Leita í þessu bloggi

föstudagur, nóvember 20, 2009

Það allra skemmtilegasta sem hefur komið fyrir mig gerðist í gær, og haldiði ykkur nú: Ég fór óvart í ósamstæða skó og fattaði það á brautinni á leið í skólann! Það er einhvern veginn síðasta tabúið sem fellur þegar skórnir eru ekki eiginlegt skópar. Ég blygðaðist mín ekki rassgat og fannst bara að dagurinn væri einstaklega sérstakur og fallegur fyrir vikið. Reyndar var um tvö svört dr.martins-skópör að ræða, annað reimað og hitt með hliðarteygju, þannig að ruglingurinn minn var svo sem ekki far át, en samt.... Það virðist vera næstum samfélagslega viðurkennt að sumir rugli sokkapörum upp, og fari í sitthvorn sokk, jafnvel sitthvorn litinn. Á tíma var tíska í gangi að eiga mörg Converse-skópör og blanda sitthvorn lit á sitthvorn fót. En bara einhver skór á hægri og einhver annar á vinstri þykir nú bara vera vottur um almennt rugl. Ég átti prýðisdag í mismunandi skóm í gær, og er að pæla í að gera þetta oftar.

Annað og óskylt: Flottasta íslenska plötuumslag síðari ára sá ég á netinu í dag, og það er næsta plata Hjaltalín, sem kemur í búðir eftir helgi og heitir víst Terminal.



Æðisleg mynd framaná, í mjög flottum litum. Ef tónlistin er líka góð er hér kominn flottur gripur. Annars er ég langt frá því að vera heitur Hjaltalín-aðdáandi, en hef ekkert heyrt af nýju og læt því vera að tjá mig um hana fyrirfram. Af albúminu að dæma ætti þetta þó að vera svona kalt og hrátt Bowie-í-Berlín-dæmi eitthvað. Mér finnst það reyndar mjög ólíkleg þróun á tónlist Hjaltalín, en hvur veit?

Engin ummæli: