Leita í þessu bloggi

mánudagur, apríl 28, 2014

sumarlenging og fuglasöngur

Núna er klukkan tíu að kvöldi og það er ekki alveg orðið dimmt ennþá. ég er að reyna að bóka flug til amsterdam, óliver var í baði og elvar liggur í sófanum að lesa bók sem er 800 og eitthvað síður og hann er kannski að gefast upp, því síðurnar eru of margar og ekki nógu spennandi setningar á þeim. ég heyri fuglasöng úti. hann er næstum óraunverulegur og mér fannst í smá tíma að það hlyti einhver að vera að spila á flautu eða stæði hérna á gangstéttinni fyrir neðan húsið og flautaði fyrir munni sér. svona eru vorin á íslandi. maður þorir aldrei alveg að trúa því að það sé kannski að koma sumar og veturinn sé liðinn. ekki hægt að treysta því fullkomlega að sólin muni skína og fuglarnir syngja fyrr en það er allt í einu svo mikið af sól og fuglum að maður hreinlega verður að trúa því. þá er yfirleitt kominn júní. svo líða tveir mánuðir í þeirri alsælu sem fylgir íslensku sumri, sól, dagsbirta, fuglasöngur, blóm og býflugnasuð, og þá fer maður allur að slakna og hugsar: "mmm, ísland er alls ekki svo slæmt ég gæti alveg vanist þessu" og þá er það búið. ég þarf að trúa að sumarið sé komið fyrr, því þá fær ég sumarlengingu. þannig að ég trúi að sumarið sé komið...NÚNA. þá fæ ég nokkra daga í apríl, ALLAN maí, júní, júli og smá af ágúst. hafiði það gott og bæ.