Leita í þessu bloggi

föstudagur, júlí 27, 2012

Hellvar "Nowhere" Video from wimvanhooste on Vimeo.

Nýtt myndband frá Wim Van Hooste við lagið Nowhere, með Hellvar, í akústískri útgáfu. Góða lund, góða lunda!

laugardagur, júlí 07, 2012

mér er illt í maganum svo ég ákvað að fá mér fennel-te til að róa magann. svo lá ég í leti með tebollann á bumbunni að fá mér einn og einn sopa, búin að vera að dreypa á teinu í þónokkurn tíma, svo hitastigið var við kjöraðstæður, ekki of heitt og ekki of kalt. þá fékk ég hóstakast og sullaði úr magateinu yfir magann á mér. við það fór magaverkurinn. hef ég verið að misskilja teneyslu mína eitthvað í gegn um árin? er það útvortis???

föstudagur, júlí 06, 2012

Ég fór í alls kyns búðir í gær með Óliver. Við vorum að rápa um í miðbæjar-mallinu (kringlan), ef til vill örlítið lituð af bíómyndinni sem við horfðum á kvöldið áður (Mallrats). Við röltum um og hálfpartinn vonuðumst til að sjá parkour- og hjólabrettakrakka hoppandi upp um alla veggi, en í stað þess voru bara venjulegir Íslendingar á frum-, mið- og efsta stigi, small, medium og large. Við komum við í Hagkaupum og keyptum ofurplómur, eitt kíló, og rándýra ostaflís líka, og fórum í Tiger eftir uppþvottasvömpum. Keyptum pizzusneiðar í Sbarro sem samkvæmt þessari wiki-færslu opnaði sinn fyrsta verslunarmiðstöðvarveitingastað (langt orð)árið 1970, í Brooklyn. Þetta eru góðar og ódýrar pizzur, en Sbarro hafa víst verið í einhverjum fjárkröggum (sjá aftur Wiki-færsluna), svo ég mæli með því að allir fái sér mat þar, til að passa að þessi duglegu Ítalir sem komu til Ameríku 1956 haldist á réttu róli. Í öðrum ókeypis auglýsingum á sætum stöðum í Reykjavík sem er gaman að fara og sjá, má benda á splunkunýja búð á Laugaveginum sem heitir Suomi PRKL og sérhæfir sig í finnskum vörum. Ég keypti bláberjasjampó og múmínálfatannkrem þar, en það var bara af því ég átti ekki mikinn pening til að eyða. Mig langar í svo margt og hér er hægt að sjá heimasíðuna þeirra: http://www.suomi.is/ Það er skýjað í Reykjavík í dag, en falleg flóra af litríku fólki sem mælir göturnar.

fimmtudagur, júlí 05, 2012

Fékk mér tvöfaldan soja-latté á Kaffifélaginu á skólavörðustíg í morgun, og ég held það hafi gefið mér aukakraft sem aldregi fyrr.Eins og heimasíðan þeirra segir er þetta "minnsti kaffibar á landinu og þótt víðar væri leitað" og það er svolítið gaman. Þú kemur, drekkur koffínið þitt (þú þarna skoffínið þitt!) og svo ferðu eitthvert annað. Í mínu tilviki á annað kaffihús sem er með tölvusamband, svo ég geti hangið á netinu og unnið. Eymundson, Skólavörðustíg er best í því tilviki því það eru stórir gluggar, hratt net, og alls kyns yndislegir drykkir (ég fékk mér íste, því ég var með nægt koffín í mér). Svo er mikið af börnum og útlendingum og engin tónlist. Kjöraðstæður til skrifta, semsagt. Mikið er Reykjavík falleg í dag, og ég er ekki með hita, held ég. Ef ég er með hita er hann lægri en undanfarna daga, og ég er líka byrjuð á sýklalyfjameðferð nr.2, eftir að uppgötvaðist að ég er með bronnkítis. Bronnkítis, bronnkotans, bronnfull!

þriðjudagur, júlí 03, 2012

gæludýramenn

kisinn minn liggur á sænginni minni og sleikir á sér feldinn. þar á undan var hann sofandi og eftir að hann er búinn að sleikja á sér feldinn leggur hann sig örugglega aftur. það er ótrúlega merkilegt að til séu dýr í heiminum hverra hlutverk er að vera sæt fyrir aðra dýrategund. Hvað ef við mannfólkið værum slík dýrategund fyrir einhver önnur dýr? Hugsanlega eitthvað dýr sem er klárara en maðurinn og líka aðeins stærra (til þess að þeim finnist við lítil og krúttuð). Svoleiðis dýr er ekki til á þeirri plánetu sem við þekkjum en auðvitað er það bara tímaspursmál þar til við fáum sannanir á lífi annarra tegunda á öðrum hnöttum. Það eru svo stjarnfræðilega litlar líkur á því að við séum einu lifandi verurnar í heiminum að það er eiginlega fáránlegt að við höfum ekki enn hitt aðrar. Mér finnst heimurinn eins og bíómyndirnar Men in Black lýsa honum, vera mjög sennilegur, og held að hann verði svoleiðis bráðum. Ég væri alveg til í að vera gæludýr fyrir stærra dýr eins og kötturinn er gæludýr hjá manninum. Á meðan ég væri ekki í ánauð, og þyrfti bara að vera sæt og skemmtileg og krúttuð, þá væri ég til í það. Ef kettir virkilega vilja eitthvað þá fá þeir það. Eins og kötturinn okkar sem bara ásetti sér að vera úti í nótt, þrátt fyrir að vera frekar mikið inniköttur og líka hreint ágætlega við það. Hann er ekki hrifinn af öðrum köttum, frekar smeykur við þá, svo félagsskapur manna hentar honum því ágætlega. En seint í gærkvöld stökk hann út, um leið og hurð opnaðist, og hvarf. Köll á hann skömmu síðar báru engan árangur. Hann kom inn í morgunn og liggur nú og sefur, eftir að hafa sleikt allan feldinn sinn. Hann er rosalega mikið krútt.

mánudagur, júlí 02, 2012

kast hóstakastsins

kæra dagbók! dagur 19 í hósta er runninn upp, þetta virðist ekki vera að enda. sumarið 2012 hefur svo sannarlega verið furðulegt. ég þarf samt eiginlega að fara af stað að búa til blað svo ég hósta þá bara í gegn um það. samt er ég furðu máttlaus eitthvað... Það fyrsta sem er á dagskrá þegar hóstaköstin yfirgefa mig eru hjólreiðar og að hlaupa. Ég stóð sjálfa mig að því að öfunda ókunnuga manneskju sem ég sá vera að hlaupa niðri í bæ, bara af því ég get það ekki þá er það spennandi. Samkvæmt þessum röksendum ætti ég líka að öfundast út í fugla, því hei, ekki get ég flogið...en ég get borðað orma og verið eins og þeir þannig. kasta ég nú hóstanum fyrir róða og fer út að hjóla. ég fæ þá bara hósta, svona fyrsta kastið...