Leita í þessu bloggi

þriðjudagur, nóvember 02, 2004

Í dag fór ég að íhuga það sem einn vinur sagði við mig fyrir nokkrum árum: ,,Hvað ertu alltaf að læra svona Heiða? Veistu ekki að fólk verður bara heimskara á að læra of mikið?"...Ég hélt þetta væri bara einhver svona and-menntahroki, þ.e.a.s. fólk sem vill bara að menn vinni vinnuna sína, og séu ekkert að hanga í skóla endalaust...en ég er að skilja þessa setningu á allt annan hátt í dag. Mér finnst hreinlega eins og fólk missi stundum sína heilbrigðu skynsemi út í veður og vind við að hafa lært of mikið. Sem betur fer er þetta ekki algilt, því öll erum við jú mismunandi, og sumir missa ekki sjónar á sinni eigin persónu og sköpunargáfu og meðfæddum hæfileikum, þótt þeir læri smá. Ég vona allavega að ég geti verið smá ég sjálf eins og ég er áður en ég læri nokkurn skapaðan hlut, og litist ekki af faginu sem ég er að læra og verði að lokum talandi hrokaheimspekiuppflettiorðabók. Þessar glósur skrifaði ég í stílabókina mína í skólanum í dag: ,,Heimspekinemar eru svo margir hrikalega hrokafullir besservisserar. Alls staðar í heiminum er fólk sem þykist vita betur en einhver annar. Í stað þess að vinna saman í að vita meira, er fólk að þykjast vera klárara og slá ryki í augu annarra, tala gáfulega, búa til "andstæðinga"! Klekkja rökfræðilega hvor á öðrum. Þetta er ekki heimspeki fyrir mér, heldur heimska, eða stjórnmál...sem er stundum einn og sami hluturinn."
og svo held ég áfram...
,,Heimspekingarnir sjálfir eru sumir eins og rapparar dagsins í dag. Allir að kalla: 'Ég er bestur, hinir eru ömurlegir og sögðu ekkert af viti'. Heimspekinemar eru þó verri og eru eins og áhangendur rappara, að verja sína menn. Allir að skíta á hina til að reyna að koma sínum manni að."
Held ég fari bara ekkert í doktorsnám...

Engin ummæli: