Leita í þessu bloggi

mánudagur, október 22, 2007

Um Airwaves 2007

Að vera eða vera ekki kúl
Það hefur varla farið fram hjá neinum að undanfarna daga hefur tónlistarhátíðin Airwaves flætt yfir landið með til heyrandi hópi tónlistaraðdáenda erlendra sem innlendra. Hátíðinni fylgir jafnan heilmikið stóð erlendra poppskríbenta sem keppast um að skrifa um allar hljómsveitirnar fyrir blöð sín, en einnig fyrir hið íslenska Grapevine sem gefur jafnan út blað á dag yfir alla hátíðina með því helsta sem er á döfinni ásamt dómum um gigg gærdagsins. Sökum þess hve lítið Ísland er og nálægð Íslendinga við hvern annan mikil hefur íslensk tónlistarblaðamennska einkennst af að sýna sanngirni í dómum um tónlist, eða að minnsta kosti örlitla kurteisi. Öllum þykir reyndar sjálfsagt að dómar birtist þar sem blaðamenn hafa sterkar skoðanir á tónleikum eða útgáfum en langoftast eru þær skoðanir settar fram á viðeigandi hátt þar sem fólk er fremur hvatt til frekari dáða ef örlítið af vanköntum eru enn til staðar hjá hljómsveitinni. Örfáir íslenskir blaðamenn hafa reynt að fara harðari leiðir í tónlistarskrifum sínum en horfið af þeirri braut þegar á þá er öskrað úti á götu eða vonsviknir tónlistarmenn eru farnir að hringja ógnandi í þá á kvöldin.
Augljóslega er aldrei hægt að láta sér líka við allt og einnig er aldrei hægt að gera öllum til hæfis, og því er hluti af því að vera góður poppskríbent að ná að segja hlutina án þess að gera í því að stuða þá sem eru á annarri skoðun en blaðamaður.
Erlendir blaðamenn sem koma einu sinni á ári á Airwaves til Íslands til að detta í það og leita að poppstjörnum morgundagsins eru vanir allt öðrum vinnureglum en íslenskir kollegar þeirra. Þeir geta sagt hvað sem þeim dettur í hug og þurfa ekki að hafa áhyggjur af að hitta tónlistarmennina við mjólkurkælinn daginn eftir. Þeir fría sig allri ábyrgð og skemmta sér líklega konunglega við að horfa á ógrynnin öll af íslenskum sveitum sem þeir hafa aldrei heyrt í áður og munu aldrei heyra í aftur og skrifa misgáfulegt bull um þær. Örfáar sveitir eru töff og kúl og "the next big thing out of Iceland", en eðli málsins samkvæmt geta ekki allir verið kúl, því þá væri ekki til neitt sem héti að vera kúl. Íslenskar hljómsveitir vilja að sjálfsögðu ekki vera hallærislegar og fá eitthvað slæmt skrifað um sig í Grapevine af erlendum blaðamanni sem leiðist, og því keppast þær um að gera eitthvað töff á sviði sem hefur sjaldnast nokkuð með tónlist að gera og þær myndu ekki láta sig dreyma um að gera á öðrum tónleikum en þeim á Airwaves. Hljómsveitir sem eru alveg ótrúlega skemmtilegar og þurfa ekkert að vera að taka þátt í svona töff og kúl-rugli gerast meira að segja sekar um þetta. Allt snýst um að vera með einhverja leikræna og sjónræna tilburði á sviðinu svo ljósmyndararnir nái nú góðu skoti og erlendu blaðamennirnir detti ekki í að rakka hljómsveitina niður af því þeim leiddist. Þetta snýst ekki lengur orðið um tónlist heldur um það hvað hljómsveitin gerir annað á sviðinu en að spila tónlistina sína. Hin yndislega sveit Mammút er til dæmis sökuð um það í sunnnudagshefti Grapevine að hreyfa sig það lítið á sviði að þau fengju ekki vinnu í líkhúsi, en það hafi þó sloppið að horfa á tónleika vegna þess að söngkonan er með fína rödd. Það helsta sem blaðamaður man frá tónleikum hinnar stórkostlegu sveitar Reykjavík! er að rauðklædd stúlka öskraði klúryrði í hljóðnema í upphafi tónleika þeirra. Hvaða máli skipta þessi atriði þegar kemur að tónlist? Væri ekki nær að reyna að skrifa svolítið um tónlist sveitanna Mammút og Reykjavík! í stað þess að lýsa bara umgjörðinni á svona yfirborðslegan máta?
Þetta eru því miður ekki einu dæmin sem finna má í Grapevine-blöðunum, og frekar klúðurslegt að sjá jafnvel sömu frasana notaða aftur og aftur kvöld eftir kvöld hjá sumum erlendu blaðamönnunum sem greinilega nenntu frekar að stunda partýjin með poppstjörnum morgundagsins en að vinna vinnuna sína sómasamlega. Mikið er um að ágætis sveitir séu rakkaðar niður sökum þess að þær voru ekki í kúl klæðnaði, eða með hallærislega framkomu eða jafnvel, eins og í tilviki hinna virkilega fínu rokkara í Noise, að þeir séu ekki með nægjanlega svöl hljóðfæri að mati blaðamanns. Eftir að hafa trekk í trekk lesið hraðsoðna og kjánalega dóma latra blaðamanna um tónleika sem búið var að æfa fyrir og undirbúa í langan tíma fær maður svoldið nóg. Maður byrjar að missa trúnna á blaðinu sem styður birtingu á slíku efni. Síðan missir maður trúnna á að taka þátt í þessum töff og kúl leik sem er í gangi á svona tónlistarhátíðum. Þegar mestu máli skiptir að vera í réttu fötunum, mæta í rétta partýjið, gera eitthvað sem kemur flott út á mynd og umfram allt vera töff og kúl í gegn um súrt og sætt er ekki um annað að ræða en að stræka á þetta bara. Spila á Airwaves á næsta ári í gallabuxum og bol og hreyfa sig ekki á sviði. Sitja jafnvel bara á sviðinu alla tónleikana. Gretta sig framan í ljósmyndarann svo engar myndir náist af hljómsveitinni þar sem meðlimir eru sætir, kúl og töff. Segja ekkert fyndið eða svalt. Ég meina ef þetta snýst ekki um tónlist, þá er bara alveg eins hægt að reyna fyrir sér í módelbransanum.

Engin ummæli: