Leita í þessu bloggi

sunnudagur, október 31, 2010

Það er mikið hægt að læra í sveitinni. Í risastórum hringgöngutúr í gær hitti ég kýr að gæða sér á káli, kindur sem eltu mig því þær fóru mannavillt, og þurfti að klifra yfir um átta girðingar til að komast heim. Sat hjá á og hugsaði. Horfði í gær upp í stjörnubjartan himin og fattaði að ég þarf að hætta að skamma sjálfa mig inni í hausnum á mér. Það er allt í lagi með það sem ég er að gera. Ég er alveg í fínu lagi. Þetta sögðu stjörnurnar mér. Svo fór ég inn og lærði og lagfærði til 4 í nótt, vaknaði samt klukkan 10 til að fara og láta hundinn Kisu pissa og gefa henni mat. Fékk svo kaffi og sveitaspjall, sem ég gat ekkert lagt til málanna í, sat bara og hlustaði. Fór svo og las yfir ca. eina bók með mörgum greinum. Var einhvern vegin búin að gera næstum dagsverk, að mér fannst og samt var bara hádegi. Tímaleysi. Finn að meira að segja flugurnar í sveitinni eru tjillaðri en flugurnar í Reykjavík. Ein sat á lærinu á mér allan tíman meðan ég las áðan, fékk sér morgunbað og lagði sig svo. Svo fór ég að hugsa um dúllusokka, og komst að því að það hefur næstum ekkert verið skrifað um dúllusokka á íslensk blogg. Langaði allt í einu einhver ósköp til að eiga svoleiðis. Hér er síða sem ég fann eftir mikla leit: http://bamasocks.com/Low-Cut/c12/index.html?page=4, sokkabúð í Alabama. Fann hana þegar ég sló inn "socks with balls" í google. Þarna á Alabama-síðunni eru þeir kallaðir pom pom socks. Þegar ég slæ það í google opnast fyrir mér fjársjóður dúllusokka í öllum stærðum og gerðum. Þá veit ég það.
Niðurstaða úr þessu bloggi: Sveitin er góð til skrifta, og dúllusokkar heita pom pom socks á ensku.

Engin ummæli: