Leita í þessu bloggi

þriðjudagur, mars 28, 2006

Hér sit ég, sötrandi vatn og bloggandi. Ætla að kappklæða mig og rölta í sund. Svo í vinnu, og ef ég mögulega get hjólað heim væri það ægilega fínt. Dreymdi frábæran draum í morgun, þegar ég barðist við að vakna. Dreymdi að ég væri að innleiða góða siði frá Berlín í Keflavík. Þannig var ég búin að búa til svokallað ,,freebox" fullt af geisladiskum sem ég vildi gefa hverjum sem vildi. Ég var búin að stilla geisladiskunum upp á horninu á Vatnsnesvegi og Hafnargötu, og furðu lostnir gangandi vegfarendur stoppuðu og skildu hvorki upp né niður. Þar sat ég sallaróleg á gangstéttinni og útskýrði fyrir fólki að það mætti bara taka það sem það vildi og eiga og ekkert flóknara. Svo var draumurinn kominn lengra inn í framtíðina og þá var ég að labba í rosa þykkri dúnúlpu sem mamma lánaði mér, með mjög fallegt silfurúr sem mamma lánaði mér líka, og var að leita að Emilíu Torríní-tónleikum sem áttu að vera einhvers staðar það kvöldið. Þá sá ég tvo stráka sem voru líka að gefa geisladiska, og þeir gátu sagt mér að tónleikarnir væru í kirkju úti í innri-njarðvík. Þannig að ég bara labbaði af stað, og barðist á móti vindinum og veðrinu, en mér fannst það bara hressandi og var ekkert kalt því úlpan var svo hlý.

Engin ummæli: