Á Þorláksmessu fórum ég og Elvar út að borða á Harry's seafood bar and grill (frábær fiskur og franskar). Þetta er svo sem ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að þegar ég ætlaði að finna símann minn á aðfangadag var hann hvergi, engin hringing heyrðist einhvers staðar úr húsinu og enginn svaraði þegar ég hringdi í hann úr öðrum síma. Þá mundi ég að ég hafði síðast notað hann á Harry's, og mikið rétt, þegar ég hringdi í uppgefið númer á fb-síðu þeirra mundu þau eftir símanum mínum. Semsagt farsæll endir á þetta leiða jólaævintýri, því enginn vill auðvitað týna símanum sínum, með tilheyrandi mynda- og tengiliðamissi, fyrir utan fjárhagslegt tap við að kaupa nýjan. Ég gat náð í hann kl. 17.30 á öðrum í jólum, þegar þau opnuðu, (sem er á eftir) en þangað til myndi ég vera símalaus. Ég var alveg sátt við símaleysið, þar sem síminn var ekki týndur var þetta ekkert vandamál af minni hálfu. Ég sá þó ekki fyrir hvílíkt jólafrí ég var að ganga inní.
Þannig er mál með vexti að ég hafði farið í sjálfskapað facebook-frí um viku fyrir jól, eftir að hafa lesið þessa grein:
https://ideapod.com/former-facebook-executive-dont-realize-programmed/?utm_medium=link&utm_source=facebook&utm_campaign=sciencedump
Ég las hana og setti svo inn skilaboð á facebook-síðuna-mína sem bað fólk vinsamlegast að hringja í símanúmerið mitt eða senda mér rafpóst ef það þyrfti að ná í mig. Ég er búin að fara á facebook síðan, en bara til að setja inn skilaboð (og nýja mússik: https://heidatrubador.bandcamp.com/) á listamannssíðu Heidatrubador sem er tónlistarlegt hliðarsjálf mitt. Hef því ekki notað facebook persónulega, heldur bara til að auglýsa tónlist eftir mig. Gallinn við að setja inn svona skilaboð og týna svo símanum sínum er augljós, og ég hef því hvorki fengið skilaboð í gegn um Messenger, né fengið símtöl frá þeim sem vildu vera í sambandi. Ég hef heldur ekki farið á Snapchat eða Instragram, tvö farsímaforrit sem gera manni kleift að deila myndum eða myndböndum af lífi sínu. Eitthvað sem skiptir nákvæmlega engu máli en maður gerir samt, sérstaklega ef maður er ekki að nota Facebook. Svo nú er ég ekki með síma, ekki á facebook, en á þessa ljúfu ThinkPad-tölvu sem ég er nú að nota í að skoða síður, lesa greinar og BLOGGA!
Það er í alvöru jafnlangt síðan ég bloggaði og síðan mér fannst ég vera farin að nota facebook allt of mikið. Kannski um ár síðan síðasta færsla var sett inn. Ég fann hvað ég notaði facebook svakalega mikið þegar ég bjó ein í útlöndum í hálft ár, fyrr á þessu ári, og mér fannst eins og ég gæti haldið sambandi við fólk í gegn um skilaboðin þar. Átt í samræðum við vini mína, deilt myndum, sagt frá góðri tónlist. Svo skrifaði ég pistla þar sem ég sagði frá lífi mínu og tilverunni og það er auðvitað það sem ég gerði á þessu bloggi hér áður. Það er augljóst að facebook hefur leyst bloggsíður af, en vandamálið er að maður nennir ekki alltaf að lesa eða skrifa langar færslur þar. Það er einhver skyndibita-fílingur á Facebook. Fólk opnar síðuna til að eyða tíma, til að brúa bil, á meðan það situr og bíður eftir einhverju, í pásunni sinni úr vinnunni, eftir kvöldmat, í hádeginu, í strætó. Millibilsástand sem notað er til að tékka á öllum vinum sínum á 10 mínútum, og þá les maður ekki langa texta. Maður fær því ekki samskonar dýpt í þessi samskipti og auðvitað ekki sömu innsýn og ef maður hefði hitt einhvern þessara vina sinna.
Svo er það læk/hjarta/broskarl/reiðikarl-takkinn, sem er hannaður af forriturum og hönnuðum, sérstaklega með það í huga að fólki finnist það verða að fara reglulega inná facebook, twitter, snapchat og instagram til að sjá hversu mörgum líkar við færsluna sem maður setti inn. Það eru raunverulegu hrósin sem fólk fær í dag. Það eru klöppin á bakið, hughreystingin, viðurkenningin á því að það sem maður er að gera sé vel gert. Hér er viðtal við manninn sem fann upp læk-takkann og margt má taka út úr því og nýta sér ef maður hefur áhuga:
https://www.theguardian.com/technology/2017/oct/05/smartphone-addiction-silicon-valley-dystopia
Ég sakna Facebook ekki enn. Ég sakna ekki að vakna á morgnana og teygja mig í tölvuna og tékka á facebook. Ég viðurkenni að ég átti í erfiðleikum með að gera ekki það sama með farsímanum, tékka þá bara á instagram í staðin fyrir facebook. Mér finnst gaman að taka myndir, af mér og öðru, og helst að gera þær mjög listrænar og skrýtnar og því er þetta nátturulega hluti af mínu skapandi ferli og vinnu og það er ekkert að því. Það sem er athugavert er þessi þörf. Að VERÐA að opna einhverja síðu, tékka á einhverjum viðbrögðum, sýna sömu viðbrögð fyrir aðra. Að læka allt svo öðru fólki, vinum og kunningjum, finnist það sem þau gera vera gott. Að sýna hluttekningu í gegn um forrit frá morgni til kvölds.
Ég er ekki á facebook nema sem listamaður og útvarpsþáttur núna. Ég fer kannski að blogga meira og deili blogginu mínu á síðunni fyrir þá sem nenna að lesa og hafa áhuga á að fara dýpra. Ég er ekki búin að ná í símann minn, en ætla svo sannarlega að sleppa instagram og snapchat (Í annarri greininni sem ég setti hlekk á kemur fram að snapchat sé eins og heróin.) Ég hef ekki áhuga á að vera "háð" tækni, þótt ég hafi ekki á móti henni og geti vel hugsað mér að nota hana þegar hún gerir líf mitt einfaldara. Ja.is er betra en símaskráin. Google-maps er betra en landakort. Facebook, Instagram, Twitter og Snapchat eru ekki nauðsynleg. Bæta engu við. Nú sit ég á kaffihúsi (Emilie and the cool kids, Hverfisgötu, meiriháttar) og blogga. Yfir jólin las ég, fór í ródtrips, heimsótti fjölskyldur, fékk heimsóknir og horfði á bíómyndir og borðaði nammi. Í morgun var fyrsta hugsun mín ekki að tékka á hvað væri að gerast á facebook. Nú deili ég þessari færslu á facebook-síðunni minni og vona innilega að ég vekji einhvern til umhugsunar. Gleðileg jól!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli