Leita í þessu bloggi

laugardagur, febrúar 05, 2005

Ég fór í Checkpoint Charlie, (eða varðstöð Kalla) í dag. Það safn er tileinkað hetjulegum flóttatilraunum fólks úr austurhluta yfir í vesturhluta Berlínar. Sumar tókust aðrar ekki. Hef lengi ætlað að fara og lét loksins verða að því, til að gera svona eitthvað smá "túristalegt" með túristanum okkar sem er í heimsókn. En þetta safn olli sko ekki vonbrigðum...Þarna er að finna rosalegt samansafn af tilfinningum fólks sem var lokað inni í sinni eigin borg, og stundum skilið að frá öðrum í fjölskyldunni. Þarna eru forboðnar ástir, hættur og sorgir og gleði. Hugmyndaflug fólksins gerði það svo frjálst, í bland við hyggjuvit og hugrekki. Að finna upp nýjar leiðir til að komast yfir vegg, var það eina sem gilti. Yfir, undir, meðfram og í gegn, í vatni, á jörðu eða úr lofti. ALLT var reynt, og í raun kemur það bersýnilega í ljós í þessu safni af heimildum sem spanna marga tugi ára, hve ofboðslega fólkið hefur hatað múrinn sinn.
Ég sá ekki alveg allt, en var samt að vappa í rúma tvo tíma. Gott að eiga aðra ferð eftir þegar næstu túristar koma, hvenær sem það verður.
Lætur mann hugsa um frelsið, að það sé ekkert sjálfgefið, og kannski maður verði að nýta tímann sinn vel, meðan frelsið er enn til staðar. Hvað veit maður hvenær næstu áhrifamiklu geðsjúklingar ákveða að beita einhvers konar þvingunum og frelsisskerðingu, og hver veit hvenær það verður frelsið mitt og þitt?

Engin ummæli: