Leita í þessu bloggi

miðvikudagur, ágúst 17, 2011

Sit á kaffihúsi í Toronto og blogga. Pabbi minn vakti mig hér áðan klukkan hálf-ellefu á lókaltíma, (já, sumarfrí geta verið einmitt um það að sofa þar til maður vaknar, sérstaklega ef maður er 9 ára að verða 10, og elskar að sofa), og pabbi minnti mig á yfirvofandi upplýsingaþyrrð ef ekkert væri bloggað. Það kláraðist svona 800 króna inneign á hálfri mínútu, svo ég held að pabbi hafi hárrétt fyrir sér, og pabbi minn, ég var alveg búin að sofa nóg, engar áhyggjur ;-)
Það sem hefur á daga okkar drifið síðustu vikuna eða svo er svo yfirdrifið mikið að ég veit vart hvar skal byrja. Song vinkona okkar og maður hennar Cameron komu til Hudson þann 11. ágúst, í tæka tíð til að sjá okkur spila á Ruby's í smábænum Freehold. Hún var í skóla rétt þar hjá og þekkir því alls kyns falin vötn og læki þar sem hægt er að baða sig. Ég og Elvar og Óliver nutum góðs af því og böðuðum okkur tvisvar úti í náttúrunni. Svo keyrðum við til Rhineback, einn smábær í upsteitinu, röltum um og tókum myndir og keyrðum á eldgamlan diner og alls kyns. Við ákváðum að taka ekki bílaleigubíl fyrr en á mánudaginn 15. ágúst, og vorum því í Hudson á laugardag síðasta, en þá var verið að halda Hudson music fest í fyrsta sinn (annað festival en Hudson River Front sem Rob er búinn að sjá um í nokkur ár). Þetta er fullt af litlum sviðum sem er dreift um allan bæ, og lókal jafnt sem aðkomutónlistarmenn að spila í görðum og á torgum, jafnvel búið að setja upp svið á einum róluvelli! (það væri góð hugmyndfyrir ísland, að spila á róluvöllum, foreldrar að hlusta og börnin að leika sér, og svo snýst það kannski við, börnin hlusta og foreldrarnir fara að róla). Við tókum svo bíl á leigu á mánudag og keyrðum fyrst upp til Rochester, þar sem tívolígarðurinn Seabreeze er. Þangað keyrðum við eftir gps-tæki, sem var snilld, komum þangað um 4-leytið og vorum til ca. 9, sem sagt. Keyrðum þá á hótel sem heitir "Super 8", hótel sem ég hafði fundið adressuna á online, en ekki getað bókað á síðunni þeirra, því formið viðurkenndi ekki að það væri til land sem heitir Iceland. Við bara treystum á að það væru herbergi, enda leit þetta út fyrir að vera "in the middle of nowhere" og meira svona mótel en fancy, (nóttin fyrir okkur 3 kostaði 70 dollara með inniföldum morgunmat). Þetta gekk glimrandi, enda mánudagskvöld og svona, og það fyndna er: Við vorum bara komin inn í eina bygginguna upp á velli. Gengum beint inn á Keilissvæðið, sem er í úthverfi bæjarins Rochester! Svona er heimurinn lítill. Þar sváfum við vel og sofnuðum yfir 60 sjónvarpsstöðum (fyrsta sjónvarp sem við horfum á í usa þetta skiptið) og vöknuðum hress um 9. Eftir morgunmat var adressa Birkis í Toronto, Kanada slegin inn í gps-tækið og eins og hendi væri veifað vorum við á leið til Kanada. (Þess má geta að Rochester-úthverfið lítur í dagsbirtu út eins og iðnaðarhverfið í Hafnarfirði, þarna hinum megin við götuna frá KFC). Já, við keyrðum og stoppuðum á "service-aria" á Interstate-inu, þar sem pizzusneiðarnar bragðast allar eins, sama frá hverjum þær eru. Óliver stóð sig eins og sú ofurhetja sem hann er, enda var hann vel birgður af nýjasta æðinu, "Comic books" sem hann les á ensku eins og að drekka vatn. Hvílíkur snillingur! Hann var líka vel sáttur við tívolí dagsins áður, svo þetta var í lagi. Lékum okkur að því að keyra þennan sparneytna smábíl (Hyundai Accent, svipaður að stærð og Corolan okkar). Keyrðum bæði, og ég sat meira að segja við stýrið þegar við fórum yfir landamærin til Kanada, þannig að nú hef ég keyrt á milli landa sjálf við stýrið. Kanadísku landamæraverðirnir voru yndislegir og sáu að við vorum bara fyrirmyndafjölskylda í fríi, og því fórum við í gegn eftir bara 3 eða 4 spurningar og okkur bara óskað góðrar skemmtunar í Kanada. Það er víst margra klukkustunda prósess að komast til baka til Bandaríkjanna, samt, við gerum bara ráð fyrir rúmum tíma í það. Svo hér sit ég, í Toronto, á kaffihúsi sem serveraði rosalegan tvöfaldan soya-latte, þann besta sem ég hef fengið í allri ferðinni. Toronto er tvímælalaust falleg og spennandi stórborg, og hefur svona "það er allt hérna" tilfinninguna sem ég fæ í New York-borg. Verðum hér í dag, og eigum jafnvel að taka upp eitt eða tvö lög fyrir einhverja tónlistarsíðu sem Birkir er að vinna fyrir einhvern tíma í kvöld. veit því miður ekkert um þetta, þær upplýsingar eru ekki komnar, ég bara mæti ef af þessu verður. Svo er markaður sem við ætlum á, Kensington-market heitir hann. Svo er strönd, og little portugal og little japan og little italy og china og ég veit ekki hvað og hvað. Little iceland er samankomið í húsinu sem Birkir býr í, en þar búa nokkur eintök. Ætlum að koma við í Buffalo og Niagara Falls á leið heim á fimmtudag eða föstudag. Það er tívolígarðurinn Martins Fantasy Island sem á hug okkar allan, og ef við höfum tíma kíkjum við kannski á fossinn líka. Annars erum við nýbúin að sjá Dettifoss og hann var nokkuð impressive bara. Allt er í hinu besta lagi. Ástarkveðjur til ykkar, elsku foreldrar, og til ykkar hinna sem nenntu að lesa allan þennan texta!

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta var nú aldeilis flott "update".
Gott að heyra að allt sé í besta og
Oliver sé svona brilliant. Get alveg
lagt slatta inn á símann þinn ef þú vilt( svar óskast ).
Love & Peace.
p og m .

Elvar sagði...

tja, það væri svo sem alveg vel þegið, bara upp á öryggið, gott að hafa kanski tvöþúsund kall þarna inni, til að geta hringt í neyð. takk kærlega fyrir!

Heiða sagði...

já, humm, þetta var heiða sem skildi eftir skilaboð hér að ofan...

Nafnlaus sagði...

Gaman að þessu updeiti! USA er náttúrlega eins og Keilir, eða Keilir eins og USA. Muna svo að taka fullt með að drekka heim á skerið og alls ekki taka það með í handfarangur því þá taka ljótu tollverðirnar það!
Göns

Birkir sagði...

Takk fyrir að koma í heimsókn. Life savers.