Leita í þessu bloggi

miðvikudagur, júní 11, 2008

Krepputal og kreppuhækkanir og bensínverð almennt hefur fengið mig til að hugsa meira um Berlín en áður. Þar eru allir jafn-fátækir, og vanir því að bregðast við litlum efnum og gera sér ávallt mat úr öllu. Á Íslandi er þetta svo nýtt ástand fyrir marga að fólk er rétt að kveikja á hlutunum, og er að byrja að narta aðeins í að prufa að vera meðvitað um verð í búðum og svona. Í dag er loks ekki hallærislegt að lesa strimilinn í búðum, en það var eitthvað sem þótti ægilega niðrandi að gera fyrir um einu ári hérlendis. Ég smitaðist einmitt af strimlalestri Þjóðverja sem allir gera þetta, og þykir það sjálfsagt enda getur þetta sparað heilmikinn pening á mánuði. En ég ætlaði ekki að tala um strimlalestur eða endurvinnslu eða verðmeðvitund þegna. Nei, í gær fór ég nefnilega að hugsa um það sem væri til í búðum hér og í Berlín. Ég áttaði mig allt í einu á því að búðirnar hérna eru fullar af dóti sem við þurfum ekkert á að halda, og svo er erfitt að finna brýnar nauðsynjar. Vöruverð er eitt, en vöruúrval er annað. Ég man eftir öllum litlu grömsubúðunum í Berlín, þar sem hægt var að fá hjólapumpur og allt til að gera við hjólhesta, hitapoka, hnífasett, krydd í massavís, rafhlöður, vasaljós, veggfóður, stimpla, og já, ýmislegt gott sem hvatti til þess að maður gerði við eitthvað sjálfur. Í þýskalandi er það gert aðgengilegt að gera við skó eða hjól, og lítið mál þykir að stoppa í sokka eða sauma í föt. Já, í Þýskalandi er meiri skynsemi í vöruvali, og svo er ef til vill heilmikið mál að finna flatskjá eða eggjasuðutæki, sem eru einmitt svona raftæki sem eru á hverju strjái hér. Íslendingar eiga langt í land þar til þeir sörfa á kreppuöldunum og koma á land þurrir í fæturnar. Ég sakna Berlínar.

Engin ummæli: