Leita í þessu bloggi

fimmtudagur, desember 09, 2010

Sit á kaffihúsi með sojalatte og hlýði á fullt af skemmtilegri íslenskri tónlist, gegnumsósa af chillí frá Núðluskálinni á Skólavörðustíg. Fékk mér súpu "C" með ofur-miklu chilli svo ég svitnaði kringum augun og varð kalt í þeim. Ég er að fara að spila á tónleikum með Ég í kvöld á Sódómu, og hlakka til. Gott að borða mikið af chillí áður en maður syngur. Er að lesa aðra Múmínálfabókina mína, las þetta aldrei sem barn. Núna er ég að upplifa eyju múmínpabba....Hef komist að því að ég deili mestu með Múmínsnáðanum, en ég öfunda Míu litlu soldið af því að vera svona hugrökk og hugmyndarík. Ég meina, hún notaði eldhúshnífa til að fara á skauta á tjörninni, hún bara batt þá undir skóna sína. Af hverju hefur mér aldrei dottið það í hug, og ég sem á heima við hliðina á tjörninni? Bar þetta undir Elvar, og hann, rödd skynseminnar, sagði að líklega væri erfitt að halda jafnvægi á hnífunum....Kannski er Mía litla bara kúl í bókunum, og það sem hún gerir myndi ekki heppnast í alvöru. Þá er nú bara ágætt að vera eins og Múmínsnáðinn. Ég meina, hann elskar að vera einn og leitar sér að leynistöðum. Ég líka! Hann er ótrúlega góður og saklaus, og veit ekki hvenær Mía er að djóka í honum og hvenær hún er að segja satt....uuuuuuuu, ég líka....sko kann oftast ekki að átta mig á kaldhæðni. Ég er að átta mig á því, 39 ára gömul, að ég er eins og Múmínsnáðinn. Sem er nokkuð gott...

2 ummæli:

spritti sagði...

Svo notaði hún silfurbakkann hennar múmínmömmu til að renna sér í snjónum. Hann var hvort sem er alltaf hangandi uppá vegg og aldrei notaður.

Heiða sagði...

einmitt!