Leita í þessu bloggi

miðvikudagur, september 09, 2009

Ég er útsofin, enda fór ég að sofa klukkan um eitt, og náði að sofa til tíu. Það gera mjög þægilega notalegir 9 klukkutímar. Það hvarflaði að mér að ég væri ekki mennsk um daginn þegar verið var að tala um að um og eftir fertugt færi fólk að geta sofið minna, sem svo ágerðist með árunum þar til maður er gamalmenni þá getur maður aftur sofið, (tja, eða sumir eldri borgarar fá víst aftur sinn fyrri svefn og aðrir ekki). Ég hef aldrei verið í vandræðum með að sofa mína 8-9 tíma, og það er nú ekki nema tæpt eitt og hálft ár í mitt fertugsafmæli.
Annað sem ég á greinilega ekki sameiginlegt með mannkyninu er fullyrðing um það allt sem valt út úr sögukennaranum í sameiginlegri kennslustund heimspeki- jarðfræði- og sögunema í Meistaranámi síðasta mánudag. Hann sagði að með árunum ætti maðurinn erfiðara með að fá hugmyndir sem honum þættu nógu góðar til að framkvæma þær, sökum spéhræðslu, eða þ.e.a.s. maðurinn hættir að gera hluti því hann er hræddur við að verða aðhlátursefni meðbræðra og systra sinna. HA? Með auknum þroska ætti maður að átta sig á því að það skiptir nákvæmlega ekki nokkru einasta máli hvað neinum finnst um mann. Andy Warhol sagði víst að eina heimspekin sem hann notaði væri "So What"-heimspekin: Ef maður er ekki viss um eitthvað (eins og til dæmis hvort maður myndi móðga e-n með að gera þetta, eða þúveist hætta við að gera listaverk því mamma má ekki vita.....etc) þá bara "So What". Ég verð að viðurkenna að þetta hringdi ansi mörgum fögrum bjöllum í hausnum á mér, og þar fyrir utan hef ég aldrei átt við það vandamál að stríða að vera hrædd við almenningsálit. Ég geri mér grein fyrir því að það er bara ómögulegt að gera öllum til hæfis.
Eru þetta gegnumgangandi vandamál hjá mannkyninu: Svefnerfiðleikar með aldrinum og aukin spéhræðsla þannig að hugmyndir verða síður framkvæmdar? Ef svo er þá er ég geimvera, eða stökkbreytt. Hvort heldur sem er er alls ekki svo slæm tilhugsun. Komment á þetta óskast.

Engin ummæli: