyrir mig í kuldanum, ég skelf öll. Núna verð ég skyndilega að fá orku, svo ég nái nú alla leið heim. Sé sjoppu, kaupi 2 súkkulöð, borða bæði, hratt. Líður í sannleika sagt ekkert betur, en fæ undarlega glýgju og eins og skyndilega birtu fyrir augunum. Fólk sem bíður eftir sporvagninum starir undarlega á mig þar sem ég riða til á brautarpallinum, með súkkulaði í munnvikjunum. Vagninn kemur, ég fer með honum, og skríð loks skjálfandi inn í hitann heima. Tek parasetamól og rotast á nokkrum sekúndum. Vakna svo um eitt og er hress en ógurlega dösuð og hálf-illt um allan líkamann. Síðan sef ég í sirka 10 tíma, en hef ekkert verið á fótum, eigilega enn í náttfötunum frá í gær. Dularfull veikindi, líður í raun eins og ég hafi fryst á mér hausinn. Eins og aum í höfðinu, og já, alveg ófær um að hugsa af viti. Held bara að ég hafi ofkælst...
Fylgist með framhaldinu, hvað gerist næst?
Mun heilsan koma, eins óvænt og hún fór?
Er morgundagurinn rétti dagurinn til að mæta í skólann, eða mun það draga jafnvel meiri og dularfyllri flensu-dilk á eftir sér?
Er höfuð mitt yfirhöfuð í lagi eftir kuldann, eða mun það jafnvel detta af?
Æsispennandi flensufregnir úr Berlínarborg, þar sem allt getur gerst og enginn er öruggur.

sunnudagur, febrúar 06, 2005

latur sunnudagur, hlusta á tónlistina hans Clive sem kom í kaffi með minidiskasafnið sitt. Soldið skrýtinn, en mjög skemmtilegur, gaur. Hann hefur gert súper mikið af svona tónlistartilraunum, og mér finnst að Bibbi vinur ætti að heyra sumt af þessu. Undarlegt og bara já eiginlega alveg óútskýranlegt.
Annars ætla ég bara að taka því rólega. Langar að taka upp smá tónlist, spila á gítar og syngja lög. Já, það vil ég, það er gaman.
Og reyna svo að fara snemma að sofa í kvöld.
Læra á morgun, því ég er skólastelpa, má ekki gleymast.
Læragjáin.....muniði eftir henni?
Eiginlega soldið asnalegt nafn á heita læknum í öskjuhlíð. En nú er ég ekki eiginlega viss um að þetta hafi verið kallað Læragjáin, og ef það var nafnið sem notað var, var það þá út af því að maður var berleggja, og þá berlæra ofaní heita vatninu?
Var ég bara að búa til þetta nafn "Læragjáin"?
Nú efast ég um allt, og er ekki viss um neitt...

laugardagur, febrúar 05, 2005

Ég fór í Checkpoint Charlie, (eða varðstöð Kalla) í dag. Það safn er tileinkað hetjulegum flóttatilraunum fólks úr austurhluta yfir í vesturhluta Berlínar. Sumar tókust aðrar ekki. Hef lengi ætlað að fara og lét loksins verða að því, til að gera svona eitthvað smá "túristalegt" með túristanum okkar sem er í heimsókn. En þetta safn olli sko ekki vonbrigðum...Þarna er að finna rosalegt samansafn af tilfinningum fólks sem var lokað inni í sinni eigin borg, og stundum skilið að frá öðrum í fjölskyldunni. Þarna eru forboðnar ástir, hættur og sorgir og gleði. Hugmyndaflug fólksins gerði það svo frjálst, í bland við hyggjuvit og hugrekki. Að finna upp nýjar leiðir til að komast yfir vegg, var það eina sem gilti. Yfir, undir, meðfram og í gegn, í vatni, á jörðu eða úr lofti. ALLT var reynt, og í raun kemur það bersýnilega í ljós í þessu safni af heimildum sem spanna marga tugi ára, hve ofboðslega fólkið hefur hatað múrinn sinn.
Ég sá ekki alveg allt, en var samt að vappa í rúma tvo tíma. Gott að eiga aðra ferð eftir þegar næstu túristar koma, hvenær sem það verður.
Lætur mann hugsa um frelsið, að það sé ekkert sjálfgefið, og kannski maður verði að nýta tímann sinn vel, meðan frelsið er enn til staðar. Hvað veit maður hvenær næstu áhrifamiklu geðsjúklingar ákveða að beita einhvers konar þvingunum og frelsisskerðingu, og hver veit hvenær það verður frelsið mitt og þitt?

föstudagur, febrúar 04, 2005

Mig dreymdi draug.
Var sko að labba með Sindra fyrrverandi Dáðadreng, og einhverjum úr Ælu,(held Svenna, en það var svona eiginlega ekki neitt ákv. andlit, bara vissi að það var einhver úr Ælu). Allavega, Æla og Dáðadrengir ætluðu að taka upp eitthvað saman, og voru búnir að redda tómu húsi til að vera í við upptökurnar. Húsið var tómt, gamalt á nokkrum hæðum, en á þeirri eftstu var eins og turnherbergi, sem var sexhyrnt í laginu, og þar inni var gamaldags skrifstofa og bókaherbergi, við erum að tala um dökkbrúnt skrifborð með pennastatífum, og bókahillum um allt og leðurlesstól og gömlum lampa á standi á gólfinu....bara draumaherbergið mitt!!!Það var líka svo fallegt að kíkja niður úr turnherberginu, maður kíkti niður í miðbæinn, og þar voru nokkrir unglingar að hanga og hlægja og þetta var allt mjög notarlegt. Veggirnir í herberginu voru með 5 eða 6 mismunandi litum, þar sem sást í gömul málningarlög, og það var svo fallegt að mig langaði ekkert að fara. Við fórum nú samt, og ég labbaði smá meira með Ælu og Sindra, og svo fóru allir heim, en mig vantaði svefnstað, svo ég fékk herbergið lánað. Herra Æla var á leið í sömu átt og ákvað að hjálpa mér með barnakerruna mína(??? sem ég var allt í einu komin með) upp stigann. Þá gengum við framhjá spegli og ég sá mig í honum, en svo þegar ég var að snúa mér við þá sá ég litla stelpu sem stóð bara og horfði á okkur, og ég vissi að þetta var draugur!!!!!!! Ég bara hrundi niður í eitt þrepið og kjökraði draugur,draugur,draugur.....Vóóóóóóóóóóóóóó

miðvikudagur, febrúar 02, 2005

Gleðilegan febrúar! Febrúar hefur það fram yfir aðra kalda mánuði ársins að hann er stuttur. Það eru einungis 26 dagar eftir af honum í dag og samt er hann svo til nýbyrjaður. Þetta er snilld. Vel þess virði að þrauka 26 daga í viðbót, og svo eru aftur mánaðarmót, aftur borgað, og jafnvel komið vor, ef við erum heppin. Farin að finna mun á birtustiginu hér. Í gær var enn bjart klukkan rúmlega fimm, og það er töff. Spiluðum í sendiráðspartýi, bland af okkar lögum og sjómannaslögurum. Síðasta sjóferðin með Brimkló, Ísbjarnarblús með Bubba og Í landhelginni með Hauki voru best að mínu mati. Fólk var ansi ánægt bara. Ein fékk ímeil og síma og vill kannski gera viðtal...Svo buðum við vinum okkar, sem höfðu komið að sjá, heim í partý. Gaman að halda partý á þriðjudegi. Allir glaðir og reyfir og svo þegar klukkan var miðnætti drifu sig bara allir heim, ofsa kátir með partýið, og gátu vaknað morguninn eftir. Bauð tveimur bretum sem ég hitti út í sjoppu þar sem bjórinn fyrir partýið var keyptur. Þeir eru breskir "böskarar", og sérhæfa sig í að spila í neðanjarðarlestum. Mjög klárir, og skemmtilegir strákar. Við buðum þeim aftur í kaffi á föstudagseftirmiðdag, og ætlum að taka upp eitt lag sem annar þeirra gerði. Svo bara urðu þeir svona bretafullir og byrjuðu að segja orðaleikjabrandara eins og bretar gera best...það var æði. Svo gaf ég parýinu harðfiskinn minn, sem kom í staðin fyrir hnetur sem oft er naslað í með bjór. 3 pólverjar, 2 þjóðverjar, 2 bretar og við, allir að kjamsa á harðfiski og fannst það æði. Voru bara leiðir þegar hann kláraðist. Öðrum bretanum fannst ég svo gestrisin og góð að hann hneigði sig fyrir mér, og sagði að þetta væri hæsta virðingargráða sem breskur herramaður gæti veitt!!! Ótrúlega gaman.
Ég er farin í skólann, í "Nur unter Menchen, können die Menchen zu menchen!", sem ég veit ekki enn nákvæmlega hvað þýðir, en gæti þýtt: Bara í kringum aðra menn geta menn verið mennskir"
Bless