Leita í þessu bloggi

þriðjudagur, desember 06, 2011

Tími er afstæður. Þessa dagana er ég í fullkomnu tímaleysi. Fer ekki í tölvuna svo dögum skiptir, horfi aldrei á sjónvarp, stíg ekki upp í bíl, rétt kíki í blöðin. Hef lesið bækur, borðað mandarínur, hitti stundum engan í marga marga klukkutíma. Það er ótrúlega fínt. Mér leiðist aldrei, næstum aldrei. Smá á sunnudaginn, en svo fór ég að spila á gítar og samdi eitt lag. Það var gaman. Drekk gífurlega mikið te. Langar ekki í kaffi. Langar meira að vera slök en upptjúnuð, og kaffi er vissulega örvandi. Fæ mér nú samt earl grey-te stundum, það er smá koffein í því. Tala mjög lítið, tja eða minna en venjulega, sem reyndar þarf ekki að þýða mjög lítið (hahaahhahah). Ég er mikið í innri samræðum, í formi lita og hugmynda sem sumar eiga stundum ekki einu sinni orð til að túlka sig. Fór út og tók fullt af myndum af grýlukertum. Labba gríðarlega óskaplega mikið. Það er best. Ég fékk smá svona skilning á Reyni Pétri og Forest Gump áðan. Þar sem ég labbaði um Hveragerði þvera og endilanga með tónlist í eyrunum fannst mér allt í einu eins og ég gæti vel hugsað mér að labba bara af stað og hafa það eitt að takmarki að labba, þar til ég væri þreytt og þá myndi ég sofa og svo vakna og halda áfram að labba. Ég fann að það gæti ég auðveldlega gert akkúrat núna. Ég er einhvern veginn ekki að missa af neinu.

Engin ummæli: