Margt hefur gerst síðan á fimmtudag. Ég fór með Elvari til pönklæknissins Barböru, en hún er bæði ódýr, og alls fordómalaus um útlit fólks, enda heldég gamall pönkari sjálf. Hún var víst með dreadlokka (eða leiðalokka eins og ég kýs að þýða það), en lét sér nægja að skarta bleiku leðurdressi við annars hefðbundnari hárgreiðslu, þegar okkkur bar að garði. Biðstofan var full af pönkurum af öllum stærðum, gerðum og útgáfum, og kúbuplaggöt, anarkistaráðstefnuplaggöt og annað sniðugt var á veggjunum. Einnig hafði verið spreyað á einn spegilinn á biðstofunni. Elvar fékk pensilín og staðfestingu á að bronkítis væri enn, en nú hefði líka eyrnabólga bæst við. Vonandi víkja bakteríurnar bráðum fyrir lyfjunum.
Melli bauð í súpu, við fórum svo á skemmtilegan bar og sáum "Jean Serene" performa all-glæsilega. Á laugardag var "hjólreiða-vinnustofa" hjá Mella, og mættu Haukur, Verónica, Elvar og égsjálf með biluð hjól til að fá hjálp við að gera við. Allir hjóla glaðir heim, og á morgun ætla ég að gefa skít í lestir og prófa að hjóla upp í Humboldt. Í gærkvöldi fékk ég mér blund, svona seinnipartinn, og það sem er markverðast við það er að mig dreymdi Ringo Starr!!! Þetta er jafnframt í fyrsta skipti sem mig dreymir Bítil og hef ég þó verið aðdáandi lengi. (Elvar hefur víst einu sinni dreymt Lennon, og hann var eitthvað að hanga með mér, takk Elvar!!!)
En Ringo var soldið merkilegur með sig og svona ríkur sérvitringur, sem hann ábyggilega er...en kannski er hann ekki merkilegur með sig, ég náttlega þekki hann ekki í alvörunni, bara draumnum.
Hann lánaði okkur eitt af hljóðverunum sínum, sem var staðsett í svona risaskemmu eða flugskýli sem var búið að breyta í fullt af stúdíóum. Við biðum eftir honum útí horni, og svo kom hann akandi á svaka ferð á einhverjum innanhússhummerjeppa, og stökk úr honum á ferð og stoppaði með fætinum svo innanhússjeppinn snérist einn hring og skransaði áður en hann staðnæmdist. Þá sagði Ringo: "Talking about grand entrance...!"
Ég var doldið fúl hvað hann var eitthvað hallærislegur, en þá bauð hann okkur að fá lánað eitt af stúdíóunum sínum, hann væri sko á leið í kvöldverðarboð, "...but you can use my Hard-Rock-Studio!."
Svo bara vaknaði ég.
Eitt að lokum: Fékk komment um að myndband Heiðingjanna: Can I get your number, hefði verið spilað í hálfleik á körfuboltaleik sem var sýndur á Rúv. Þeir sem vilja berja það augum geta gert það hér:
Can I get your number - myndbandið
Engin ummæli:
Skrifa ummæli