Leita í þessu bloggi

sunnudagur, febrúar 10, 2008

Þegar ég vaknaði í morgun gerði ég mér grein fyrir því hvað lífið getur verið fallegt. Eftir óveður kemur logn (eða næstum...) og eftir svört ský kemur bara sólskin. Út um gluggann sé ég leikvöll og sólskin og það er von á góðum gestum og saman förum við í hlý föt og könnum nokkra leikvelli. Verðum að sjá hvernig ástandið er á sleðabrekkunni, og bara keyra aðeins um líka og sjá hvernig veðrið hefur farið með bæinn okkar. Það er ótrúlega merkilegt hvað síðustu dagar hafa snúist um frumstæða hluti. Að komast í vinnu og úr henni, að ná í búð og versla vistir áður en veðrið lokar öllum götum. Að ná að keyra Óliver í skólann eftir krókaleiðum og taka hálftíma í það, því sumar götur lokuðust með snjó og snjómokstursdeildin hreinlega hafði ekki undan að opna þær áður en allt fór á sama veg. Mikið er merkilegt að búa hérna. Næstum ævintýralegt návígi við náttúruna og veðurfar. Þótt það skapi vandræði er líka afskaplega gaman að upplifa þetta svona sterkt. Ég meina, það er ekki sjálfgefið að komast í vinnu eða í búð. Þá er allt í einu spennandi að lifa.

Engin ummæli: