Fór nú ekkert í Norræna húsið í gær á grænlenskt, en átti þess í stað prýðiskvöld í faðmi fjölskyldunnar þar sem við gláptum m.a. á Evrósýn. Ég og Óliver ákváðum að kjósa Færeyinginn því við vildum borga fyrir greiðann og velvildina sem Færeyingar hafa sýnt Íslendingum á erfiðum tímum. Jógvan var líka eitthvað svo látlaus og hógvær að mér fannst hann eiga þetta skilið. Evrósýn er þó líklega þekktust fyrir flest annað en látleysi og hógværð og því fór sem fór.....
Lagið sem vann er lagið sem ég hefði sýst talið að myndi vinna, og sýnist þar best og sannast hve ég er ekki í takti við hinn týpíska Íslending. Nú þarf Sjálfstæðisflokkurinn bara að fá yfirburðakosningu þann 25.apríl, þrátt fyrir allar misgjörðir sínar á síðustu árum, og ég er farin. Burt af landinu sem ég skil stundum ekkert í, en á þó að tilheyra sökum þess að ég fæddist hér. Gefum þessu samt "the benefit of the doubt", og ég fer ekki fyrr en ég hef barist fyrir réttlæti og skynsemi. Hver veit, kannski kjósa Íslendingar ekki eins og ég í Evrósýn en beita engu að síður réttsýni þegar kemur að framtíð lands og þjóðar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli