Leita í þessu bloggi

föstudagur, júlí 01, 2005

Í gær var stór dagur hjá mér og Elvari. Við komum fram í leikhúsi og sungum fimmundaraddað "Krummi svaf í klettagjá", öll erindin, a capella. Þetta var á kvöldi sem er einu sinni í mánuði og nefnist "tod des monats", eða dauði mánaðarins og leikstjórinn býr til dagskrá sem inniheldur stutta einþáttunga, tónlist og viðtal við einhvern úr dauðabransanum (í gær var það starfsmaður kirkjugarðs). Leikstjórinn sá Hellvar spila á tónleikum og vildi fá okkur til að flytja eitthvað íslenskt lag sem dauðinn kæmi fyrir í. "Krummi svaf í klettagjá" kom fyrst upp í hugann, en þar er krummi í upphafi nær dauða en lífi af kulda og hungri, og finnur svo dauðann sauð og bjargar lífi sínu og hinna krummanna með því. Ég útskýrði textann áður en við sungum, á ensku reyndar, ekki þýsku, en það virkaði bara vel. Allir voru rosalega hrifnir, og ég verð að segja það að elvar stóð sig glæsilega, en þetta er í fyrsta skipti sem hann kemur fram sem söngvari, og fyrir vikið var þetta ennþá sérstakara. Annars var kvöldið allt fremur viðburðarríkt: Kirkjugarðsstarfsmaðurinn fraus fyrir framan áhorfendur og sagði bara "Ég get þetta ekki" og hljóp af sviðinu. Píanóleikarinn var fljótur að hugsa og skellti sér bara í einn jarðarfararmars meðan verið var að róa grafarann niður, svo allir héldu að þetta ætti að vera svona. Svo féllst hann á að koma örstutt upp á svið með öðrum leikara og svara bara spurningum. Maðurinn sem fann upp gerfigreindina, tölvusérfræðingurinn Alan Turing, var næstur á svið og talaði um tölvumál, en hann drap sig í júní 1954. Kvöldið endaði á völdum atriðum úr óperunni "Rigoletto" flutt af leikbrúðum sem voru búnar til kvöldið áður úr sorpi og rusli, allgjör súrrealismi og náttúrul. á þýsku eins og allt, og því skildum við helmingi minna, en þetta var gaman og svo hlupum við út í nóttina. Á leiðinni heim sáum við 3 gleðikonur, og er það í fyrsta skipti sem við verðum vitni að vændi á götum úti hér, en vændi er löglegt. Okkur fannst athyglisvert að þær eru með peningapunga um mittið, eins og þjónar eru oft með, til að geta gefið til baka....Elvar fór bara heim, en ég kom við á tónleikum Egils Sæbjörnssonar á Kaffee Burger. Hann stóð sig með prýði, og rúmlega miðnætti dreif ég mig svo líka.

Engin ummæli: