Leita í þessu bloggi
föstudagur, nóvember 28, 2014
Eitt blogg í einu!
Það er hræðileg staðreynd að það séu eingöngu 4 bloggfærslur á árinu 2014, all time low blogg-ár fyrir mig, eeeeeeen.... Kannski bloggar maður minna þegar maður er að reyna að skrifa eitthvað annað. Ég er sko að skrifa bók/bækur og ætla að halda því áfram. Það ætti samt ekki að trufla bloggskrif, því það er ekki eins og bækur innihaldi sama efnivið og þann sem kveikir á bloggfærslu. Allavega...Það er föstudagur og ég er að vinna uppí rúv, að klára næsta þátt af langspili. Hjólaði í vinnuna í morgun og varð hvorki kalt né meint af því, en það var vindur og vetrarlegt. Mér finnst að allir ættu að setja eitt kerti út í glugga hjá sér á morgnanna áður en fólk fer í vinnuna. Láta loga eitt lifandi ljós í gluggum, þá væri skemmtilegra að hjóla eða labba úti á morgnanna áður en birtir. Það er nefnilega ekki kuldinn sem fælir, það er ekkert flókið að klæða hann af sér. Nei það er myrkrið sem maður klæðir ekki af sér. Ég lýsispilla, d-vítamína og probíótíka mig upp á hverjum morgni og skola þeim pillum öllum niður með stóru safaglasi (c-vítamín), og allt þetta nýtur aðstoðar koffínsins sem ég fæ úr kaffi- eða tebollum. (Fyndin setning: Ég held ég skoli þessum tebollum niður með nokkrum tebollum...) Samt þarf ég alveg að hálf-plata mig út þessa dagana. Þetta er auðvitað ekki skammdegisþunglyndi því ég er ekki döpur eða sorgmædd eða áhyggjufull, þökk sé d-vítamíni og lýsi líkast til. Þetta er samt svona hýðis-hegðun, þar sem ekkert í heiminum hefur meira aðdráttarafl en mjúka yndislega rúmið mitt með enn mýkri sæng og nýja, yndislega svæflinum mínum sem ég keypti á útsölu í sumar í einhverri búð í kópavogi sem ég rakst á í hjólatúr. Mig vantar samt stærri koddaver fyrir þennan svæfil. Skrýtið, þegar ég skrifa orðið svæfill dettur mér bara í hug orðin svefn og ræfill. Talandi um ræfil, platan Ræfill með Þóri Georg er geðveikt skemmtileg: Ég var að skoða alls kyns gömul blogg, mín og annarra, og fattaði hvað það er nú gaman að geta skoðað pælingar fyrri tíma. Ég þarf því að spýta í lófana og blogga meira til að ná upp ársfærslum fyrir 2014. En þetta hef ég svo sem sagt áður. Innantóm loforð. Samt, maður skrifar bara eitt blogg í einu... og hér er eitt blogg í einu.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)