Hápunktar vikunnar voru tvímælalaust á miðvikudags- og fimmtudagskvöldið. Afráðum að eyða ponsupening í að borða á veitingastað á miðvikudagskvöld og fengum Sunnu og Jónu í lið með okkur og allir beint á "blinda barinn". Það er staður sem heitir Nocti Vagus, en hefur undirtitilinn der Dunkel Bar. Dimmur bar semsagt en þar með er ekki öll sagan sögð, því starfsfólkið er allt blint eða sjónskert, og því engin ástæða til að hafa nokkuð ljós. Ekki má kveikja í sígarettu eða svara í síma eða kíkja á armbandsúr með ljósi...það er allt ljós bannað inná þessum stað!!! Hluti af stemmingunni er nefnilega að sitja í kolniðamyrkrinu og borða, drekka og vera glaður. Hægt er að panta af matseðli, og líka hægt að láta kokkinn koma sér á óvart. Ég vildi vita, og pantaði mér andabringu með allskyns grænmeti og sósum og ég veitekkihvaðoghvað...og það var alveg frábært, Elvar Jóna og Sunna vildu óvæntið. Þau fengu öll það sama óvænt, og nú tóku við heilmiklir samanburðir bóka um hvað væri á diskunum. Komist að niðurstöðu um að líklega væri um tvær gerðir af kjöti að ræða, en ómögulegt að segja til um hvað, kannski svínakjöt? Ég og Elvar gerðumst ævintýraleg og sendum gaffal með kjötbita yfir í myrkið skáhalt yfir borðið, og okkur tókst að gefa hvort öðru að smakka af okkar réttum. Lambakjöt, lýsti ég yfir harðákveðin...en mín steik var náttúrulega vituð. Núúúú, við eyddum dágóðum tíma í að sötra bjór í myrkrinu og augun vöndust náttúrulega ekkert, þannig að þau voru ýmist opin eða lokuð, og þetta hafði allt afskaplega róandi og góð áhrif á mannskapinn. Samræðurnar voru komnar langt aftur í bernsku og fólk almennt farið að sjúga þumalputta og ganga í barndóm. En allt tekur enda, og við tókum þá ákvörðun að koma okkur upp í ljósið. Þar greiddum við, og fengum að vita hvað óvæntið hefði verið það kvöldið: "Nú", svaraði þjónustustúlkan roggin, "Það er greinilega langt síðan þið prófuðuð krókódíl síðast". Hún var ekkert að plata, þau fengu krókódílasteik, strútakjöt, og kjúkling í kókos!!!
Held ég geymi bara hitt hælætið, það er ekkert hægt að segja meira í bili...erum enn að melta þessa reynslu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli