Leita í þessu bloggi
fimmtudagur, nóvember 18, 2010
ég á vin sem færði mér einu sinni 3 kassettubox full af kasettum sem einhver hafði hent á haugana. var heilmikið búin að skoða 2 þeirra og hlustaði reglulega á fullt af dóti þar, en 3ja boxið fór einhvern veginn forgörðum og ég var að finna það í kassa með dóti frá Óliver rétt áðan. Þarna er t.d. Linton Kwesi Johnson -Making History, æðisleg, og St. Peppers, keypt kasetta. Stórkostleg kasetta frá Triumvirat, sem er þýsk proggsveit, plata frá 1975 sem heitir Spartacus og er svokölluð "konseptplata" um skylmingaþræla......(vá!) Þetta er allt saman gott og blessað, en sú kasetta sem ég gjörsamlega er kolfallin fyrir í dag er íslensk með Valgeir Guðjónssyni og heitir "Góðir Íslendingar". Titillagið er frábært og "hittarinn" sem er eina lagið sem ég hafði heyrt, "ekki segja góða nótt", er nokkuð gott, en........"Týpísk algerlega vonlaus ást" er ÆÐISLEGT! Af hverju var þetta ekki vinsælt lag? Platan kemur út 1988, og jú, ég var líklega aðeins í uppreisn gegn öllu venjulegu á þeim árum, (lesist: uppreisn gegn öllu nema hávaða og brjálæði....) en Valgeir er bara svo stórkostlegur lagahöfundur/textahöfundur og flytjandi. Textarnir á þessari plötu eru hugleiðingar um hversdagslíf hinna góðu Íslendinga. Það er afslöppuð stemmning og maður heyrir hvað hann er bara algjörlega hann sjálfur, þrátt fyrir 1988-syntesæsera sem stundum eru soldið mikið áberandi. Svona uppgötvanir er svo gott að gera, og styrkir mann í þeirri trú manns að góð tónlist haldi alltaf áfram að vera góð tónlist, burtséð frá tískustraumum og dægursveiflum líðandi stundar. Gott lag er og verður gott lag, og gleður á óvenjulegustu stundum, í þessu tilviki: mig 22 árum eftir útkomu. Takk fyrir mig!
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli