Það er eitthvað svo ótrúlega gott fyrir andann að lesa okursíðuna hans Doktor Gunna. Ég er að sjálfsögðu mjög fegin að fólkið í landinu er að nýta sér síðuna hans og segja frá öllu kjaftæðinu sem er í gangi. Það er nefnilega svo algengt að fólk borgi bara og þegji, og láti nær hvað sem er yfir sig ganga. Auðvitað er ekkert auðvelt að vera staddur í ástandi eins og því sem hefur skapast í efnahagsmálum á Íslandi, en það er reyndar afskaplega gott fyrir fólk að þurfa að fara að spá í eyðsluna og horfa í krónu og aur að nýju, sem er eitthvað sem afar okkar og ömmur kunnu sko sannarlega að gera. Þjóðverjar kunna líka til verka í þeim málum og í Berlín vandist ég á að lesa yfir miðann í búðinni og fá strax leiðréttingu ef eitthvað var vitlaust verðmerkt í hillu, eða óvart tvítekið. Það sparaðist reyndar lítið í Berlín því þeir eru nákvæmir og gera sjaldan villur, en á Íslandi "græði" ég (eða tapa ekki réttara sagt) nokkur hundruð krónur í hverri búðarferð, bara á því að lesa nákvæmlega yfir strimilinn. Fólk hefur gefið mér hornauga, en líkast til eru aðstæður í þjóðfélaginu loks orðnar þannig að ALLIR fari að gera þetta, enda munar alla um hvern hundrað kall. Mæli líka með að endurvinna dósir og plast og gler. Fæ sirka 1500-kall á mánuði, reyndar með styrktardósum frá Pabba og Mömmu sem gefa okkur sínar.
Allir að kíkja á okursíðu Gunna, og læt hér fylgja með ÓTRÚLEGT dæmi af henni:
#484 Vélin í Peougot mínum ofhitnaði uppúr öllu valdi í lausagangi á fimmtudaginn og fór ég með bílinn í Bernhard á föstudagsmorgni til að laga kælikerfið og skipta í leiðinni um bilaðan ABS skynjara við hægra framhjólið. Ég valdi Bernhard þar sem þeir eru umboðsaðilar Peougot og væntanlega með helstu Peougot sérfræðinga landsins innan sinna vébanda. Mér var tjáð að bílinn yrði tilbúinn fyrir fjögur.
Klukkan 15.49 var hringt frá Bernhard, ég náði ekki að svara en ég hringdi 4 mínútum síðar og talaði við konuna á símanum sem sagði mér að það væri viftan í kælikerfinu sem væri biluð, hún kostaði ný 55 þúsund kr en hún hefði ekki verið til, frekar en abs-skynjarinn sem kostaði annars 24 þúsund kr. Svo tilkynnti hún að ég hefði 5 mínútur til þess að sækja bílinn því þeir væru að loka, ég sagðist ómögulega geta náð því á svo skömmum tíma og benti á að 11 mínútna fyrirvari væri ekki langur til að sækja bíl, bíllaus. Þá fullyrti hún að það þeir á verkstæðinu hefðu verið að reyna ná í mig af og til í allan dag. (sem var hrein og klár lygi enda enginn missed calls á símanum). Ég spurði hvort ekki mætti setja lyklana í bílinn og ég gæti sótt hann innan klukkutíma. Þá tjáði hún mér að það gengi ekki því ég þyrfti að gera upp...
- Ha?, hváði ég, en þið gerðuð ekki við neitt?
- Já, en það fóru 2 vinnutímar í þetta, sagði Bernhard-konan
- Bíddu ertu að segja mér að það hefði tekið helstu Peugot sérfræðinga landsins, sem fengu það vita að kælikerfi bílsins væri í ólagi 2 klst að finna út að viftan í kælikerfinu væri sökudólgurinn?
- Þeir gerðu meira en það, þeir þrýstiprófuðu, var svarið.
- Nú jæja, og hvað á ég að borga?
- 17.800 kr. Ég get farið með lyklana til varahlutaverslunarinnar, það er opið þar til 18:00 þú getur borgað þar.
17.800 kr þurfti ég að borga Bernhard fyrir að komast að eftirfarandi:
* Bernhard lýgur að viðskiptavinum sínum um hvenær og hversu oft þeir hringja í fólk
* Bernhard á afskaplega lélegan lager af varahlutum, af tveimur hlutum sem mig vantaði áttu þeir hvorugan.
* Bernhard er með mikla sérfræðinga á sínum snærum sem borga þarf 17.800 kr fyrir að komast frá vitneskjunni: ,,kælikerfið í bílnum er bilað” yfir í ,,viftan í kælikerfinu er biluð”.
* Bernhard finnst 11 mínútur fínn fyrirvari fyrir fólk að geta sótt bílinn sinn á föstudegi.
* Ég mun frekar eiga bílaviðskipti við Ástþór Magnússon og Osama Bin Laden en Bernhard í framtíðinni.
Mér fannst þetta svo dásamlega absúrd, siðlaust og svæsið að ég ákvað borga peninginn athugasemdalaust og kaupa konfektkassa handa starfsmönnum Bernhard fyrir að leyfa mér að upplifa raunveruleika sem er fáránlegri en allar lygasögur um okur. 17.800 kr er kannski ekki svo mikið fyrir jafnfáránlega sögu og þessa.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli