Leita í þessu bloggi

miðvikudagur, nóvember 30, 2011

Í dag: Sundleikfimi, fyrirlestur um bakvernd, gönguferð, sjúkranudd, leirbað, slökun. Today: Syncronized swimming, seminar on better back-health, outdoor walking, back-massage, mud-bath, relaxation.
Lífið er of gott. Life's too good!

þriðjudagur, nóvember 29, 2011

Í dag hef ég: Farið í jóga, farið í bakleikfimi, hitt sjúkraþjálfara, farið í nálastungu, farið í göngutúr og farið í slökun. Er á leið í sund og gufu. Á morgun á ég að: fara í sundleikfimi, fara í göngutúr, fara í sjúkranudd og fara í leirbað. Er furðulega ekki þreytt akkúrat núna, en á sunnudag og mánudag lagði ég mig á tveggja tíma fresti. Næ bara suðurland-fm og rás 1 í herberginu mínu, og fíla suðurland-fm vel. Áðan spiluðu þeir koverútgáfu af Rúdólf, með einhverri rokkgrúppu. Hver veit hvaða hljómsveit hefur koverað Þeysarana? Hveragerði er töff. Mjög rólegur bær, en alltaf skrýtið ljós út um allt eftir myrkur, út af öllum gróðurhúsunum. Á göngu minni um bæinn áðan gekk ég á hljóðið að bílskúrsbandi, sem var að spila "For whom the bell tolls" með Metallica. Frábærlega koverað, krakkar! Metnaðarfullt gítarsánd og svona. Ég lagði staðsetningu hússins á minnið og ef mér fer að leiðast mjög mikið get ég alltaf bankað upp á. Einhver í bandinu hlýtur að eiga heima þarna. Það skelfir mig miklu minna að eignast vini meðal tónlistarunglinganna í Hveragerði en meðal með-sjúklinga minna á Heilsustofnuninni í Hveragerði. Ég heiti Heiða og ég er unglingsstrákur!

laugardagur, nóvember 26, 2011

Woody Allen-myndin "Midnight in Paris" er kannski uppáhalds Allen-myndin mín, en auðvitað eru þær margar ótrúlega góðar. Ég og Elvar skelltum okkur í Bíó Paradís í gærkvöld, og það er allavega alveg örugglega skemmtilegasta kvikmyndahús Íslands. Ég er aðeins of ung til að hafa upplifað Fjalaköttinn, en þetta hlýtur að vera jafngott og það, ef ekki bara betra. Nú panta ég hérmeð að allir lesendur þessa bloggs sem ekki hafa enn prufað að fara á bíó í Bíó Paradís skelli sér fljótlega. Þar er nefnilega ekkert hlé, engar viðbjóðslega ömurlegar auglýsingar á undan, (spilaðar allt of hátt), hægt að kaupa almennilegt kaffi, kappútjínó, espressó og bara ú neim itt, og það er hægt að ábyrgjast að myndirnar sem eru sýndar þarna eru lang-flestar framúrskarandi. Ég er að íhuga að kaupa bara eitthvað svona árskort eða eitthvað, því svo er Bíó Paradís líka eina bíóið sem er rétt hjá heimili mínu, bara 7 mínútna gangur eða svo.....
En Woody Allen sem sagt, er að toppa sig í frábærlega sniðugu handriti, ásamt hinum venjulega skammti af ádeilu á "venjulega" fólkið. Þess má geta að Owen Wilson, aðalleikari myndarinnar, hjólaði næstum því á mig einu sinni þegar ég og Elvar vorum í Rómarborg. Ég er alveg svakalega ómannglögg og hefði ekki þekkt hann neitt, en Elvar kveikti. Við vorum að labba yfir gangbraut og mættum honum að hjóla yfir sömu gangbraut. Minnir að hann hafi sagt "sorry" við mig....Hann er góður í myndinni, sannfærandi sem bóhemískur rithöfundur sem hefur fengið drulluleið á öllu búllshittinu í kærustu sinni, vinum hennar og tengdó. 5 stjörnur frá mér, fyrir myndina, og Bíó Paradís fær 7 stjörnur af 5, fyrir að vera alveg rosalega æðislega frábært bíóhús sem ég elska af öllu hjarta!!!!!!!!!!!!!

þriðjudagur, nóvember 22, 2011

Ég og óliver fórum á Þór ekki þrívídd áðan. Það var bara eitthvað svo yndislegt að vera laus við þessi ömurlegu gleraugu úr fésinu að ég naut myndarinnar í botn. Það þarf nú bara að fara að stræka á þetta bévítans 3D. Þór í 2D var í Smárabíói og þegar myndinni lauk löbbuðum við út á strætóstöð og ákváðum að vera ekkert að bíða heillengi eftir tvistinum (tuttuguogeitthvað mín. í hann) heldur tókum nr. 28 sem rúntaði aðeins í kópavogi og stoppaði svo í Hamraborg. Þar tókum við fjarkann á Hlemm og löbbuðum svo niður Laugaveg með viðkomu í stórmarkaði til að kaupa í matinn. Ég áttaði mig á því á þessu ferðalagi öllu saman, með skemmtilegasta einstaklingi í heimi, hvað það þarf alls alls ekki að eiga bíl. það er alltaf undantekningalaust leiðinlegra ef maður keyrir. Þá hefðum við labbað úr bíóinu út í bíl og keyrt heim, með viðkomu í stórmarkaði þar sem ég hefði hlaupið inn og valið í kvöldmatinn og óliver ekki nennt inn og setið í bílnum og hlustað á útvarpið. Við fengum í dag bæði bíóferð og fullt fullt af annarri samveru, með tilheyrandi heimspekilegum samræðum og fyndnum hugmyndum og hlátrasköllum. Ef einhverjum finnst leiðinlegt að vera í strætó, ætti hann bara að prófa að koma í strætó með mér og Óliver. Það er sko ekkert leiðinlegt við það! Hver vill kaupa bílinn minn?

föstudagur, nóvember 18, 2011

Þetta er alveg rosalega flott móment af útgáfutónleikunum okkar. Sverrir hefur leik og Haukur tekur við í miðjunni. Svona var Sverrir kvaddur og Haukur boðinn velkominn í Hellvar.

miðvikudagur, nóvember 16, 2011

laugardagur, nóvember 12, 2011

Ný síða um Hellvar bætist í linka, það er það Hellvar-fanpage2. Auðvitað er Wim Van Hooste að sjá um hana og hefur teiknað gullfallega mynd af Hellvar eftir ljósmynd sem tekin var á útgáfutónleikunum okkar í haust. Þar má sjá báða bassaleikara Hellvar, hinn fráfarandi Sverri og núverandi Hauk Viðar, en þeir spiluðu meira að segja báðir á bassa í sumum lögunum á útgáfutónleikunum. Af mér er annars gott að frétta. Með harðsperrur í fingrum vegna gífurlega mikils gítarspils undanfarna daga. Hellvar tók upp órafmagnaða plötu á miðvikudag og fimmtudag og svo spiluðum við í beinni útsendingu á Rás2 á föstudag og svo á tónleikum á Paddy's á föstudagskvöld. Svaf svo sannarlega til hádegis í dag og fyrirhuguð er hjólaferð með viðkomu í ráðhúsi reykjavíkur og í sundi og gufu, og svo meira gítarspilerí og gleði eftir það.

þriðjudagur, nóvember 08, 2011

Hellvar var að gera plötu fyrir nokkrum vikum. Hún heitir "Stop that noise" og er ekki noise-plata, eins og nafnið bendir til. Hún er soldið rokkuð, en líka melódísk og líka allskonar bara. Það er búið að spila nokkur lög á rás2, eitt þeirra heitir Morceau de gayeté. Það er hægt að fara inn á síðu hjá ruv daglega og kjósa þetta lag áfram upp vinsældalistann þeirra. Svo er náttúrulega hægt að kaupa sér plötuna úti í búð, eða á gogoyoko.is. Á gogoyoko er líka hægt að hlusta á hana endurgjaldslaust, en svo fær maður auðvitað óstjórnlega löngun til að styrkja listamennina í Hellvar, og þá kaupir maður "Stop that noise". Já, þannig er það!