Leita í þessu bloggi

þriðjudagur, júlí 03, 2012

gæludýramenn

kisinn minn liggur á sænginni minni og sleikir á sér feldinn. þar á undan var hann sofandi og eftir að hann er búinn að sleikja á sér feldinn leggur hann sig örugglega aftur. það er ótrúlega merkilegt að til séu dýr í heiminum hverra hlutverk er að vera sæt fyrir aðra dýrategund. Hvað ef við mannfólkið værum slík dýrategund fyrir einhver önnur dýr? Hugsanlega eitthvað dýr sem er klárara en maðurinn og líka aðeins stærra (til þess að þeim finnist við lítil og krúttuð). Svoleiðis dýr er ekki til á þeirri plánetu sem við þekkjum en auðvitað er það bara tímaspursmál þar til við fáum sannanir á lífi annarra tegunda á öðrum hnöttum. Það eru svo stjarnfræðilega litlar líkur á því að við séum einu lifandi verurnar í heiminum að það er eiginlega fáránlegt að við höfum ekki enn hitt aðrar. Mér finnst heimurinn eins og bíómyndirnar Men in Black lýsa honum, vera mjög sennilegur, og held að hann verði svoleiðis bráðum. Ég væri alveg til í að vera gæludýr fyrir stærra dýr eins og kötturinn er gæludýr hjá manninum. Á meðan ég væri ekki í ánauð, og þyrfti bara að vera sæt og skemmtileg og krúttuð, þá væri ég til í það. Ef kettir virkilega vilja eitthvað þá fá þeir það. Eins og kötturinn okkar sem bara ásetti sér að vera úti í nótt, þrátt fyrir að vera frekar mikið inniköttur og líka hreint ágætlega við það. Hann er ekki hrifinn af öðrum köttum, frekar smeykur við þá, svo félagsskapur manna hentar honum því ágætlega. En seint í gærkvöld stökk hann út, um leið og hurð opnaðist, og hvarf. Köll á hann skömmu síðar báru engan árangur. Hann kom inn í morgunn og liggur nú og sefur, eftir að hafa sleikt allan feldinn sinn. Hann er rosalega mikið krútt.

4 ummæli:

Nikki Badlove sagði...

...knús....ég væri til í að vera annað hvort Oliver eða Ljóni í einn dag...þeir lifa svo yndislegu lífi...knús....

Heiða sagði...

þú ert velkominn hingað til að leggjast í sófa, velja þér fleti með teppi eða sæng, og vera ljóni í einn dag. sofa og mala, teygja þig og sofna aftur.

spritti sagði...

Ég held að jörðin sé einhver ræktunardolla. Auðvitað vitum við ekkert um það frekar en maðkar sem eru ræktaðir handa veiðimönnum. Þeir lifa við bestu mögulegu aðstæður í kari sem þeir eru ræktaðir í. Við verðum trúlega notuð í einhvern andskotann þegar við erum orðin nógu mörg. Eða kannski erum við notuð í eitthvað sem við vitum ekkert um. Svo þegar við erum búin að útrýma okkur sjálfum þá verður bara búin til ný ræktunardolla eða hnöttur til þess að rækta lífverur. Sennilega eru margar svona ræktanir í gangi núna.

Heiða sagði...

spritti, þetta er vissulega möguleiki. en eins og þú segir, maðkarnir eru sælir í bestu mögulegu aðstæðum og vita aldrei neitt. við verðum bara að sætta okkur við þetta, og reyna að finna tilgang áður en þeir breyta okkur í batterí.