Leita í þessu bloggi

föstudagur, mars 31, 2006

þema Næturvarðarins er Vetur/Winter/L'hiver...osfrv. Fáið ykkur innlegg í skóinn hér að neðan.
Já það er margt að gerast, bæði í raunheimum og draumaheimum. Voða skemmtilegt námskeið í gærkvöldi, og úrslitakvöld Músiktilrauna í kvöld. Þetta er í raunheimum, sko. Í draumaheiminum í nótt dreymdi mig Tinnu (kirsuber), en hún var með sítt, agalega fallegt dökkt rennislétt hár, sem hún var búin að lita 3 eða 4 lokka í skærbláu, skærgulu, skærbleiku, og skærappelsínugulu, að mig minnir. Afskaplega fallegt hár, sem sé. Hún var mjög hávaxin, og ég þurfti alveg að horfa lengst upp til að horfa í augun á henni. Hún var að bjóða mér að koma og heimsækja sig í Amsterdam, en þar ætti hún heima. Jájá, Tinna mín. Ég er sko alveg búin að lesa bloggið þitt, en þetta er samt ótrúlegt!!!! Engar áhyggjur, ég er ekki að fara að "stalka" þig, alltaf að hugsa um þig. Reyndar er einn veggur heima hjá mér fullur af myndum af þér, en hei, það er nú bara mjög normal, er það ekki? Hahahahaahahhaahh. Góður draumur, maður. Og það sem enn betra er, góður dagur í dag! Farin í sund.

fimmtudagur, mars 30, 2006

Óliver dreymir oft heilu kvikmyndirnar, og það eru lang-oftast Harry Potter eða Star Wars, og þá vaknar hann og segist hafa dreymt Harry Potter-draum í nótt. Nú er ég greinilega að ganga í gegn um eitthvað draumatímabil, því mig dreymdi örugglega einhvern heilan helling, og þar á meðal var kvikmynd sem ég mundi hver var þegar ég rumskaði í morgunsárið. Man að ég hugsaði: ,,Já, svona líður þá Óliver þegar hann vaknar og hefur nýlokið við að horfa á alla Harry Potter-myndina." Núna man ég engan vegin hvaða mynd þetta var. Eða...kannski dreymdi mig bara að ég var að dreyma kvikmynd og rumskaði og svo frv....Engin leið að vita. Draumarnir eru ekki á manns valdi eða undir manns stjórn. Eða eins og Tom Waits sagði: You're innocent when you dream.

miðvikudagur, mars 29, 2006

Af hverju heitir Exi Exi? En ekki til dæmis Öx? Það gæti beygst: hér er Öx, um Öx, frá Öx til Axar. Svo man ég ekki eftir neinu samheiti við Öx/Exi í augnablikinu. Hvað í ósköpunum á það að fyrirstilla? Ég sting upp á Hneifa, komið úr Hnífur og kljúfa og því aðeins lýsandi fyrir hlutverk hneifunnar sem ætlað er að kljúfa tré með beittum hníf sínum á skafti. Hneifa er líka orð sem lítur út fyrir að vera eitthvað verkfæri, ekkert ósvipað og hamar eða töng. ,,Já, ég er með hneifuna og hamarinn, en tönginni og kúbeininu hef ég gleymt úti í bíl". Sko, er þetta ekki fínt? En ef þið kunnið samheiti við hið leiðinlega orð Exi, endilega látiði mig vita.

þriðjudagur, mars 28, 2006

Hér sit ég, sötrandi vatn og bloggandi. Ætla að kappklæða mig og rölta í sund. Svo í vinnu, og ef ég mögulega get hjólað heim væri það ægilega fínt. Dreymdi frábæran draum í morgun, þegar ég barðist við að vakna. Dreymdi að ég væri að innleiða góða siði frá Berlín í Keflavík. Þannig var ég búin að búa til svokallað ,,freebox" fullt af geisladiskum sem ég vildi gefa hverjum sem vildi. Ég var búin að stilla geisladiskunum upp á horninu á Vatnsnesvegi og Hafnargötu, og furðu lostnir gangandi vegfarendur stoppuðu og skildu hvorki upp né niður. Þar sat ég sallaróleg á gangstéttinni og útskýrði fyrir fólki að það mætti bara taka það sem það vildi og eiga og ekkert flóknara. Svo var draumurinn kominn lengra inn í framtíðina og þá var ég að labba í rosa þykkri dúnúlpu sem mamma lánaði mér, með mjög fallegt silfurúr sem mamma lánaði mér líka, og var að leita að Emilíu Torríní-tónleikum sem áttu að vera einhvers staðar það kvöldið. Þá sá ég tvo stráka sem voru líka að gefa geisladiska, og þeir gátu sagt mér að tónleikarnir væru í kirkju úti í innri-njarðvík. Þannig að ég bara labbaði af stað, og barðist á móti vindinum og veðrinu, en mér fannst það bara hressandi og var ekkert kalt því úlpan var svo hlý.

mánudagur, mars 27, 2006

Átök sem eru í gangi:
1. Ætla að blogga á hverjum degi.
2. Hjóla eitthvað á hverjum degi.
3. Spila á gítar á hverjum degi.
4. Hætta að borða nammi, nema á nammidögum.
5. Synda þrisvar í viku sem þýðir ca annan til þriðja hvern dag.
6. Drekka meira vatn.
7. Fara að halda Hypomnemata, sem er hugsanadagbók sem ég mun skrifa í á hverjum morgni.
8. Vakna klukkan 6, á undan öllum hinum í fjölskyldunni.

Átök 7 og 8 eru verkefni sem ég byrja á eftir mánaðarmót, því áður en þessi átök fara af stað þarf ég að vera búin að kaupa mér fallega og fína stílabók sem ég breyti í hugsanadagbók, og svoleiðis kostar pening. Ég hef gert þetta einu sinni áður, en það var í tengslum við heimspekikúrs sem ég tók hjá Róberti Haraldssyni. Þá einsetti ég mér að vakna klukkan 6, kveikja á kerti, og skrifa eitthvað á hverjum morgni. Það er ótrúlegt hvað bara þetta litla atriði gefur manni mikinn kraft og dug og dagurinn verður mun einbeittari. Í stað þess að vakna og lesa heiladauður fréttablaðið og slafra í sig sirjósinu, ætla ég að skrifa eitthvað fallegt, og lesa ljóð og heimspeki mér til innblásturs. Er þegar byrjuð að drekka meira vatn, og synda ca 3ja hvern dag, og ég hjólaði í vinnuna áðan, og ég tók einn gítarinn minn með í vinnuna svo ég get gutlað á hann milli verkefna. Með bloggið: Já það byrjar sem sé í dag. Ekkert hámark eða lágmark í bloggi samt, bara að gera síðuna að lifandi síðu sem andar á hverjum degi.
Takk.

laugardagur, mars 25, 2006

Þetta ljóð varð til við að þýða blogg næturinnar yfir á frönsku og svo aftur á íslensku, og síðan þann texta yfir á þýsku og svo aftur á íslensku. Ég gæti ekki gert svona fallegan texta án hjálpar internetsins. Punkta og kommusetning er þó mín, ásamt smá lagfæringu á málfræði, en myndlíkingar, hrynjandi og minni er internetsins.

ekki heild sjálf fyrsta dagsetning. mjög þægilegur upp á topp, framkvæma á morgun. soldán fer í nútíminn þar sem ÉG fór þægilegur upp á topp. mýkt, óp nokkuð tin-tilvera. þægilegur upp á topp, framkvæma sjálf fyrst. þagna á náttúrulegri tjörn. tin, hvenær er fyrstur þægilegur upp á topp? framkvæma traust æsandi og í Nóvember. tilveran fasteignasali sem allir snúra á, ekki á almanak gleðinnar. rúv hvar hver maður flýtir neitun, rúlla, leika á og svo kemur almanak gleðinnar samliggjandi til hvers almanaks gleðinnar. sjálf fyrst, dagsetning á pikknikk, á samlokukörfu og ákaft kakó og kaffi á geta. hvenær hraundrýli á meðan almanak gleðinnar? samþýðanlegur nútíminn þar sem tilveran er ljóð. á hver og einn í fjölskyldunni samliggjandi burt eins og ef? burt á meðan ákafi er. og nútíminn þar sem tin svo tómt, þægilegur upp á topp. tilvera. sumir fá kassabók seint í dag í dag. svo er til herbergi, þægilegur upp á topp. velja húð. stundlegur fundur er lýsi.
12 bönd komin í úrslit músó, og þau eru mjög fjölbreytt og skemmtileg. nú fær dómnefndin frí í viku, til að hvíla eyrun. það var samt ótrúlega gaman að mæta öll kvöld í þessari vinnuviku upp í loftkastala og hreinlega drekka í sig einlæga tóna ungs tónlistarfólks. ég er sátt, og hlakka til úrslitanna. veit ekki alveg hvað mig langar mest að gera á morgun. soldið langt síðan ég fór að gefa öndunum, ætti kannski að drífa mig niður á tjörn. þarf allavega að gera eitthvað spennandi og nýstárlegt. ætla ekki á árshátíð rúv, of dýrt og svo kemur bara árshátíð eftir þessa árshátíð. mig langar í pikknikk, með samlokukörfu og heitt kakó og kaffi á brúsum. það er skemmtilegra en árshátíð, því þá geta allir fjölskyldumeðlimir (sem nenna) komið með, og þá þarf heldur ekkert að vera neitt fram á nótt, heldur er bara hægt að velja sér tíma sem er góður. mér finnst gott þegar hægt er að velja sér tíma. vont að verða að vaka þegar ég vil ekki vaka, alveg eins og það er vont að verða að fara að sofa þegar mann langar að vaka. núna er ég vakandi, alein í stofunni, klukkan tæplega tvö að nóttu. mig langar ekki að sofa, en það er í lagi, því það er enginn að senda mig í rúmið. forrréttindi fullorðinna eru takmarkalaus...

miðvikudagur, mars 22, 2006

Undanúrslit tvö búin, og áfram komust Ministry of Foreign Affairs og Antik. Tvö góð bönd, og afar sátt við úrslitin. Reyndar tvö önnur sem ég hefði viljað heyra meira í, en það komast náttúrulega ekki allir áfram. Höldum í Bláa lónið með Kim og Tom og ætlum að labba í Grindavík og Grindavíkurhrauni og smá svona náttúrudóti. Svo eru það Músiktilraunir #3 í kvöld. Gamanassssu.

þriðjudagur, mars 21, 2006

Já, góðan daginn. Það hefur verið netsambandslaust heima hjá mér í nokkra daga, svo nú skal bætt úr bloggleysi í vinnunni. Bloggleysa verður að vitleysu ef maður passar sig ekki. Fór á Þingvelli og Laugarvatn í gufu og fiskiveislu hjá tengdó á laugardag. Það var, eins og alltaf, best í heimi. Fór svo í sund á sunnudag, 20 ferðir. Músiktilraunir hófust í gær og fyrstu tvö böndin sem komust áfram eru Própanól sem salurinn valdi áfram og Tranzlokal, sem dómnefnd valdi. Ég er nokkuð sátt þótt þarna hefðu verið fleirri fín bönd. Rosalega hef ég gaman af að vera í dómnefnd.
Þóra frænka skorar á mig að taka þátt í áheyrnarprufum Rockstar-þáttana sem verða á Íslandi 5.apríl næstkomandi. Ég veit ekki hvort ég þori. Hvað ef ég kæmist ekki, myndi það þýða að þeim finndist ég syngja illa....??? Hrædd við höfnun, I guess. Ef til vill skiptir það engu máli hvort maður kemst eða ekki, og maður á bara að fara og hafa gaman að þessu. Jájájájá. Lífið er lag sem við syngjum saman tvö. Talandi um júróvisjón, var að heyra að Íslendingar verða aftast í röðinni í undankeppninni. Vá, hvað ég ætla að halda partý!!! Ykkur er hér með öllum boðið í partý til mín. Grandavegur 39, 43 fermetrar!!!

fimmtudagur, mars 16, 2006

Næsta þema Næturvarðarins er mistök, misskilningur, mistake, error, failure, misunderstanding, erreur, Misgestand, Feil, .... jú sí?

Dæmi: Failures með Joy Division,
góða skemmtun, tillögur leggist inn hér að neðan.

miðvikudagur, mars 15, 2006

þegar ég er þreytt verð ég stundum alveg rugluð í hausnum. Núna er ég þreytt, ergó rugluð í hausnum. langar í karamellu og líka ekki í neitt sætt. er að spá í að fá mér brauð og svo súkkulaði og svo c-vítamín sem ég á...horfa á sjónvarp...sofna undir teppi í bol og náttbuxumm.....hummm. hum..... er búin með orku en góð samviska óliver er fyndnasti maður sem ég hef kynnst. teiknaði áðan jólahús. pabbi og hann að skreyta jólatréð og ég að dansa í kring um það. svo var hann að leika kærustu, setti hendurnar á mjaðmir, ruggaði sér í lendunum og framkvæmdi píkuskræki...hahahah. blabla..ég er búin að vinna í 12 tíma vei!

þriðjudagur, mars 14, 2006

Maggi Eiríks er snillingur: Hver vegur að heiman er vegurinn heim, og hamingju sjaldan þeir ná. Sem æða um í kapphlaupi við klukkuna og sjálfan sig, án þess að heyra' eða sjá.

mánudagur, mars 13, 2006

Var að uppgötva að það er hægt að hafa hita í framsætinu á bílnum. Manni líður eins og maður sitji með nýskitna kúkableyju. Langt síðan manni hefur liðið þannig...Hehehe

laugardagur, mars 11, 2006

gott í dag: sætir cherrrytómatar frá sacla með fersku pasta, purrkur pillnikk: excuse me, spilað á Xfm, og ég að keyra bíl á Reykjanesbraut. vont í dag: lágur loftþrýstingur sem lét mér finnast ég vera 2 sentimetrar á hæð, Bambi 2, sem er væmin og hollyvúdduð og amerísk. bless og takk.

föstudagur, mars 10, 2006

Mikið er nú lífið fjölbreytt og skemmtilegt. Í dag hef ég borðað beikon og egg, hjólað, tekið strætó, spilað á gítar, keyrt bíl, farið upp í útvarp, farið upp í mogga, svarað nokkrum bréfum, hitt nokkrar fólkur, hlustað á tónlist, látið í vél, hugsað, lesið blöðin, drukkið ótæpilega af kaffi, skoðað í bókabúð, keypt eitt á útsölu i bókabúð....og klukkan er rétt að verða 2!!!!!
Næsta þema næturvarðarins er Kaffi! Kaffiþema. Allar uppástungur vel þegnar.
Ástarkveðjur,

miðvikudagur, mars 08, 2006

Ég hef:

(x) reykt sígarettu - reykti í 8-9 ár, og hætti svo bara einn daginn, en það eru víst 10 ár síðan.
( ) klesst bíl vinar/vinkonu - neits.

( ) stolið bíl (foreldranna) - enga vitleysu!

(x) verið ástfangin - jájá.

(x) verið sagt upp af kærasta - líka.

(X) verið rekin - já, einu sinni, það var ekki gaman.

(x) lent í slagsmálum - mafíugaur í Marseille kýldi mig, ég kýldi ekki til baka.

( ) læðst út meðan þú bjóst enn hjá foreldrunum - er allt of heiðarleg í eitthvað svoleiðis.

(x) haft tilfinningar til einhvers sem endurgalt þær ekki - sirka öll unglingsárin.

(X) verið handtekin - þegar við brutumst inn í heitu pottana í Keflavík að nóttu kom löggan og tók okkur.

( ) farið á blint stefnumót - nei.

( ) logið að vini/vinkonu - lýg ekki.

(x) skrópað í skólanum - Ó já.

( ) horft á einhvern deyja - nei, alveg sloppið við það.

( ) farið til Canada - uuuu, nei ekki enn, en það er spennandi.

( ) farið til Mexico - Mexikó er mjög spennandi líka.

(x) ferðast í flugvél - þar til á mig vaxa vængir mun þetta vera vinsæll ferðamáti til að koma sér frá Íslandi.

(X) kveikt í þér viljandi - kveiknaði einu sinni í lófanum á mér þegar ég átti að slá hendinni ofan á logandi Sambuca. Glasið sogaðist að og ég brennimerktist. Með hring í lófanum í marga mánuði á eftir. Ekki bragðað Sambuca síðan.

(x) borðað sushi - Eeeeelska sushi, gæti borðað það í öll mál.

( ) farið á sjóskíði - Á það eftir.

(x) farið á skíði (í snjó) - Ég er sleip í svigi, svona stórsvigi myndi ég segja. Allt of langt síðan ég fór á skíði og mig dauðlangar...

(X) hitt einhvern sem þú kynntist á internetinu - T.d. Rassgathole, hitti hann í fyrsta skipti fyrir nokkrum vikum.

(x) farið á tónleika -Eflaust mörg-hundruð ef ekki þúsund.

(x) tekið verkjalyf - já.

(x) elskar einvern eða saknar einhvers akkurat núna - Bæði.

(x) legið á bakinu úti og horft á skýin - já, á sumrin í grasi.

(x) búið til snjóengil - já, það er gaman.

(x) haldið kaffiboð - það er nú daglegt brauð, en stundum eru þó bara ég og Elvar í boðinu. Héldum eitt í morgun, drukkum eðal-Lavazza-kaffi. MMmmmmmmmMMMMmmm kaffi.

(x) flogið flugdreka - einhvern tíman hef ég gert það, en aldrei nema einhverjum drasl-flugdrekum sem hafa flogið illa.

(x) byggt sandkastala - jájá, á Spáni.

(x) hoppað í pollum - með Óliver, reglulega gaman.

( ) farið í "tískuleik" (dress up) - Ég klæði mig upp á hverjum degi, en veit ekki alveg með tískuna, það er ekkert alltaf í tísku sem ég fer í og finnst flott.

(x) hoppað í laufblaðahrúgu - ótrúlegt stuð.

(x) rennt þér á sleða - langt síðan, væri til í að prófa svona "bob-sleða" eins og keppt er í á Ólympíuleikunum.

( ) svindlað í leik - svindla ekki.

(x) verið einmana - já.

(x) sofnað í vinnunni/skólanum - á klósettinu í póstinum þegar hann var ennþá pósturogsími og útibúið var í Vesturbæ...held 1998.

( ) notað falsað skilríki - meeei, hugsa ekki.

(x) horft á sólarlagið - jamm.

(x) fundið jarðskjálfta - já, og panikkað og hlaupið með sængina mína út á svalir...hehehe

(X) sofið undir berum himni - játs. í mörgum görðum bæði í englandi, þýskalandi og danmörku.

(x) verið kitluð - hehe. gaman að hlægja.

(x) verið rænd - Ef einhver finnur bláan Fender Telecaster, custom made U.S.A. sem var stolið frá D.Pollock-æfingarhúsnæði í Brautarholti 2002, þá á ég hann og það eru fundarlaun í boði...sakna hans ROSALEGA.

(x) verið misskilin - All the time!

(X) klappað hreindýri/geit/kengúru - Hef klappað geit. Bæði Elvar Geit og venjulegri.

(X) farið yfir á rauðu ljósi/virt stöðvunarskyldu að vettugi - Æ, stöðvunarskylda, smöðvunarskylda.

( ) verið rekin/vísað úr skóla - Nei, en ég féll einu sinni á mætingu. Fékk þó að taka prófin eftir að hitta námsráðgjafa. Náði öllu samt.

( ) lent í bílslysi - 7.9.13. sem betur fer ekki.

(X) verið með spangir/góm - bæði beisli, járnbrautarteina og góm...Fullt hús!

(x) liðið eins og þú passaðir ekki inn/þriðja hjól undir vagni -einhvern tíma eflaust.

(X) borðað líter af ís á einu kvöldi - Ben og Jerry, og fitnaði líka um nokkur kíló á því tímabilinu mínu. Hann er ekki lengur í boði fyrir mig.

(x) fengið deja vu - kemur fyrir. Fríkí stöff.

( ) dansað í tunglskininu - Hef dansað og það var tunglsljós, en í tunglsljósinu sem slíku...líklega ekki.

(x) fundist þú líta vel út - Ég er voða vel útlítandi alltaf.

(x) verið vitni að glæp - oft, alls kyns glæpum.

(X) efast um að hjartað segði þér rétt - það hefur komið fyrir.

(X) verið gagntekin af post-it miðum (þið vitið-þessum gulu) - Ég er svolítið gagntekin í vinnunni. sé 11 svoleiðis á borði og vegg hjá mér.

(X) leikið þér berfætt í drullunni - já á Roskilde.

(X) verið týnd - týndist í Kópavogi bara fyrir tveimur vikum.

(x) synt í sjónum - mmmmmm jáááááá. Guðdómlegt. Miðjarðarhafið, mmmmmmmmm.

(x) fundist þú vera að deyja - eflaust í einhverri dramatík unglingsáranna.

(x) grátið þig í svefn - já.

( ) farið í löggu og bófa leik - man ekki eftir því, við fórum oft í karateleiki, og hundaleiki. Svo var hin klassíska fyrirmynd ungra stúlkna, Nancy Drew, oft leikin, þegar við vinkonur og vinir leystum dularfull morðmál og/eða önnur sakamál.

(x) litað nýlega með vaxlitum - oft og reglulega.

(x) sungið í karaókí - söng Foreigner-Urgent síðast, á djammi með Brúðarbandinu.

(x) borgað eingöngu fyrir máltíð í smápeningum - hehehe, hef oft þurft að gera það.

(x) gert eitthvað sem þú lofaðir sjálfri þér að gera ekki - ja, kemur það ekki fyrir besta fólk?

(x) hringt símahrekk - eitthvað svona hálf glatað: Er Hreinn þarna? Nei, hér er enginn Hreinn. Núúú, eru þá allir skítugir? Þetta þótti óborganlega fyndið þegar maður var sjö ára. Pissaði næstum því í mig af hlátri.

(X) hlegið þannig að gosið frussaðist út um nefið á þér - í minningunni gerðist það í öllum barnaafmælum æsku minnar.

(x) stungið tungunni út til að ná snjókorni - jájá. það geri ég enn.

(x) dansaði í rigningunni -úúú, það er gaman, þegar hellirignir lóðrétt og úti er heitt. Fékk eitt svona móment í Berlín, man eftir öðru frá Mil Palmeras.

( ) skrifað bréf til jólasveinsins - Nei.

( ) verið kysst undir mistilteini - Nei.

(x) horft á sólarupprásina með einhverjum sem þér þykir vænt um - jájájá.

(x) blásið sápukúlur - Óliver og ég. Gaman.

(x) kveikt bál á ströndinni -Auðvitað. Það er alltaf gaman að kveikja eld, enda einu sinni skáti ávallt skáti.

(x) komið óboðin í partý - Jú.

( ) verið beðin um að yfirgefa partýið sem þú komst óboðin í - Það hefur bara aldrei gerst!

(x) farið á rúlluskauta/línuskauta - sjaldan samt.

(x) hefur einhver óska þinna ræst - Hellingur af þeim.

( ) farið í fallhlífarstökk - Oooo, ég á það líka eftir.

( ) hefur einhver haldið óvænt boð fyrir þig - Er alltaf að bíða...

(x) pissað úti - hehe, það þarf bara stundum að gera það...

þriðjudagur, mars 07, 2006

Æi, hvernig getur heill mánudagur farið framhjá án þess að ég gefi mér 2 mínútur til að blogga? En það er nákvæmlega það sem gerðist í gær. Ég var samt að frá fyrstu til síðustu mínútu. Ég hóf daginn á hláturskasti með óliver og endaði hann á sömu leið. Það síðasta sem fjölskyldan gerði áður en hún fór að sofa var að skella sér í maraþonsessjón í að búa til pulsubrandara og segja hvert öðru. Hér eru nokkrir ,,góðir": Það var einu sinni pulsa sem datt í tómatsósu og þá kom önnur pulsa og helti á hana vatni með sítrónu. (óliver á þennan, ég emjaði úr hlátri), Hvernig pulsur borðar Hilmar Örn Hilmarsson? -Goðapylsur. (Elvar góður), Einu sinni fór pulsa í söluvagn og sagði: Ég ætla að fá einn mann með öllu (ég...), Hvað kallast pulsa sem búið er að éta helminginn af? -Hálfvitapulsa (ég aftur....tek fram að við vorum í svefngalsa)...og já svona héldum við áfram í alveg 20 mínútur eða eitthvað. Upprunalega pulsubrandarann lásum við í Blaðinu en hann var innsendur frá tíu ára strák, og hann er sjúklega fyndinn. Hann er ástæða þess að við fórum að semja pulsubrandara. Hér kemur hann:

Einu sinni voru tvær pulsur á grilli. Ein sagði við hina: ,,DJöfull ertu eitthvað grilluð", og þá svaraði hin: ,,Vá...talandi pulsa!"
Ég get ekki annað en sprungið. Þetta er fyndnasti brandari sem ég hef heyrt í áraraðir. Hvað finnst ykkur?

sunnudagur, mars 05, 2006

Hjólaði út í Gróttu-vita áðan, og vitaskuld til baka. Tæplega klukkustundar útivera það. Ótrúlega hressandi, og endorfínflæðið var yndislegt...Djöfull er gott að hreyfa sig. Á árshátíðinni í gær var ég að rabba við einn borðfélaga um þorramat, og hann fór að tala um súrsaða selshreifa. Mig langar að smakka svoleiðis. Þetta er alveg fríkað, að borða selshreifana. Er það ekki eins og uggar á fiski?...Verð að prófa, og svo stefni ég á að bragða á skötu næstu þorláksmessu, hef aldrei smakka svoleiðis heldur.
vúbbsasí, gleymdi að blogga á laugardegi, en það er nú strangt til tekið enn laugardagur hjá mér, þar sem klukkan er rúmlega 3 að nóttu og ég ekki farin að sofa eftir næturvaktina. jamm og jæja, verð bara að blogga aftur á eftir, sunnudagsblogg. annars var allt voða gott og gaman í dag, sem og flesta aðra daga. tók upp lag sem ég samdi í síðustu viku, það er soldið bítlalegt. ætla að vinna markvisst að demói með heiðusólóstöffi og svo bara fara að gera plötu því það er svo gaman. hellvar verður svo að fara að hrökkva í gír. það eru spennandi tímar framundan, sei sei já. vinir okkar frá albany, NY eru svo á leið í viku heimsókn bráðlega, og músiktilraunir hefjast líka von bráðar. það er svo von á einhverjum ósköpum af skemmtilegum hljómsveitum í apríl og mai og júní,....það er bara óskandi að maður hafi tíma og ráð á að sjá eitthvað af þessu. ég er spennt fyrir ray davies, iggy pop, deus, joönnu newson og roger waters, svo einhverjir séu nefndir. þetta eru allt snillingar. já eflaust ekki amalegt að sjá þetta glæsilega tónlistarfólk á sviði. jæja, góða nótt.

föstudagur, mars 03, 2006

Í dag hef ég: lesið blöð, lesið bók, synt 10 ferðir, gert 20 magaæfingar, farið í gufu í 20 mínútur, heitan pott 5 mín., reddað tíma í stúdíói til að taka upp einn klukkutíma af næturvakt á morgun, hringt í marga, svarað nokkrum vinnutengdum rafpóstum, borðað 2 pylsur í pylsuvagði, hugsað, talað, skipulagt í hausnum, msn-að við sif til köben. Á eftir að: hlusta á marga marga diska og plötur, taka upp klukkutíma milli sex og sjö, fara í matvörubúð, elda svínakjöð í ostrusósu með grænmeti og núðlum, klára spennusöguna, leika við óliver, lesa fyrir óliver, koma óliver í rúmið, gera tónlist, teikna upp skipulög af verkefnum, horfa kannski á Omen 3. sá sem vill koma í heimsókn og horfa á Omen 3 má það (seint í kvöld, eftir 11 eða eitthvað)
Bless,
Heiða

fimmtudagur, mars 02, 2006

Ég held að það sé einmitt kominn tími á smá skipulagningu tímans og fara að sofa snemma til að vakna snemma og nýta morgnanna vel til að gera alls konar skapandi verkefni í stað þess að lesa fram á nótt og vakna of seint (löng setning,....ná andanum áður en ég held áfram.) Ókey, Elvar gaf mér nákvæmlega mottóið sem ég ætla að fara eftir næstu mánuði: ,,Ef þú vilt að draumar þínir rætist, verður þú að vakna". Þetta var reyndar á glasamottu sem var að auglýsa kaffitegund,(skil ekki alveg markhópinn þeirra, er skilaboðunum beint að drukknu fólki sem er að spá í að fá sér kaffibolla til að láta renna af sér....?!?!), en ég tek þetta sem ábendingu um að betra sé að vera vakandi og vinna að draumum sínum, en vera sofandi og dreyma þannig drauma, sem maður man svo aldrei þegar maður vaknar. Ég vil vinna tónlist, semja tónlist, fullvinna Hellvar-demó, taka skurk í kassagítarprójektinu, skoða hvaða lög henta í barnaplötu. Nóg af stöffi til, bara skipuleggja, raða saman, hugmyndavinna þetta. Púsla inn einu góðu Hellvar-demói og koma á nokkra staði og sleppa svo tökunum. Hringja í nokkra aðra aðilla varðandi önnur prójekt og koma á eins og einum litlum fundi. Júbbbbí! Ég hef greinilega sofið nóg í nótt, en það var á röngum tíma. Svaf frá sirka 2-8, og svo frá 10-11, en heilinn minn virðist prýðis-sáttur. Skemmtilegur dagur, skemmtilegar hugsanir, góðir tímar framundan, tekið að birta all-verulega. Nú er það sund í fyrramálið, eftir bolla af góðu kaffi, og svo smá mass á skipulagningu.

miðvikudagur, mars 01, 2006

Í dag var ég vampíra. Það var gaman.