Á sunnudag fór ég út á götur Reykjavíkurborgar og spilaði á gítar og söng, frumsamin sem og koverlög. Ég var að taka þátt í franska tónlistardeginum Féte de la musique sem verið var að prufukeyra hér á landi í fyrsta sinn. Hef ég þó tvisvar tekið þátt í honum í Marseille með Something Else, hinni stórkostlegu nýbylgjusveit sem ég var í, árið 1990 og árið 1992. Bæði skiptin voru frábær og hvar sem maður fór voru bönd og trúbadorar og vart þverfótað fyrir þverflautuleikurum og alls kyns klassískum hljóðfæraleikurum. Og svo var fólk sem kunni lítið en tók viljan fyrir verkið og gerði bara það sem það gat. Kærði sig kollótt um árangurinn og það gerðu þeir sem sáu og heyrðu í þeim líka. Galdurinn við þessa hátið er nefnilega að það eru ekki allir svipaðir eða jafnir eða slíkt, heldur kemur fólk bara út á götu með það sem það getur og er það talið nógu gott.
Íslendingar eru eitthvað tregari en Frakkar að sýna tilfinningar sínar og vilja ekki gefa höggstað á sér, og það sannaðist líka síðasta sunnudag,....það var næstum ENGINN að spila úti á götu. Ég sá Sigvarð Ara syngja flott franskt á Café Paris, og svo hitti ég einn franskan gaur sem var að glamra Bítlalög og fleirra á Austurvelli, og tók með honum Something, og One more cup of coffee. That's it!
Svo var svið fyrir einhver bönd á Ingólfstorgi, en það þurfti að panta fyrirfram til að koma þar fram. Þegar ég labbaði þar framhjá var einhver Idol-leg gella....Svo voru tónleikar inni á Rósemberg um kvöldið sem ég fór ekki á,....en það eru tónleikar út um allan bæ inni á stöðum marga daga í viku, allan ársins hring, svo það endurspeglar nú ekki gróskumikið tónlistarlíf á Íslandi.
Það er nefnilega einmitt ímyndin sem Íslendingar hafa út á við, að við séum svo skapandi og frjó og allir að spila tónlist og svona. Hvar voru spilandi Íslendingar þann 21.júní 2009?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli