Leita í þessu bloggi

þriðjudagur, nóvember 29, 2005

næsta þema næturvarðarins er ákveðið: mótorhjól, og í neyð ef ekki finnast næg mótorhjólalög, þá hjólalög....

mánudagur, nóvember 28, 2005

DÍSSSES hvað það er mikið myrkur þegar klukkan er sjö á morgnanna á veturna. Það er þykkt og svart. Mér fannst eins og það væri teppi úti í stað lofts. Svört bómull kannski. Allavega alltof alltof dimmt. Það ætti að banna fólki að vinna fyrir klukkan 11 á morgnana í desember og janúar. Það væru sektir og allt. Gjöra svo vel að sofa til 10, annars áttu yfir höfði þér fjársektir og jafnvel fangelsi. Þegar ég kemst til valda mun sko margt breytast...

fimmtudagur, nóvember 24, 2005

það undarlega kom fyrir mig meðan ég var að borða hitt og þetta af salatbarnum í hádegismat áðan að mér fannst rakettubragð af einum réttinum og minnti þessi reynsla mín mig á áramótin. Hver laumaði LSD í morgunkaffið mitt?

mánudagur, nóvember 21, 2005

mér er illt í maganum...

sunnudagur, nóvember 20, 2005

Það er vanmetið að gera ekkert, og því hef ég reynt að gera eins mikið af því og ég get um helgina. Helsti klæðnaður helgarinnar voru svo náttföt, helsta fæðan nammi og kökur, og svo voru tölvuleikir og sjónvarpsgláp meðalo þeirrar tómstundariðju sem helst var iðkuð. Niðurstaða helgarinnar: Smákökur eru bestar heimabakaðar, írar kunna að gera gott konfekt og viskí og breskir sjónvarpsþættir eru langfyndnastir. Nú ætla ég í astrixtölvuleik og að borða meiri smákökur og drekka celebes-kaffi og vera áfram í náttfötunum í smátíma í viðbót.....

föstudagur, nóvember 18, 2005

Ég ákvað að láta bara verða af þessu helgarfríi sem ég var að láta mig dreyma um, og tek því Næturvörðinn upp fyrir laugardaginn. Þemað er fyrirgefningar,(sorry,excuse me, afsakið, fyrirgefðu...)og ég er langt komin með hann. Það verður yndislegt að fá frí ALLAN laugardag og ALLAN sunnudag, í stað þess venjulega. Fyrsta heila helgarfríið mitt síðan í júlí. Þetta er bilun, en svona geta nú tarnirnar verið. Ég borga þá allavega skuldirnar aðeins niður.Bæó
Heiða

sunnudagur, nóvember 13, 2005

léttur þáttur gekk vel, mér fannst gaman að spila léttur í lundu með pónik og einari. viðlagið er nefnilega: gaman er að kom'í keflavík, kvöldin þar þau eru engu lík, og þá fór ég að sakna keflavíkur. langar að fara þangað og vera í smá tjilli. ég hef ekki fengið helgarfrí í heila helgi síðan í júlí, pæliði í því. tók mér frí á laugardaginn á airwaves, en þá var ég að skrifa um hátíðina og því á þeytingi milli allra staðanna og ekki mikið tjill í gangi. 4 og hálfur mánuður sem ég hef bara verið í fríi á sunnudögunum....Það fer nú kannski að koma að því að maður taki einn laugardagsþátt upp hmmmm...bara til að slaka á hreinlega, og gera ekkert.Lesa bækur mmmm, horfa á góða bíómynd, helst spennumynd, kveikja á kertum og vera undir teppi að ráða krossgátu, eða sudoku, leggja kapal...fara í yatzy eða tíuþúsund. allt hljómar þetta unaðslega akkúrat núna. ég verð að ná einni svona helgi í nóvember, það myndi líklega minnka aðeins streytuna. Annars heyri ég í veðrinu slá útvarpshúsið að utan, og best ég drífi mig þá heim að lúlla. vonandi fer bíllinn minn í gang án þess að ég þurfi að slá í startarann. hann er nú búinn að vera mjög stilltur í 3 daga, og ekkert þurft að lemja í hann. kannski er hann búinn að taka okkur, nýju eigendur sína, í sátt loksins, og sér að við erum gott fólk og því í lagi að fara bara möglulaust af stað þegar lyklinum er snúið. góða nótt.

miðvikudagur, nóvember 09, 2005

ó nei, gunni kítlaði mig, og það þýðir að ég á að koma með lista yfir 5 hluti sem fara í taugarnar á mér eða bögga mig:

1) Kuldi fer í taugarnar á mér. Ég er algjör kuldaskræfa, er fyrst manna til að viðurkenna það. Ég er yfirleitt í 3 peysum og yfirhöfn á veturna á Íslandi, en á móti kemur að ég fúnkera vel þótt yfir 30 stiga hiti sé úti. 30-35 er mitt draumahitastig.

2) Það er böggandi að geta ekki farið ferða sinna um allt á hjóli svo auðvelt sé. Það sárvantar betri hjólastíga út um alla Reykjavík, svo hægt sé að nota hjólið sitt sem samgöngutæki.

3) Það er mjög pirrandi að vera svona háður kaffi til að komast í gang á morgnanna. Hef oft óskað þess að ég gæti glaðvaknað fyrirhafnarlítið eins og margar A-manneskjur sem ég þekki. Ég er mjög þung í gang á morgnanna.

4) Hraðinn í þjóðfélaginu sem við lifum í er böggandi. Velti því oft fyrir mér hvort ekki væri betra að búa annars staðar en í Reykjavík, því stressið er svo mikið.

5) Ég verð að segja að það fer í taugarnar á mér að ekki sé hægt að fá ferskjur með hvítu kjöti hér á landi. Weissfleichige Pfirsche er eitthvað sem ég vandi mig á í Þýskalandi, og ég sker þær niður ásamt svörtum vínberjum og ferskum apríkósum (sem einnig er erfitt, en þó ekki ómögulegt að fá hér) og læt út í jógúrt án bragðefna. Þetta er besti morgunmatur í heimi og það böggar mig hræðilega að nú eru komnir 5 mánuðir síðan ég fékk svona síðast.

ég kítla nú Sif Ingvarfyndna HerraT Rjúpuna og Guffa

þriðjudagur, nóvember 08, 2005

gott ráð til að borða milky way: skilja það eftir á borði, og leggja svo heita og notarlega kjöltutölvuna sína ofaná það. Best er að hafa það í umbúðunum þegar þetta er gert því annars gæti farið illa. Eftir um 5 mínútur er Milkyway-ið bráðið og gott og þá er það kreist upp í sig. Þema laugardagsins er mjög létt: Það eru orðin létt og erfitt, easy og difficult/hard. Einhver bað um létt þema, og ég tók hann á orðinu. Lög eins og ,,Sorry seems to be the hardest word", eða ,,Easy livin'" eru dæmi um lög sem passa. Komiði nú með hugmyndir, krúttin mín.

föstudagur, nóvember 04, 2005

Takk fyrir stórkostleg ráð vegna spurningar hér í síðasta bloggi. Þetta er ekki í fyrsta og væntanlega ekki í síðasta skipti sem bloggheimar ráðleggja vel. En þema næsta þáttar eru líkamsvessar, og þá á ég við það sem kemur úr líkama okkar í formi úrgangs, loft má líka vera með. Það er því piss, kúkur, æla, gubb, prump, o.s.frv. Þetta þema er í boði Ólivers, sonar míns, sem er fjögurra ára og alltaf að segja kúka og pissubrandara.

fimmtudagur, nóvember 03, 2005

Ég fékk ansi skemmtilega spurningu í gær, en það var: Hvað langar þig í í jólagjöf? Ég er búin að hugsa málið síðan, og ég veit hreinlega ekkert hvað mig langar í. Þetta er í raun og veru í fyrsta skipti sem mig ,,vantar" ekkert. Sko, ég fæ geisladiska í vinnunum mínum, ég var að kaupa mér ferðageislaspilara sem er líka mp3-spilari. Ég á tölvu sem virkar, og síma sem virkar. Ég á brauðrist og allt til eldhússins er alveg nógu gott. Mamma var að gefa mér ilmvatn sem hún fílar ekki, en passar mér prýðilega, og líka boddílósjón og handakrikasprei. Ég bý í lítilli íbúð, þar sem ekki er pláss fyrir margar bækur, svo ég keypti mér bara bókasafnskort til að þurfa ekki að eignast neinar bækur en geta samt lesið það sem ég vil og þarf. Svo nú vandast málin. Hvað er eftir? Hvað þarf maður? Hverju er ég að gleyma? Mér dettur svo sem í hug einhver lúxus sængurver, eða ofurdekurrisahandklæði,...en er þetta ekki samt dálítið undarlegt? Ég er svo sem ekkert að kvarta, það er hreint stórkostlegt að líða eins og mann vanti ekki neitt, en samt...
Hugmyndir að einhverju sem ég þarf nauðsynlega á að halda í jólagjöf óskast hér að neðan, og ég vil ekki: dvd eða vidjómyndir, neitt hárdrasl(blásara,sléttara,krullara o.s.frv.) eða i-pod rusl.) Hjálp?

miðvikudagur, nóvember 02, 2005

Óliver er veikur. Hár hiti og slappleiki. Hann er samt svo brattur, að áðan ætlaði hann að fara á fætur og fá sér morgunmat, en þurfti svo bara að leggjast aftur því honum var svo illt í hausnum. Svona er að vera lítill, maður er svo fljótur að gleyma að maður sé lasinn, en er það samt. Hann liggur nú og horfir á teiknimynd.