Leita í þessu bloggi
mánudagur, október 20, 2008
Jæja, afstæði hlutanna er gífurlegt. Maður er hættur að skilja upp né niður í neinu. Minnstu áhyggjurnar mínar eru allavega þær að ég hafi misst viku úr skólanum vegna þess að ég barðist við að halda heilsu á meðan ég söng 5 gigg á fjörum dögum. Airwaves-hátíðin var með allra skrýtnasta móti, en hún var einhvern vegin um allt annað en nokkru sinni fyrr. Hún var um að þrauka og halda áfram, þrátt fyrir þjóðfélagsaðstæður. Hún var um að vera með vinum sínum og hlæja saman, þrátt fyrir allt. Hún var um að reyna að gleyma sér, og fá smá umhugsunarfrest frá "hinum" heiminum, þ.e.a.s. hinum gráa raunverulega. Arthur Schopenhauer sagði að maður kæmist út úr gráa hversdeginum með því að hlýða á, eða leggja stund á tónlist eða aðrar listir, og það er akkúrat það sem þessi Airwaves-hátíð var um. Ég reyndi að sjá gigg hjá öllum sem mér þykir vænt um, þótt ég hafi náttúrulega ekki getað séð alla vini mína, sökum tímaskorts. En ég sá Bíbí í Singapore Sling, Sigrúnu og Magga Axels í Dýrðinni, Elizu með sólógigg, Bjössa og Sigga í The Pen, Elvar,Loft,Sigga og Stebba í Dys, hressuogskemmtilegu strákana í Sagtmóðigi, og marga fleirri. Náði reyndar ekki að sjá Curverinn í Ghostigital eða Guffann í For a Minor Reflection, en tíminn er alltaf takmarkaður. Ég er stolt af öllum þessum ótrúlega duglegu íslensku tónlistarmönnum sem hafa unnið kauplaust svo árum skiptir, bara af því bara. Þegar harðnar í ári er tónlist, tónleikahald og listin sjálf kannski enn mikilvægari sem tæki til að fá útrás, komast í burtu, gleyma sér. Ég veit ekkert hvernig þetta verður, en veit að þetta bara hlýtur að reddast. Einhvern veginn. Mér finnast kartöflur og súpukjöt gott á bragðið og það verður bara fínt að éta það og soðinn fisk sem maður kaupir niðr'á bryggju. Á hlý föt, á mann, á barn, á vini, er með þak yfir höfuðið, svo bara gerir maður sitt besta. Það er víst ekki hægt að gera meira en það.....
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli