Leita í þessu bloggi

þriðjudagur, janúar 31, 2012

úti er bleik birta og búin að vera síðan um hálftíu. ég svaf frá 9 í gærkvöldi til 7 í morgun. það er æði að sofa 10 tíma. ef það er möguleikaséns ætla ég að hjóla úti á eftir. hef ekki hjólað síðan í október, eða semsé síðan snjórinn kom. ég ætla að hjóla upp í háskóla, detta inn í hámu í hádeginu og fara svo kannski og týnast á þjóðarbókhlöðunni í nokkra klukkutíma. það er gaman og ég sakna þess að hanga í hlöðunni.

þriðjudagur, janúar 24, 2012

Þriðji í lasleika, og svo er ekki meiri tími til að vera slappur neitt, enda þarf að æfa fjórmenningana í Hellvar. Já, fjórmenningana, því Elvar er kominn á trommur, Haukur á bassa, og ég og Alexandra spilum á gítara og syngjum. Við erum semsagt orðin 2 strákar og 2 stelpur, alveg eins og ABBA. Ættum við að breyta nafninu í EHHA? (Elvar, Haukur, Heiða, Alexandra). Neinei, Hellvar leitar að nýjum trommara en Elvar getur næstum allt, og tekur í trommusettið á föstudaginn 27.01 á Akureyri, í galleríinu Populus Tremula, og laugardaginn 28.01 á Húsavík, á Gamla bauk. Svo vantar trommara.

mánudagur, janúar 23, 2012

kolaportið er afstaðið, og gekk vel. óliver setti nýja standarda í lágvöruverði, þegar hann seldi kallana sína á 5 krónur stykkið, og reyndi að gefa magnafslátt í ofanálag. það endaði með því að einn viðskiptavinur keypti restina upp og ætlaði að senda ættingja sínum í fjarlægu landi, litlum strák sem átti ekki mikið dót, eða aur...mjög fallegt. aðrir kúnnar fóru svo að leggja ofaná verðin sjálfir, það sem þeim fannst réttlátt og sanngjarnt,. Hann endaði því áreiðanlega á að fá bara ágætis verð fyrir bækurnar sínar og dvd sem hann er hvort eð er hættur að horfa á eða lesa. Foreldrarnir seldu bækur, músik, myndir, föt, og tónlistargræjur, og svipaður háttur var hafður á: eins lágt og fólk þurfti til að geta keypt. þýsk listastelpa fékk kjól, sem ég hafði spilað í í berlín, á 200 krónur og þýskar listabækur í kaupbæti. ein kona fékk 4 bækur á 500-kall. lífið á að vera svona: Allir geta fengið það sem þeir vilja/þurfa, þótt þeir eigi næstum engan pening og það sé farið að síga á seinni hluta mánaðarins. það er það sem er svo gott við kolaportið. ef maður nennir að leita þá finnur maður oft hluti á góðu verði og getur gert kjarakaup. það er ekkert gaman að verða að eyða 600-kalli í eitthvað, ef allt sem maður á er kannski 3000-kall til að lifa út mánuðinn. þá er svo gott að finna dót sem kostar 100-kall, eða bara 5-kall. annars var ég orðin veik í gær, og er enn í dag. það er skrýtið að vera með eyrnabólgu úti á meðal fólks. mér fannst eins og allt snérist stundum, og varð bara að setjast og ná að róa umhverfið. fórum svo og keyptum rótsterkan thailenskan kvöldmat eftir markaðinn og ég svitnaði hressilega. var sofnuð vel fyrir ellefu í gærkvöldi, gersamlega uppgefin. vaknaði kl. 0800 í morgun, slöpp en brött. verð orðin góð á morgun, finn það.

fimmtudagur, janúar 19, 2012


Sunnudaginn 22.janúar verður kolaportssala Ólivers, Elvars og Heiðu! Það verður mikið af músik á vínil og cd, einnig bækur, dvd, föt, leikföng, tölvuleikir og alls kyns hlutir sem þurfa að fá nýja eigendur, t.d. mótorhjólahjálmar!!! Allt ódýrt. 1 cd/vinil: 400 kr./5 cd/vinil: 1500 kr. Byrjar 11.00 og endar 17.00. Óliver Elvarsson er með mikið af kvikmyndum, tölvuleikjum, fötum og leikföngum sem hann er æstur í að losna við, svo eitthvað ætti að vera fyrir alla aldurshópa. Ef vel leikur á okkur verður gítarinn tekinn með og gutlað á hann í pásum.

Auðvitað verða Hellvar-diskar líka til sölu á frábæru verði! Sjáumst á sunnudaginn!

þriðjudagur, janúar 17, 2012

Ég var að átta mig á því að ég kom fram á 4 plötum árið 2011, og ég lauk Mastersritgerðinni minni í Heimspeki. Ég hlýt að hafa verið sæmilega dugleg, og samt finnst mér eins og ég hafi engu áorkað. Það er svolítið algeng tilfinning hjá mér, að átta mig ekki á því fyrr en eftirá að ég hafi haft mikið að gera. Plöturnar sem ég gerði/kom fram á árið 2011 eru: ,,Stop that noise" með Hellvar, ,,Noise that stopped" með Hellvar, ,,I need a vacation" með Ruddanum og ,,Svartir sandar" með Sólstöfum. Á Hellvar og Ruddaplötunni syng ég allt, eða meirihlutann, en hjá Sólstöfum bara í einu lagi, Fjöru. Það var einmitt verið að gera myndband við það lag og frumsýnt í dag. Hér má sjá lagið. Sólstafir eru að halda sína stærstu og metnaðarfyllstu tónleika á Íslandi til þessa þann 9.febrúar næstkomandi, í íslensku Óperunni, eða þ.e.a.s. Gamla bíói. Hér má finna miða á tónleikana. Platan verður spiluð í heild sinni, og allir gestaleikarar plötunnar koma fram. Tónleikarnir hefjast klukkan 20.00 og miðaverð er tæpur 5000-kall. Ef þú, lesandi, hefur einhvern snefil af áhuga á íslensku rokki ættirðu að fá þér miða á þetta, því það er rugl að fá að sjá Sólstafi í þessu umhverfi, í þessu húsi, við þessar aðstæður.

föstudagur, janúar 13, 2012

lífið er flókið...

þriðjudagur, janúar 10, 2012

sólarhringur illa viðsnúinn, en ég svaf frá 4 til 11 í morgunn. hef þó náð að dotta ekki í letikasti og orkuleysi dagsins í dag. ef ég bara hefði nú drullað mér í gönguferð væri þetta eflaust bara allt alveg ágætt, en svo gott var það ekki. er líka skítkalt, og með stinguhausverk og fæ hnerraköst, þannig að kannski er ég ekki eingöngu skammdegisþunglyndur aumingji (sem er þó viðbúið á þessum hluta árs) heldur einnig með smá kvefpest. hef reyndar líka slím í hálsi og kverkaskít...er sem betur fer ekki að syngja neitt alveg strax. þó er hellvar að fara norður að spila á akureyri og húsavík síðustu helgina í janúar, og svo er líka eitthvað sólstafagigg sem ég syng eitt lag á, en það er í upphafi næsta mánaðar. það hefur lengi verið aðalbömmerársins að þrauka janúar, mörg ár síðan ég hætti almennri gleði yfir afmælinu mínu og svona. þ.e.a.s. jú, ég gleðst yfir afmælinu mínu á hverju ári, það er gaman að eiga afmæli, en það rífur ekki upp stemmninguna í janúarmánuði öllum eins og hér áður fyrr, þegar ég var telpukrakki. já, las konan við þúsund gráður e. hallgrím helga. besta bók í heimi! svo fáránlega fokking góð að ég held ég verði bara að lesa eldri hallgrím og athuga hvort mig er að misminna svona herfilega um hann sem rithöfund. minnir að ég hafi ekkert bondað við herra alheim, og gefist upp á 101 reykjavík og fundist kvikmyndin betri en bókin (sem gerist eiginlega aldrei). já, ég er að treina mér nýju murakami sem ég fékk í jólagjöf, bara tími ekki að byrja á henni, kannski um helgina næstu. vakna snemma (af því ég verð búin að snúa við sólarhringnum auðvitað) og koma mér fyrir með tebolla og hollt snakk, kannski hnetur, og lesa nýja, þykka, brakandi murakamibók. ég þarf reyndar að taka upp demó af lögum líka og koma mér í tónlistarvinnugírinn, en það er svo gaman að ég geri það eins og hendi væri veifað. það eina sem er ves við tónlist er að byrja, svo kemur bara einhver andi sem klárar allt dæmið. jájá og sei sei já. ætla að gera hrísgrjónasalat úr grjónum og grænmeti og ostbitum og kryddi og sjitti, og sjóða egg. vó rafmagnið blikkar. það er að verða rafmagnslaust hér bráðum út af veðri. sjiiiiiiiiiiiiiit.

mánudagur, janúar 09, 2012

Finnst eins og bloggið mitt hafi misst sig útí hluti sem ég er að fara að gera eða hluti sem ég minni sjálfa mig á að ég verði að gera. veit ekki hvort það er jákvæð þróun. blogg er náttúrulega alveg galopið form og það besta er að mun færri lesa það en facebook svo maður ætti að vera enn frjálsari. það er samt spurning hversu frjáls maður getur nokkurn tíman orðið í skrifuðu máli. ég gæti sagt hvað sem væri með munninum heima í stofu, en það eru líka bara "orð sem hverfa í tómið" (er þetta nafn á júróvisjónlagi eða hvað?) Nú sit ég í fótabaði á nærbuxunum í stofunni minni og velti fyrir mér hvað ég ætti að blogga um, ef ég ætla nú að láta þessa bloggsíðu standa undir nafni. Hún heitir "skemmtilegt að vera til ef maður vill", en er akkúrat núna að fjalla um sjálfa sig. það er eiginlega fyrirbærafræðileg nálgun á bloggið. þegar bloggið er farið að fjalla um bloggið, án milliliða og í rauntíma. Fyrirbærafræði er reyndar afar skemmtilegt fyrirbæri, svo með þessu móti er ég líklega að sleppa sæmilega fyrir horn. Ég er allavega hvorki að blogga um skaupið, hrunið, ríkisstjórnina, gillz, né nein önnur dægurmál sem eru hver öðru leiðinlegra. Já, var ég búin að segja ykkur að ég fór til Berlínar í 5 daga? Þar fékk ég risaskammt af "ég kæri mig kollótta-lyfinu" sem virðist hanga í loftina þar í borg. Labba nú um laugaveginn eins og ég búi í milljónaborg, í stað þess að reyna að horfa í andlitin á öllum sem ég mæti, til að athuga hvort ég þekki viðkomandi eða ekki og hvort ég eigi að segja "hæ", brosa, eða láta nægja að nikka óvíst. Ég labba nú bara í eigin heimi og fyrir vikið heldur fólk að ég sé dópuð eða drukkin á miðjum degi, nú eða svona ógurlega mikið merkikerti að ég þykist engan þekkja. En ég kæri mig kollótta. Lífið byrjar ekki og endar í Reykjavík, á Íslandi, og ég er frjáls.

sunnudagur, janúar 01, 2012

Gleðilegt ár. Það er eitthvað við þig, 2012, ég veit bara ekki hvað. Mörg skemmtileg verkefni, margir tónleikar, utanlandsferðir, hlátursköst, bara vel heppnaðar bíó- og kaffihúsaferðir, jógatímar, gönguferðir, aldrei láta 24tíma líða án þess að hafa látið vélina sem líkaminn er fundið leið til að reyna eitthvað á sig, aldrei að láta sömu 24tíma líða án þess að slaka á. Þetta verður doldið gott!