Leita í þessu bloggi

miðvikudagur, febrúar 24, 2010

Ekki varð nú áframhald á "vaknaklukkanfimm"-stemmningunni. Meira svona vakna klukkan 7, eða í dag: Vakna klukkan 9. Það er víst með þetta eins og annað, mér finnst best að hafa fjölbreytnina í fyrirrúmi. En ég sé það í ægilega miklu rómantísku ljósi að vakna á hverjum morgni klukkan fimm, sitja ein og dreypa á tebolla og lesa, ja eða skrifa ef því er að skipta. Ef til vill mun ég gera áframhaldandi tilraunir á þessu sviði þegar það fer að verða almennilega bjart nægilega snemma. Það er nefnilega ekkert því til fyrirstöðu að ákveða að nota þennan tíma sólarhringsins í eitthvað annað en svefn. Tek það fram að ég elska að sofa, svo það er greinilega að koma vor þegar mér hættir að finnast ekki neitt lógískt nema að fara að sofa um eitt til að geta sofið til 10 á morgnanna, því það birtir hvort eð er ekki fyrr en þá. En að vakna klukkan 5 er soldið New York-legt eitthvað. Hef ekkert fyrir mér í þeim málum, finnst það bara. Eina morguninn sem ég hef vaknað í New York fóum við að sofa tæplega þrjú að nóttu, (með herkjum, það var svo erfitt að róa sig niður í stórborginni, og eftir flug og ferðalag og allt), og ég stillti klukku klukkan svona 9, til að ná nú einhverri hvíld. En ég rauk á fætur eins og gormur klukkan tæplega hálf-átta, eftir 4 og hálfan tíma af svefni sem sagt, glaðvakandi, brosandi, dansandi: Ég fann fyrir stemmningunni og púlsinum í stórborginni, og læddist því út alein, til að anda að mér borginni. Endaði á því að standa í röð sem í voru fyrir bissnessklæddar konur og menn, og keypti kaffi handa mér og alexöndru, einhverjar afar góðar beyglur og ávaxtasafa í glerflösku, sem kostaði líklega þá (2007) um tvöþúsundkall allt!!!! Og þá var dollarinn bara á 65 krónur, notabene. Allavega mjög dýr morgunverður, og hefði getað sagt mér það sjálf að versla ekki þar sem svona fólk var að bíða, en mig hafði bara dreymt um að gera þetta svo ofsalega lengi. Þetta var eitthvað svo ekta eitthvað sem maður gerir í New York. Ég hefði ekkert á móti því að dveljast svolítið lengur þarna til að finna út hvort hægt sé að lifa af litlum peningi þrátt fyrir hátt gengi krónunnar. Draumur minn núna: Hanga í New York í 3 vikur, gista hjá vinum, á nokkra, og labba bara ein á daginn og skoða. Kanna borgina. Þetta verð ég að gera fyrr en síðar.

Engin ummæli: