Leita í þessu bloggi

þriðjudagur, febrúar 08, 2005

sunnudagskvöld, úti að labba í leit að poolborði sem hægt væri að spila á ballskák. Ægilegur kuldi og ólýsanlega mikill raki sem fylgdi. Hópurinn gekk eins rösklega og fætur leyfðu, en engu að síður nær kuldaboli mér. Ein brún prjónahúfa dugði engan vegin, og ég var komin með höfuðverk af kulda. Gekk hraðar, en kuldinn og verkurinn magnaðist. Loks fundum við stað, og sjá, þar er poolborð. Ég sest, en líð nær útaf, og nú er ekki um neitt annað velja en koma sér aftur heim. Það hefur eitthvað ægilegt komið fyrir mig í kuldanum, ég skelf öll. Núna verð ég skyndilega að fá orku, svo ég nái nú alla leið heim. Sé sjoppu, kaupi 2 súkkulöð, borða bæði, hratt. Líður í sannleika sagt ekkert betur, en fæ undarlega glýgju og eins og skyndilega birtu fyrir augunum. Fólk sem bíður eftir sporvagninum starir undarlega á mig þar sem ég riða til á brautarpallinum, með súkkulaði í munnvikjunum. Vagninn kemur, ég fer með honum, og skríð loks skjálfandi inn í hitann heima. Tek parasetamól og rotast á nokkrum sekúndum. Vakna svo um eitt og er hress en ógurlega dösuð og hálf-illt um allan líkamann. Síðan sef ég í sirka 10 tíma, en hef ekkert verið á fótum, eigilega enn í náttfötunum frá í gær. Dularfull veikindi, líður í raun eins og ég hafi fryst á mér hausinn. Eins og aum í höfðinu, og já, alveg ófær um að hugsa af viti. Held bara að ég hafi ofkælst...
Fylgist með framhaldinu, hvað gerist næst?
Mun heilsan koma, eins óvænt og hún fór?
Er morgundagurinn rétti dagurinn til að mæta í skólann, eða mun það draga jafnvel meiri og dularfyllri flensu-dilk á eftir sér?
Er höfuð mitt yfirhöfuð í lagi eftir kuldann, eða mun það jafnvel detta af?
Æsispennandi flensufregnir úr Berlínarborg, þar sem allt getur gerst og enginn er öruggur.

Engin ummæli: