Leita í þessu bloggi

laugardagur, ágúst 07, 2004

Ja mikið svaðalega er orðið langt síðan maður skrifaði. Lífið hefur samt tekið stakkaskiptum á þeim 3 vikum sem liðið hafa á milli blogga. Ég er flutt til Keflavíkur, búin að hreinsa og skila íbúðinni í bænum, og keyri nú á milli vinnu og heimilis út Ágústmánuð. Ég hef svo pantað miða til Berlínar fyrir alla fjölskylduna, og við leggjum í hann þann 10. september. Það er fín dagsetning, á föstudegi, og með smá viðkomu á Kastrup-flugvelli Danaveldis. Jón Geir trommari og kona hans Nanna létu svo vel af aðstöðu fyrir börn á Kastrup að ég hætti að vera hrædd við að vera með Óliver í nokkra klukkutíma að bíða eftir næstu vél. Nú hlakka ég bara til, og ekkert múður. Komutími til Berlínar er svo tæplega ellefu að kveldi, og verð ég að gera einhverjar ráðstafanir til að komast inn í borgina þá. Við þekkjum nokkra Berlínarbúa, og ef einhver þeirra skyldi slysast til að lesa þetta, þá mætti sá hinn sami hafa samband hér: heidingi@hotmail.com. Hef svo verið að garfa í alls kyns málum, sækja um hitt og þetta, námslán og ritgerðafresti og blí blí og bla. Þetta verður að lokum nákvæmlega eins og það á að vera, og ég er að springa ég hlakka svo til. Ætla í bíó á eftir með Írenu, Aþenu og Óliver, svaka stuð að prófa bíó í Keflavík. Það eru einhver ár síðan ég fór síðast á bíó hér. Held bara að ég hafi séð Diddu og dauða köttinn síðast hér. Keflavík er annars bara fín, og aðeins minni vindur en mig minnti. Samt er besta veðrið alltaf í vesturbænum í Reykjavík. Ég skil ekkert í því, það er alltaf logn í vesturbænum....
Markaðurinn í Klink og Bank verður á sínum stað næstu helgi, og ég ætla að reyna að vera báða dagana, þann 14. og 15. ágúst. Komin með fráhvarfseinkenni í að spila óskalög, það er svo frábært að böska svona á kassagítar. Er að spá í að gera það á götum úti í Berlín, fyrir helgarmatnum, af því að LÍN er rekið af púkum Satans, og ætlar að lána mér 40 þús. á mán. til að lifa af í útlöndum.....
Sem betur fer kann ég að syngja og spila, svo ég held að þetta reddist.
En ef ykkur vantar föt, hillur smáhluti, skó, og allskonar, þá komiði í Klink og Bank næstu helgi. Að lokum: Gleðilegt Gaypride

Engin ummæli: