Það eru ótrúlega mörg lög til með orðleysum, eða trallalla-i einhverju, oft kallað gibberish uppá ensku. Frægast þeirra er ef til vill Ob-la-di, ob-la-da, en þau eru samt mjög mörg þegar maður fer að spá í því. Ég fór einmitt að spá í því, þegar ég áttaði mig á því að ég hef sungið allnokkur sjálf. Ég söng í titillagi hinnar stórkostlegu plötu Doktor Gunna, Abbababb. Svo söng ég í lagi Orra Harðar og Bigga Baldurs, Sumarlag (Dídídí). Í fyrra var það Gaggalagú hans Ólafs Hauks Símonarsonar, og núna síðast Daddara, ofurhetjan Kalli á þakinu, eftir Kalla Olgeirs. Hmmmm, þetta er athyglisverð pæling. Er ég e.t.v. að gleyma einhverju? Gæti verið. En allavega þessi fjögur. Önnur íslensk lög sem innihalda orðleysur eru t.d. Ding Dong, (held að Dátar hafi verið með það), Eniga Meniga, (Ólafur Haukur/sungið af Olgu Guðrúnu), Babbidíbú,(Olga Guðrún), og síðast en ekki síst Sjúddirarírey með Gylfa Ægissyni. En það er reyndar af nógu að taka.
Annars ekkert að frétta, sakna Íslands kannski smá, og fjölskyldunnar þar. Fór í roooooosalega langa sturtu áðan, og hlustaði á alla nýjustu Múm-plötuna á meðan. Ætla að læra núna.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli