Leita í þessu bloggi
miðvikudagur, maí 02, 2012
Ég er stödd á bókasafninu í Hveragerði núna, og auðvitað nota ég tækifærið og kíki í tölvu, skoða póst, blogg og facebook. Ég er að fara frá Hveragerði á morgun, en er búin að vera með hléum síðan 24.mai. Ég og Gunni gerðum barnalög, svo kom Elvar og við unnum saman rokk. Svo kom Gunni aftur og við gerðum meiri barnalög og texta, og afrekuðum það líka að labba inn Reykjadali, þar sem heiti lækurinn er. (ég óð upp að lærum, en á það eftir að baða mig almennilega þarna...) Heiti lækurinn fær fullt hús stiga og mér finnst alveg óskiljanlegt að ég hafi aldrei farið þarna fyrr!!!
Svo var ég skilin ein eftir í gær, þriðjudag 1.mai, og fannst mér það afar ljúft. Ég vann smá í gærkvöldi, útsetti eitt lag, breytti öðru, en datt svo úr stuði og skellti mér í bíó til Selfoss. Sá Svartur á leik og veit ekki alveg hvað mér finnst um hana. Vondi maðurinn í henni er svo hrikalega illur að ég átti smá erfitt með að muna að þetta var bara bíómynd. Ég hefði viljað hafa hendi til að kreista á tímabili... Myndin fjallar náttúrulega um spíttfíkla sem löngu eru búnir að missa öll blæbrigði og fínstillingar tilfinninga sinna. Það er bara spítt og ríðingar þar til maður krassar... Svo kom ég út og var á Selfossi og fór að ímynda mér að önnur hver bygging væri amfetamínverksmiðja og ljótir kallar leyndust bak við hvert horn. En ég kom aftur "heim" í Varmahlíðarhús í Hveragerði og þar var hlýtt og notarlegt, og ég spilaði Bítlalög á gítarinn minn og fékk mér te, og las bók þar til ég sofnaði. Svartur á leik státar þó af góðri og vel valinni tónlist og ég rak augun í það í kredidlistanum að Árni Sveins á heiðurinn af því vali. Mér fannst tónlistin koma tímabilinu sem myndin gerist á vel til skila og bæta einhverju "auka" við myndina, sem mér finnst einmitt að tónlist í bíómyndum eigi að gera. En ég er í pásu hér í tölvunni á bókó, frá því að semja flott rokklag. Það er alveg að verða tilbúið. Svo ætla ég að skeyta gömlum kafla sem var ekki notaður í gömlu lagi saman við lagið sem ég og Elvar gerðum um helgina, og kannski semja nýjan söng við. Ég er semsagt að nota tímann vel þennan síðasta dag, enda er frábært næði í þessu húsi og allt til alls. Ég ætla í Bónus að kaupa í kvöldmatinn á eftir og svo bara vinnvinnvinn, en muna að skella sér í sund og gufu áður en lokar í kvöld. Hveragerði gerði mér gott!
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli