Leita í þessu bloggi

þriðjudagur, apríl 13, 2010

Jæja, keypti skýrsluna á útgáfudegi, svona upp á sögulegt gildi þess að kaupa það svart á hvítu hvað fór úrskeiðis. Bindin eru svo mörg og þung að plastpokinn sem ég fékk í Bóksölu stúdenta rifnaði strax, og hélt ég því á skýrslunni í fanginu eins og barni. Ég hef ekki enn opnað innsiglið en þó kom skýrslan heldur betur að gagni þegar ég þurfti að bíða eftir rútunni á Hringbrautinni og gat notað skýrslubunkann upp á rönd eins og lítinn skemil, og var sætið alls ekki óþægilegt. Hef vonandi ekki rýrt gildi innihalds rannsóknarskýrslunnar með því að styðja óæðri endanum á hana. Annars verð ég að líta á 12. apríl sem merkan dag fyrir það að það komu út rúmar 2000 blaðsíður af útskýringum á því hver sætir ábyrgð, og mér leið í raun og veru eins og sigurvegara að hafa þessar blaðsíður í fanginu. Skýrslan er auðvitað ókeypis á netinu, en þaðan má auðveldlega fjarlægja allt. Engum sögum fer svo um það hvort ritin verða endurútgefin eða ekki, og ef hægri stjórn kemst aftur til valda verður eflaust ekki lögð nein sérstök áhersla á aðgengi að þessari skýrslu. Mér leið, þegar ég rölti um bæinn með níðþungu skýrsluna mína, eins og staðan hefði þokast nær réttlæti, og það væri að einhverju leiti vinstri stjórn að þakka að ég héldi á upplýsingum í fanginu, sem búið var að reyna að fela fyrir mér í fjölda ára. Soldið svona míní-útgáfan af því þegar Stasi-skýrslurnar voru gerðar aðgengilegar almenningi í gamla DDR. Og ég efast ekki um það að réttlæti nái fram að ganga að lokum, og þeir verði dregnir fyrir dómstóla sem eigi það skilið. Þetta er með því jákvæðasta sem mér hefur liðið síðan hrunið varð. Hvet ég nú alla til að verða sér út um eintak (áður en það verður of seint...maður veit aldrei) og lesa svo helvítið, því þeim mun fleirri þjóðfélagsþegnar sem eru með það á hreinu hvað fór úrskeiðis, þeim mun minni líkur eru á að allt byrji upp á nýtt við fyrsta tækifæri (lesist: þegar hægri stjórn tekur við).

Engin ummæli: