Leita í þessu bloggi
föstudagur, maí 23, 2014
Súkkulaðigott?
Í gær var afar venjulegur fimmtudagur fyrir utan það að ég gerði tvo hluti sem ég hef aldrei á ævinni gert áður. Annar þeirra er það venjulegur að það er eiginlega skrítið að ég hafi aldrei gert hann áður sjálf, en hinn er líklega sjaldgæfari og skiptar skoðanir um hann, og því eiga margir aldrei eftir að deila þeirri reynslu með mér. Byrjum á venjulega hlutnum. Til að gera langa sögu stutta var ég stödd í Kringlunni, átti erindi á Bókasafnið, en var á hádegistíma svo allir voru eitthvað að gúffa í sig, svo ég sló til. Fór á indverska staðinn, sem er fínn, fékk góðan mat og þegar sterkri máltíðinni var lokið stóð ég mig að því að langa gífurlega í eitthvað sætt til að ramma inn stemmninguna sem var í maganum á mér. Mér leist ekki á ísinn og var á tímabili að spá í að kaupa mér eina Subway-smáköku, en það er ódýr og fínn eftirmatur, en svo sá ég Dominos. Ég var í hugsunarleysi búin að lesa einhvern megavikubækling sem kom inn um lúguna í vikunni í stað þess að henda beint í endurvinnslu og var því meðvituð um að eitthvað væri til á matseðlinum sem héti Súkkulaðigott. Súkkulaði er gott og því hlýtur súkkulaðigott að vera mjög gott, og ekki spillti fyrir að það væri á tilboði núna. Ég panta súkkulaðigott og fæ mér sæti. Bíð spennt. Svo er ég kölluð upp og fer og næ í steikt og löðrandi brauð, sem samkvæmt lýsingu á að vera með súkkulaði innaní og súkkulaði ofaná, og þegar ég á að velja mér glassúr til að dýfa brauðinu ofaní segi ég að sjálfsögðu "súkkulaði" því ekki vil ég spilla súkkulaðigottinu með öðru framandi bragði. Ég held á herlegheitunum að borðinu mínu, og legg varlega frá mér og stari á, strax farin að efast um að þetta hafi verið góð hugmynd. Mig skortir kjark til að byrja og ekki skánar það þegar útlendingur gengur fram hjá og gefur matnum mínum hornauga og segir hátt og snjallt: "Oh, shit". Jú, þetta var algjörlega ósjitt-móment, ég var sammála honum. Ég stóð upp og bað um hnífapör því mig langaði einhvern veginn ekki að snerta löðrandi olíusúkkulaðibrauð með berum höndum. Maðurinn sem var að ná sér í servíettu við hlið mér við borðið sagði: "Hnífapör? Á Dominos?" og ég skildi að reynsluleysi mínu væru engin takmörk sett. Lúpulega náði ég að sníkja plasthnífapör á næsta stað (Takk, Grillhúsið!)og reyndi að skera mér bita af súkkulaðigotti. Það var alveg nokkuð gott, og svo dýfði ég því í ískaldan súkkulaðiglassúr og það var eiginlega ekkert betra, en ég reyndi að borða soldið af þessu kombói og þegar ég var tæplega hálfnuð með lítinn skammt fann ég bara hvað maginn minn fór í varnarstöðu sem svo breyttist í árásarstöðu. Ég gat ekki skilið svona mikið eftir, þetta var mitt fyrsta súkkulaðigott og ég vildi líka standa með ákvörðun minni, hversu heimskuleg sem hún nú var. Og viti menn, mér tókst að ljúka sirka þremur fjórðu af litlum skammti og hætti um það leiti sem furðuleg hljóð úr maganum á mér voru farin að trufla fólk á næsta borði. Ég tók mynd af leifunum, þar sem ég vissi að ég myndi líklega aldrei aftur fá mér súkkulaðigott og svo henti ég leifunum af þessum vinsæla eftirmat sem hundruðir þúsunda manns um allan heim elska. Allur gærdagurinn er í illa lyktandi móðu.
Hitt sem ég gerði? Bókaði káetu á bátahóteli í Amsterdam í eina nótt. Verður líklega aðeins skemmtilegra en súkkulaðigott.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Þú segir ekki.
Jú, ég segi það einmitt. Súkkulaðigott: Súkkulaðivont!
Góða skemmtun á bátahóteli.
Skrifa ummæli