Leita í þessu bloggi

föstudagur, apríl 01, 2005

Í gær sá ég kind inní miðri Berlín. Hún var bara eins og gæludýr, í bandi hjá einhverjum pönkara sem var að betla pening. Ég gat ekki annað en stoppað, og spurt út í kindina. Pönkarinn sagði hana vera úr sveitinni sinni, og í þokkabót skaðræðis mannafælu svo ég ætti að passa að hún biti mig ekki. Ég nálgaðist hana með varfærni og sýndi henni flata lófa, sem er eitthvað trikk sem virkar á hunda. Það virkaði vel, og ég fékk að klappa kindinni og klóra henni á bakvið annað eyrað. Pönkarinn var alveg hissa, sagðist aldrei hafa hitt fyrir manneskju sem kindin væri svona hrifin af. Spurði hvort ég vildi lamb með haustinu, en hann er með góð sambönd í sveitinni. Ég neitaði því, enda verð ég farin héðan í júlí. Allt í einu verður okkur litið á kindina sem var búin að vera óvenju róleg og kyrr í dálítinn tíma, þegar við vorum að spjalla saman. Kindin er þá að borða eitthvað upp úr plastpokanum sem ég hafði lagt frá mér... Ég ríf pokann af henni og gái... Hún át þá sokkapörin og nærbuxurnar sem ég hafði keypt mér í afsláttarbúð fyrr um daginn!!! Pönkarinn var alveg í rusli og bauðst til að borga, en ég bara hló því þetta var alveg ótrúlega fyndið, og mér leið frekar fáránlega bara. Kind í Berlín át sokkana mína og nærbuxurnar...Hvað gerist næst?

Engin ummæli: