Leita í þessu bloggi
sunnudagur, september 11, 2011
Allt í einu finnst mér eitthvað voðalega gaman að vakna á morgnanna og fara að skrifa. Við það að taka gjörsamlega pásu á Heidegger í mánuð er ég með smá svona spenning fyrir miðvikudeginum, en þá þarf ég að kynna ritgerðina mína, erindi upp á ca. 10 mínútur, sem betur fer fyrir luktum dyrum. Ég verð svona eins og stundakennari, en munurinn er sá að nemendurnir mínir eru 3 og vita allir þúsund sinnum meira um efnið en ég (eða það ímynda ég mér allavega). Ég hef þó sjaldan orðið kjaftstopp og það er með því hugarfari sem ég fer inn í þessa vörn. Ég veit helling, en aðalatriðið er að muna hvar hvað er í hvaða bók, svo ég geti flett upp á réttum stað og sagt: "Jú víst, sjáiði það stendur hér". Í gær tók ég til í eldhúsinu og gerði fullkomna skrifstöðu (nýyrði: aðstöðu til skrifta). Aðstaðan gæti líka kallast skrifhús, eins og skrifstofa en þar sem eldhúsið er notað er það skrifhús. Minnir líka á bænhús. Hús er flottara en herbergi. Af hverju heitir svefnherbergi ekki svefnhús? Allt verður einhvern veginn þýðingarmeira í húsi sem er inni í húsi. Herbergi, það er bara einhver kytra sem maður kúldrast í. Vaknaði aftur í morgunn en hóf nú strax að skrifa í skrifhúsinu og er komin með sæmilegasta inngang, fer yfir mun á tveimur höfuðritum Heidegger og svona. Nú þarf ég bara að útskýra kenninguna hans sem ég er að skrifa um, og eitthvað svona meira... Hef líka þriðjudag til að skrifa, sem og fyrri hluta miðvikudags, en vörnin er klukkan 15.00.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli