Það er eitthvað undarlegt við að ferðast um með neðanjarðarlestum. Maður er rétthjá fullt af fólki, en eins langt frá því og hugsast getur. Allir að passa sig að rekast ekki í, að sýna ekki of mikil svipbrigði, og að halda einhvernvegin "grímunni" sinni. Ekkert ósvipað og tannlæknastofufílingur, en alltaf einn og einn sem brýtur þetta upp. Ég headbanga stundum við viðeigandi tónlist í ferðaspilaranum, bara aðeins smá, og finnst ekkert mál að verða fyrir augngotum fyrir vikið. Sáum stúlku bresta í grát um daginn, bara upp úr þurru. Hún fór út á næstu stöð, meikaði þetta ekki. En í dag voru 4 litlir strákar á aldrinum 7-12 einir í lestinni. Þeir voru kannski bræður, kannski vinir, en allavega í ofsa stuði og með geðveikt mikla orku. Hoppuðu út um allt og sveifluðu sér í stöngunum. Létu vægast sagt öllum illum látum, og allt í góðu. Hoppuðu úr tómu sæti niður á gólf meðan lestin var á hreyfingu. Fóru næstum yfir strikið en voru greinilega öllu vanir, svo þessi minnsti lét mikið yfir sig ganga og svaraði bara í sömu mynt, og fór ekkert að skæla eða neitt þegar einn stal af honum öðrum skónum. Ég var að hlusta á Singapore Sling, nýja diskinn, og þetta var bara frábær skreyting við það, og ekkert að bögga mig nema síður væri. Ung kona á móti mér var greinilega á sama máli og ég, og brosti bara og hristi hausinn,...þessir litlu krakkar eru nú alveg ótrúlega sæt og orkumikil. En konan við hliðina á mér stóð upp og fór, eftir að hafa skammað strákana fyrir læti. Hvað er eiginlega málið? Hún hefur líklega ekki hlegið upphátt í fjöldamörg ár, og kann ekki að vera afslöppuð gangvart því að fólk bara sleppi sér aðeins. Börn eru svo góð í að sleppa sér, ekki enn búið að skilyrða þau til að vera alltaf yfirveguð og róleg. Ég meina, hvað er eiginlega eftir ef það má ekki hafa smá fjör þegar maður vill? Eitt af því fáa sem þjóðfélögum heims hefur ekki enn tekist að skattleggja. Stöndum saman, og búum til meira fjör og læti! Við megum það alveg!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli