Leita í þessu bloggi

sunnudagur, október 31, 2004

finally..segi nú bara ekki annað. Netið er eitthvað óstabílt hér í húsinu og því var það niðri frá föstudegi til núna... fráhvörfin voru meiri en ég hélt, sakna helst að geta ekki skoðað blogg, skrifað blogg og hlustað og horft á RUV á netinu. Dáldið leiðinlegt að fatta að maður er svona húkkt, en á móti kemur reyndar að ég hef ekki horft á sjónvarpið í næstum 2 vikur, nema glefsu úr hinni og þessari teiknimynd með Óliver. Sjónvarpið sjálft er líka komið inní svefnherbergi úr stofunni og því er nú loksins hægt að lesa bækur, læra, og spila á gítar þar án þess að vera fastur í heimi og hljóði teiknimyndanna sem flæða nonstop úr tækinu. Rosalega mikill munur. Elvar færði þetta á laugardag, og íbúðin er hreinlega önnur eftir breytinguna. Gott að liggja í stofunni og lesa með daufa og notarlega birtu og laus við hátíðniískur sjónvarpstækisins í bland við teiknimyndatal á þýsku. Í gær vorum við í matarboði og partýi hjá Sunnu og Jónu. Þær skreyttu allt og tóku hallóvínþema partýsins mjög hátíðlega. Gengu jafnvel svo langt að skýra alla réttina á hlaðborðinu sínu satanískum nöfnum sem voru jafn fráhrindandi og maturinn var í raun ljúffengur. Ekkert nafnanna nógu fagurt til að hafa hér eftir, trust me!
Óliver sagði fyrsta óumbeðna orðið sitt á þýsku í lestinni í gær. Hann hélt á snuddunni sinni og sagði svo: "snudda er snúlla" spekingslegur á svip og stakk henni svo upp í sig. Mikið rétt, orðið yfir snuddu er Snulla, og borið fram með ú-i. Hann er bara að fatta þetta drengurinn. Morgun meiri aðlögun. Annar klukkutími sem hann er einn, og ef í lagi fáum við kannski að prófa að lengja þetta á þriðjudag.
Haukur Már passaði í gær, og var í miklu stuði þegar við komum heim, sagði að Óliver hefði sagst elska sig!!! Það er nú alveg frábært þegar börnin manns eru svona miklir sjarmörar...
Æ núna er ég hætt í bili að skrifa sögur um Óliver. Þarf að elda, þarf að ljúka síðustu síðunum af ritgerð. Þarf að baða mig, þarf að lesa smá.
Fórum í Mauer Park garðinn á markaðinn þar í dag. Ég og Óliver og Steffen hinn þýski og þar hittum við SunnJón og ég reyndi að böska. Gekk ekki vel þar sem Óliver stöðvaði mig með óskum um að vilja pissa og sjá hundinn og fá húfu og hlaupa í grasinu og s.frv. Held ég geri aðra atlögu þegar ég er ein, virkar betur...
Bless for ná

fimmtudagur, október 28, 2004

einhver karsten hringdi og bauð mér að spila á tónleikum þarnæstu helgi!!! Vinur hans (sem ég kannast ekkert við), sagði honum að reyna að fá mig til að spila...hann á vin sem vissi að einhver stelpa sem spilar á gítar og syngur og væri frá Íslandi væri flutt til Berlínar...takk fyrir. Afskaplega fyndið og skemmtilegt. Ég semsagt á að mæta þarnæsta laugardag með kassagítarinn og taka tvö lög til prufu, og ef honum finnst ég skemmtileg þá fæ ég gigg mánuði síðar. Hann er með svona singer/songwriter-kvöld fyrsta laugardag í hverjum mánuði, 3 manneskjur hvert kvöld. Égskalnúsegj'ykkur það, og hef hér með gert það. 3 nýjir linkar: sönní (berlínarskutla), djonní (berlínarbeib), og rjúpan!!! Komdu sæl litla rjúpa.
Mig dreymir um að eiga pening fyrir myndavél. Langar í ódýra eldgamla gamaldags myndavél á klink, og svo líka aðra sem er svona digital og hægt að láta myndir úr henni yfir á netið. Í tilefni af þessum draumum náði ég í myndaalbúm og setti eina sæta mynd af mér þar inn. Er ekki frá því að það sé best að byrja svona. Nú er kominn farvegur fyrir allar fallegu myndirnar sem ég ætla að taka, og því verður örugglega til peningur í afgang í næsta mánuði til að kaupa myndavél. Ódýrasta sem ég hef séð er á 59 evrur, en hún er digital með áræðanlega bara eins fáum pixlum í upplausn og hægt er (tveimur...), og svo er heldur ekkert gat sem hægt er að gægjast inní þegar maður er að taka myndina. Mér finnst það nú galli, sko. Er ekki vön því að horfa á skjá til að ákveða myndramma, og svo er maður ábyggilega svo skjálfhentur þegar maður getur ekki stutt vélina við kinnar og enni og svona...kannski venst þetta samt. En fyrir tæpar 80 evrur get ég fengið eina sem er líka með gægjugati. Svo fann ég myndavél á markaði frá DDR, með bæklingi og tösku og notast við 35 mm. filmur, og er með svona handstýrðum fókus og stilla ljósopstíma o.s.frv. Og hún kostaði 35 evrur!!! Eitthvað er nú samt erfiðara að hlaða þeim myndum inn á tölvuna sína. Dagdraumar mínir hljóða upp á eina af hvorri týpu, og svo get ég aldeilis byrjað að dokkjúmenta þessa stórkostlegu borg sem ég bý í. En fyrst...sofa smá. Ég er ferleg kl. hálffjegur að nóttu, allir sofandi og ég með galopin og glaðvakandi augu. Þannig er að ég dottaði sko í tæpan klukkutíma yfir gamalli vondri jackie chan-mynd, í kungfu-þemanu sem var á einni stöðinni hér. Vaknaði svo og horfði með öðru heilahvelinu á fræðslu um hvernig kungfu-myndir eru kóríógraffaðar og skoðaði ljósmyndasíður á netinu með hinu. Vakandi. vahahahahahahakandihhhhh!

þriðjudagur, október 26, 2004

Ég komst að því að ég er geimvera í dag. Málið er að mér finnst ég ekki vera beint stelpa, jú ég er náttúrulega stelpa eða kvenkyns, en ég er ekkert stelpuleg. Og ég er ekki strákur heldur. Ekki er ég lessa því ég er skotin í strák, og hommi er ég ekki því þeir eru einmitt margir hverjir að gera svoldið í því að verea kvenlegir. Ég er utan flokka, einhvernvegin. Hef alltaf verið það. Veit ekki af hverju. Fór að hugsa um þetta í einum fyrirlestrinum í dag, þegar ég skildi ósköp lítið og datt aðeins út. Man á táningsárum mínum hvað mér fannst alltaf merkilegt hvað stelpuvinir mínir höfðu eitthvað lítið fyrir því að vera heillandi með voða stelpulegt hár, og áttu svo svona týpísk stelpuherbergi, og lágu þar í stelpurúmunum sínum og töluðu stelpulega í símann og hlógu stelpuhlátrum....Ég veit bara ekki afhverju ég er ekki svoleiðis. Mála mig alveg stundum, en ég verð ekkert endilega stelpulegri þegar ég mála mig. Bara geimverulegri....Allt mjög skrýtnar pælingar. Svo bonda ég ekkert svo vel með týpískum stelpulegum stelpum, líklega aðeins betur með týpískum strákum. Bonda samt held ég best með unglingsstrákum...Kannski er ég bara unglingsstrákur, fastur í ungkonulíkama. Svei mér þá, er ekki til félag annarra ungkvenna sem eru unglingsstrákar? Bannað að hlægja, og endilega látið mig vita ef þið skiljið, eða hafið ráð

mánudagur, október 25, 2004

Alveg hreint ágætt að vera skólastúlka, er djö...er ég farin að sakna þess að rokka maður. Eða bara spila á tónleikum hvað svo sem það væri. Verð nú að taka rusk í að skipuleggja spilamennsku á götum úti. Við höfum bara þurft að hafa okkur öll við að ná pappírsflóði, og að díla við veikindin í fjölskyldunni, og ekki gefist tími í neitt svona extra. En pappírsflóð að klárast, og veikindi ei meir svo ég ætti nú að kýla á böskerí á föstudaginn. Þarf hreinlega að undirbúa mig líkamlega í vikunni, þar sem neglur vinstri handar eru í fyrsta skipti í mörg ár sjáanlegar (þá meina ég það er nokkurra millimetra hvít rönd, ekki klippt knallstutt), og svo er siggið eitthvað aðeins að fara....uss uss uss. Þetta er náttúrulega lélegt. Bara set mér það takmark að spila í hálftíma hvern dag til föstudags, þá er það komið. Annars var ég aðeins að spila í þarsíðustu viku, og samdi meðal annars stórfínt og skemmtilegt popplag. Þá eru 3 lög komin í heiminn á þessum tæpl. 7 vikum í Berlín. Í þau fáu skipti sem ég hef gripið í gítarinn hefur bara alltaf eitthvað frábært komið. Góður sköpunarkraftur hér, það er alveg greinilegt. Ég er líka næstum búin með ritgerðina, svona 2 bls. eftir eða eitthvað. Aðeins að púsla endann, og gera heimildaskrá. Það er ljúft, held ég fari samt snemma að sofa og vakni fyrir allar aldir og þambi kaffi, og klári þetta þá. Ég nebblega tók hina aðferðina í gær. Fór um kvöld á kaffihús og sat og þambaði kaffi og lærði, og þá gat ég ekki sofnað fyrr en um 3-leytið, og vaknaði við að moskítófluga sem ýlfraði í myrkrinu kl. 5 var að reyna að drekka úr mér blóðið. Ég er afar óhrifin af þessum flugum, síðan ég bjó í Marseille, og þróaði með mér ofnæmi fyrir þeim, vegna gífurlegs fjölda bita sem ég fékk. Elvar heldur samt að þetta hafi bara verið ávaxtafluga að syngja, en ekki moskító, en það hefur verið svo hlýtt í nokkra daga, að hvað veit maður. Allavega ég vakti þar til hún var örugglega farin burt, því ég vildi ekki að hún biti mig, þá hefði ég bólgnað út og tvöfaldast. Datt út af fyrir 6, vaknaði kl. 8:00 M y g l u ð... góður dagur samt, sko!

sunnudagur, október 24, 2004

ég og óliver fórum í partýið í gær, stórfínt, og hann t.d. hámaði í sig harðfisk, og svo prófaði hann hjólabretti og er búinn að ákveða að hann vilji þetta og ekkert annað. Svo var bara um 16 stiga hiti og logn þegar við vorum að rölta heim upp úr hálf ellefu um kvöldið. Útlandaveður í útlandinu. Ég klippti líka Elvar í gær, og fékk pöntun áðan frá Hrafnkeli um að klippa hann líka, og hann ætlar að lána okkur plötuspilara í staðinn. Skólinn byrjar á morgun, og í tilefni af því ætla ég nú að reyna að ljúka ritgerðinni í kvöld. Þá er ég nefnilega að fara að læra eitthvað nýtt, og eins gott að hætta að hugsa um Descartes á meðan. Er á leiðinni út á kaffihús til að klára dæmið. Það verður súper. Skóliskóliskóli...jibbískibbídú

laugardagur, október 23, 2004

ævintýralegt og skemmtilegt líf. Allt í einu er allt fullt af skemmtilegu íslensku fólki sem heimtar að bjóða okkur í mat. Haukur og Stefán buðu okkur í pítsu í gær og þar sem endranær gerði Óliver stormandi lukku, og vorum við í marga klukkutíma í spjalli og stemmingu. Erik samheimspeki- og erasmusnemi ætlar svo að halda partý með íslensku þema í kvöld. Hann var að flytja í nýja íbúð, og að því tilefni býður hann erlendum vinum upp á "ógeðslegan íslenskan mat", og sýður líka pasta til öryggis. Þessi ógeðslegi matur samanstendur af hákarli, sviðasultu harðfiski og lifrarpylsu og blóðmör, og brennivín er drukkið með. Nokkrir íslendingar fá líka að mæta, og taka út viðbrögðin hjá erlendu tilraunadýrunum. Nema ég ætla að sjálfsögðu að borða smá hákarl, enda geri ég ráð fyrir því að af honum verði afgangur...ég og Óliver fílum hákarl. Svo kom Hrafnkell í heimsókn í dag, og er verið að plana ferð á útimarkað á morgun. Ég læri svo aðeins með hléum og svo er helgin búin. Mánudagur ber í skauti sér nýtt upphaf á aðlögun sonarins í leikskólann sinn, og svo hefst kennslan í skólanum okkar líka. Ekki seinna vænna, allir löngu tilbúnir að læra spá. Vikan verður góð, en helgin núna er það nú líka. Sjáumst!

fimmtudagur, október 21, 2004

Sól í Berlín, og fyrsti skóladagurinn upprunninn. Fór í Humboldt í Trúarheimspeki Schelling í morgun kl. 8, og við það eitt að stíga inn í bygginguna helltist einskær gleði yfir mig. Fann herbergi 241 á löngum austurþýskum gráum gangi sem ég sver að mig hefur bara dreymt eða eitthvað. Hann er allavega nákvæmlega eins og ég ímyndaði mér að skóli í Berlín ætti að vera. Technishe Universitat er eitthvað svo hannaður og stór og undarlegt andrúmsloft. Þessi bygging Humboldt er hins vegar eins og fangelsi, á mjög skemmtilegan og sjarmerandi og hráan hátt. Þetta var svona heimspekilegt fangelsi: Fjötraðu líkamann og frelsaðu sálina!!! Allavega, ég flaug út, og þá bara komin glampandi sól og hlýtt veður. Nú þarf ég að hvíla mig aðeins áður en ég hefst handa við að finna Freie Universitat, en hann er víst í um klukkustundar fjalægð eða eitthvað með lest, og þar er fyrirlestur um inngang að trúarheimspeki á 20. öld milli 4 og 6 í dag. Ég er dugleg...
Svo fann ég Sonic Youth lagið sem ég hef verið með á heilanum í sirka 2 mánuði: Það er á plötunni Dirty og heitir Purr.
Og ég komst að því að heimspeki er náttúrulega bara pönk, ekkert annað. Maður lærir að brjóta reglurnar því annars gerist ekkert!!!

þriðjudagur, október 19, 2004

...og þetta er einfaldlega skemmtilegasta dægradvöl sem völ er á!!! (sá'etta hjá drekabetu, takk!)
Heyja..
er komin með skírteini sem veitir mér þann unað að borga ekki í nein samgöngutæki þar til í marslok 2005. Þá verð ég að borga fyrir sumarönnina í T.U. , og endurnýja unaðinn. Digital-myndataka var ókeypis og fékk maður bréf með "kóda" (eða strikamerki þ.e.a.s.) sem maður setti á þar til gerðan skanna á ljósmyndakassa og svo fékk maður 2 tilraunir til að vera sætur. Fyrri tilraun: sást ekki í andlitið á mér, bara höku og niðrúr...Ókey reynum bara aftur...Flott nú vantaði bara ofan á hausinn frá enninu og upp...verður að duga, því ekki fékk ég að prufa aftur að vera sætari. Svo sendist þessi mynd inn á kortaframleiðsluskrifstofuna og ég hljóp þangað og náði inn 2 mín. áður en lokaði. Maðurinn í afgreiðslunni var mjög almennilegur og kurteis þegar hann sagði mér að það vantaði eitthvað í hausinn á mér/af hausnum á mér. Jú, ég gekkst við því og spurði hvort það væri ekki bara persónulegra þannig. Þá hló hann og afhenti mér skilríkið. Til hamingju!
Ég er semsagt að læra að vera fyndin á þýsku...djöfull er það gaman, maður.

mánudagur, október 18, 2004

Úff, ævintýri næturinnar voru frekar átakanleg. Herra Óliver Elvarsson vaknaði um hálf-tvöleytið með blæðandi boxaramunn, og sjónin var svo átakanleg að ég hringdi beint í grei-mömmu og hræddi hana áræðanlega...fyrirgefðu! :-) En hann fékk mjólk að súpa og sofnaði strax aftur sem betur fer. Í dag lítur hann út eins og handboltamaður með í vörinni, og talar eins og Bubbi Morthens...Læknirinn sem við hittum áðan sagði að hann gæti smitað út vikuna, og því megum við ekki fara aftur með hann í leikskólann fyrr en næsta mánudag. Úúúff, segi ég enn og aftur. Það er ekkert vííííí að vera með vírus, greinilega. Svaf svo ekki nema 5 tíma, því ég var svo glaðvakandi eftir að hafa séð barnið alblóðugt, að adrenalínið flæddi um líkamann og blóðið mitt þaut á 200 km. hraða. Náði ekki að róa mig fyrr en um hálf-fjegur í nótt, þá hafði ég lesið Cartoons in der DDR í soldinn tíma. Frábærar myndasögur, allar alveg stútfullar af einhverju sem mátti ekki segja, skrifa né hugsa í gamla Austur-Þýskalandi.Mjög róttækt og skemmtilegar ádeilur. Elska bókasafnið...greinilegt að sumt er eins hvar sem maður býr. Alltaf gaman að lesa góðar bækur, allsstaðar!!!!
(jógúrt dagsins: með bragði af grænum eplum og lime....nokkuð gott)

laugardagur, október 16, 2004

er að borða enn eitt undursamlegt jógúrt með framandi bragði, hér í hinni ágætu borg berlín. Í dag er ég að smakka jógúrt með ananas og vatnsmelónubragði! Af hverju hefur enginn á Íslandi í jógúrtbransanum hugmyndaflug í svona nokkuð? Ég íhuga að safna miklum heimildum um góðar bragðtegundir jógúrta, og leggja á mig heilmikla rannsóknarvinnu meðan á dvöl minni stendur, og sækja svo um stöðu á hugmynda-og bragðþróunarskrifstofu M.S. Þar vantar greinilega nýtt og ferskt hugmyndaflug. Barnið okkar enn veikt, komin tæp vika. Læknisskoðun í gær leiddi í ljós að hann væri með herpesvírussýkingu, allur í sárum kring um munn, og bólgnar varir. Elvari fannst hann líta út eins og leikkona með misheppnaðar sílikonvarir! Nú er bara spurning hvort þetta er smitandi, og hvort öll fjölskyldan verður með leikkonuvarir í næstu viku? En þeir sem vit hafa á (mamma...kannski þú) gætu nú kommentað, og frætt mig um smithættu herpesvírussýkinga, og hvort ráðlegt er t.d. að fara í barnaafmæli á morgun, sem okkur er boðið í. Klara býður okkur í afmæli, sem hún er að halda upp á aðeins of seint, en hún er fædd 21. september 2001...alveg eins og Óliver!

fimmtudagur, október 14, 2004

Það er eitthvað undarlegt við að ferðast um með neðanjarðarlestum. Maður er rétthjá fullt af fólki, en eins langt frá því og hugsast getur. Allir að passa sig að rekast ekki í, að sýna ekki of mikil svipbrigði, og að halda einhvernvegin "grímunni" sinni. Ekkert ósvipað og tannlæknastofufílingur, en alltaf einn og einn sem brýtur þetta upp. Ég headbanga stundum við viðeigandi tónlist í ferðaspilaranum, bara aðeins smá, og finnst ekkert mál að verða fyrir augngotum fyrir vikið. Sáum stúlku bresta í grát um daginn, bara upp úr þurru. Hún fór út á næstu stöð, meikaði þetta ekki. En í dag voru 4 litlir strákar á aldrinum 7-12 einir í lestinni. Þeir voru kannski bræður, kannski vinir, en allavega í ofsa stuði og með geðveikt mikla orku. Hoppuðu út um allt og sveifluðu sér í stöngunum. Létu vægast sagt öllum illum látum, og allt í góðu. Hoppuðu úr tómu sæti niður á gólf meðan lestin var á hreyfingu. Fóru næstum yfir strikið en voru greinilega öllu vanir, svo þessi minnsti lét mikið yfir sig ganga og svaraði bara í sömu mynt, og fór ekkert að skæla eða neitt þegar einn stal af honum öðrum skónum. Ég var að hlusta á Singapore Sling, nýja diskinn, og þetta var bara frábær skreyting við það, og ekkert að bögga mig nema síður væri. Ung kona á móti mér var greinilega á sama máli og ég, og brosti bara og hristi hausinn,...þessir litlu krakkar eru nú alveg ótrúlega sæt og orkumikil. En konan við hliðina á mér stóð upp og fór, eftir að hafa skammað strákana fyrir læti. Hvað er eiginlega málið? Hún hefur líklega ekki hlegið upphátt í fjöldamörg ár, og kann ekki að vera afslöppuð gangvart því að fólk bara sleppi sér aðeins. Börn eru svo góð í að sleppa sér, ekki enn búið að skilyrða þau til að vera alltaf yfirveguð og róleg. Ég meina, hvað er eiginlega eftir ef það má ekki hafa smá fjör þegar maður vill? Eitt af því fáa sem þjóðfélögum heims hefur ekki enn tekist að skattleggja. Stöndum saman, og búum til meira fjör og læti! Við megum það alveg!

miðvikudagur, október 13, 2004

ví o li i jellosoboris hljómar hér um íbúðina, og líka ó-geðná, en þessi lög er bæði að finna í Gula Kafbátnum, og pilturinn og sjónvarpssjúklingurinn Óliver er með textana á hreinu. Hann er lasinn bæðevei, svo engin aðlögun í nýjaleikskólanum í gangi. Bara teiknimyndir allan daginn. En greyið er með hita og beinverki og svaka lítill í sér. Byrjaði uppúr hádegi á mánudag, og nú eru því bráðum komnir 2 sólarhringar. Þurfum að láta lækni kíkja á hann, hann er hundveikur litla skinnið. Ég ætla að labba við hjá lækni sem er hér handan við hornið og skoða hvort hann geti komið í vitjanir eða hvort við þurfum bara að mæta með hann eða hvað? Svo er það eilífðarverkefnið RITGERÐ. Það fyndna við þetta er að ég er alltaf í stuði til að læra og skrifa og klára þetta á daginn, en undantekningalaust er eitthvað sem þarf að gera,...(þvo, kaupa inn, stofna bankareikn, finna lækni..), og svo þegar kvöldið kemur þá er ég svo þreytt eftir allt stússið og reddingarnar og lestarferðir og labb að ég hef enga læruorku eftir. Skrifa ritgerðarleysi (á samt bara 6 bls. eftir) á þetta og ekki á mig! hehehe

þriðjudagur, október 12, 2004

Er eitthvað slöpp við að halda vaknámorgnanna sofna miðnætti rútínu. Fékk mér bókasafnsskírteini hér í Berlín og tók fullt af teiknimyndasögum fyrir fjölskylduna, og er nú búin að lesa Bláa Lótusinn og 2 Ástrík-bækur, og glugga í Teiknimyndir frá DDR. ALLT Á ÞÝSKU!!! Þetta er náttúrulega frábær aðferð til þýskunáms, og aldeilis yndælt þegar ég get ekki sofnað á kvöldin/nóttunni. Ástríkur og ég vorum vakandi til 3 í nótt, og það var nokkuð fínt. Óliver lasinn, fór ekki í nýja leikskólann í dag, þri. Það verður bara að hafa það, þótt aðlögunin klippist í sundur. Stofnaði bankareikning í gær. Það þarf 9 undirskriftir til að fá bankareikning... veit ekkert hvað ég var að skrifa undir. Líklega víxla fyrir bankastarfsmanninn sem var svo nýbyrjaður að vinna úti, að hann býr líklega ennþá hjá foreldrunum sínum, og talar engin tungumál nema þýsku, og þekkir ekkert sína eigin borg. Þurfti að spurja mig í hvaða hverfi ég byggi út frá póstnúmerinu... en meira að segja ég er búin að læra að öll póstföng sem byrja á 104 eru Prenzlauer, 101 Mitte...og s. framv. Gaurinn var 18 ára ég sver það...Og skíthræddur við að slá eitthvað vitlaust inn í tölvuna sína, og klúðra pappírsflæðinu. Æj, þetta pappírsflóð er nú bara fyndið. Er á leið út að læra. Vonandi kemur eitthvað skemmtilegt og óvænt fyrir.
Nýr linkur: Drekabeta

mánudagur, október 11, 2004

Gunnar litli Hjálmarsson toppar sjálfan sig í hressleika í nýjustu skrifum sínum á bloggi. Mjög upplífgandi og kátínuvekjandi og því vel við hæfi að mæla með því á hér á skemmtilegt.

sunnudagur, október 10, 2004

Í dag er góður sunnudagur. Viðburðaríki gærdagsins var með ólíkindum. Fórum aðeins út að labba eftir að hafa haft það náðugt við lestur bóka, og teikningu mynda og áhorf teiknimynda. Gengum í góða veðrinu niður á Rosenthaler Platz, þar sem við keyptum smá franskar og eitthvað nasl, svo fórum við í gamaldags-analog- svarthvítan ljósmyndakassa sem þar hefur verið komið fyrir. Fyrst fór öll fjölskyldan, og kámugt tómatsósuandlit Ólivers nýtur sín mjög vel í svart/hvítu. Svo voru teknar árvissu kærustuparsmyndirnar, og ég verð að segja að við verðum bara sætari og sætari, hlýtur að vera þýska mataræðið... Svo var ferðinni heitið í innflutningspartý hjá Eirúnu og Magga, á Torstrasse, en þaðan fórum við heim um 10. Þá komu Andrés og Rúna og fengu að passa fyrir okkur. Við Elvar, ásamt Sunnu og Jónu fórum hins vegar á langþráðan, velumtalaðan og stórfínan goth-stað sem er hér í nágrenninu. Hann stóðst allar væntingar og gott betur, og er nú minni nýji uppáhaldsstaður. Að lokum löbbuðum við aðeins meira um og enduðum kvöldið á því að borða vel útilátið og gómsætt kebab. Gaman og skemmtilegt og þökkum við Andrési og Rúnu kærlega fyrir

föstudagur, október 08, 2004

fimmtudagur, október 07, 2004

þá er kominn sjöundi, og við erum ánægð með það. Einhverntíma um þessar mundir eru komin 5 ár síðan ég og Elvar urðum kærustupar, og það hefur svo sannarlega margt gerst á þeim árum. Við þurfum að finna ljósmyndakassa til að taka mynd, því við höfum gert það á hverju ári, og eigum því passamynd af okkur frá þessum tíma árs frá öllum árunum. Fjórar myndir til, sú fimmta á leiðinni. Tek yfirleitt ekki mikið af myndum því ég á ekki myndavél, en þessar myndir skipta máli. Ætla reyndar að skoða hvort ég geti ekki fundið ódýra digitalmyndavél, því mig langar til að festa á pixla það sem fyrir augu ber hér í Berlín. Það er svo margt sem væri gaman að eiga í framtíðinni, til minja um dvölina hér.
Prófuðum að borða á veitingastað frá Sri Lanka í gærkvöldi. Listastúlkurnar Sunna og Jóna og verkamaðurinn Elías snæddu með kjarnafjölskyldunni og voru allir sáttir með Sri Lanka. Þar smakkaði ég eðal indverskan bjór sem heitir Cobra, og svo fékk ég mér Lychee-mjólkurhristing í eftirmat. Aðalréttur var úr bananafjölskyldunni, ristaður á pönnu með rauðum kókos og grænmeti og karrýgumsi.... mjög spennandi matur og verulega ,,losandi".

miðvikudagur, október 06, 2004

...síðan gerðist það að ég fann kaffihús sem var líka þvottahús. Hvílík snilld. Drakk latté, þvoði og þurrkaði, las Descartes, og ætla nú að massa ritgerð næstu daga. En ég samdi líka ljóð á kaffihúsinu, og er að safna í ljóðabók, sem ég auglýsi hér með eftir útgefanda að. Afar gott stöff sko. Elvar og Óliver komu og hittu mig með hreina þvottinn og hreinu samviskuna (búin að þvo og læra í dag). Við fundum Sushi-stað sem heitir að mig minnir Risen-kugel (eða eitthvað í líkingu við þetta, og þýðir væntanlega hrísgrjónakúla). Frábær matur, og Óliver borðaði misósúpu með bestu lyst. Fúlsaði reyndar við sjálfu sushi-inu, en það er nú líka ,aquired taste", sem þriggj'ára er ekki alveg búinn að stilla sig inná!

þriðjudagur, október 05, 2004

kynntumst danskri stúlku, Dorte. Kaffihús, smá hangs. Finnst gott að gera eitthvað með einhverjum sem tilheyrir ekki fjölskyldunni. Nú er hvíldartími hjá feðgum, ég ætla að þvo þvott og læra Descartes. Pósthús líka, smá dund sona. Gott veður. Sól og hiti. Kannski kaupi ég ís...Uppáhaldsbragð: Pistasíuhnetu...MMMMMM

mánudagur, október 04, 2004

í dag, mánudag, var sem minnst gert. Ætluðum að skrá okkur í skólann en vorum svo lengi að koma okkur af stað með ýmsum töfum, eins og að klára teiknimyndina sem var í sjónvarpinu, og brjóta kaffikönnuna svo hella varð upp á annað kaffi í esspressóvélinni, að við komum kl 12:37 upp í háskóla, 7 mínútum eftir að allt lokaði!!!! Svo fundum við engann banka sem var ekki bara hraðbankakassar og því fór út í veður og vind (sem var reyndar gott í dag) að reyna að stofna bankareykning. Svo toppaði ég tilgangsleysið og athafna/framkvæmdaleysið með því að fá mér margumtalaðan frappuchino á Starbucks, og hann fór eitthvað svo illa í mig að ég bara varð hálf veik. Hvað er eiginlega gott við sykurleðju og gerfirjóma með kaffibragði, og svo var þetta svo íssssskalt að mér leið eins og ég væri bara veik. Flökurt og þreytt og orkulaus. Drifum okkur því bara heim og lögðum okkur, og því eru endalaust mörg verkefni dagsins í dag komin yfir á daginn á morgunn. Banki: stofna reikning, Pósthús: áframsenda til Davíðs, Skóli: skrá okkur, Leikskólaskrifstofa: fara með síðustu pappíra.
Já, eitt gott sem gerðist á sunnudagskvöld: Horfðum á School of Rock. Hún er sjúklega góð!! Besta mynd sem ég hef séð lengi, lengi lengi, lengi lengi lengi! Lengi. Kannski verður maður að vera rokkari samt til að fíla hana. Veit ekki. Eða barn í anda. Eða rokkari sem er barn í anda!!!!!!!! En ég er það einmitt, svo þetta er mín uppáhaldsmynd núna. Best að horfa á hana aftur áður en ég þarf að skila. Rétt upp hend sem hefur séð hana...

sunnudagur, október 03, 2004

erum á leið á markað rétt hjá. stopp í bakaríi og eitthvað labb og svona. Annars gæti allt verið brjálað í mótmælagöngum, var ég að frétta, og því ekki víst með markaði í dag. En látum reyna á það. Verið að mótmæla breytingum á félagslegukerfi, til hins verra. Þetta er þjóð sem lætur heyra í sér ef þeim líkar ekki breytingar til hins verra.....Til athugunar hjá íslendingum sem eru ætíð að láta draga sig nær og nær þriðjaríkis-ástandi...

laugardagur, október 02, 2004

Er alveg að fara að sofa en ákv. að segja ykkur fyrst frá því ógeðslega skemmtilega sem ég gerði á fimmtudagskvöld. Ég hafði lengi ætlað að prufa sundlaug í berlín, en hún er smá spöl frá heimilinu, svo ég skellti mér bara í gufubað til að reyna að ná úr mér veikindum. Er alltaf orðin viðþolslaus á öðrum degi veikinda. Vissi um gufubað á Rykestrasse, sem er í 5 min. göngufæri, og fann númer þeirra á netinu og hringdi svona til að tékka á verði, opnun og hvað ég þyrfti að taka með. Afar almennilegu piltur svaraði mér, jú það er opið til miðnættis. já það eru 6 evrur fyrir klukkustund, en dýrara ef þú kemur ekki með handklæði. Nei, þú mátt alls ekki koma með sundföt með þér, þetta er nefnilega allsber gufa!!! Noh, þaðernebblegaþað. Ég er nú ekkert allt of spéhrædd, hef meira að segja farið einu sinni í sturtu fyrir bæði kynin (í Kristianiu árið 1995, Valgeir þorði ekki, svo hann beið fyrir utan...hahah), þannig að ég skellti mér bara. Allt til að reka burtu illa sýkla. Í gufubaðinu fékk ég einn sýnirúnt, því svo þurfti ég að fjarlægja gleraugun og með því sjónina líka. Þarna er allt sameiginlegt: Einn búningsklefi, 2 sameiginlegir sturtuklefar, og 3 gufuböð. Einn 60 gráðu eucalyptus-gufuklefi, 85-gráðu gufa, og loks finnskt gufuhús sem er kynnt upp í lágmark 100 gráður. Það er úti í afmörkuðum og lokuðum bakgarði, og fullt af bekkjum og stólum og einni vaðlaug o.s.frv. Svo er einn kaldi pottur (að finnskum sið líka). Mér fannst nú soldið skrýtið að klæða mig úr, og fór nú á nærbuxunum inn á klósett, fór þar úr restinni af fötunum og vafði mig stóru handklæði. Svo kom að sturtunni og þá var ekki aftur snúið. Ég lemti strax í sturtu milli tveggja karlmanna, og svo bara rúllaði boltinn áfram. Gufurnar voru stórfínar, og er ég hálf fegin að hafa verið gleraugnalaus því þá veit ég minna um hvort einhver var að horfa á mig eða ekki. En eftir smá tíma vandist þetta afskaplega vel, og ég var alveg sallaróleg að tína á mig spjarirnar á leiðinni upp. Ég gaf mér líka tíma til að fara á barinn og valdi mér þar epla/kirsuberjasafablöndu. En þar var hægt að fá um 20 mismunandi ávaxtasafa, og einnig bjór og vatn. Mjög merkileg reynsla, og ég held ég fari barasta aftur. Kannski ég noti linsurnar í næsta skipti....