Ferskeytlan um gömlu sokkana hefur vonandi ornað ykkur á tánum nógu lengi. Nú er mánudagur, nokkur hressleiki farinn að gera vart við sig hjá mér eftir stappaða helgi, og ævintýri vikunnar framundan farin að kitla. Um helgina fór ég á Abbababb tvisvar (forsýningu og frumsýningu), og verð hér með að gefa þeirri sýningu fullt hús stiga. Það kviknaði bara á barninu í mér og er alls ekki slokknað á því enn, og ég tel niður mínúturnar þar til ég get farið aftur. Einnig spilaði ég á voðalega fínni árshátíð, fékk að velja lög sjálf og fyrir valinu urðu fimm lög: All I've got to do - Beatles, Don't let me down - Beatles, La det Svinge - Bobbysocks, J'aime la vie - Sandra Kim og Tangó - Heiða. Þetta lagaval rann ljúft niður með aðalréttinum hjá fólkinu, og var ég ótrúlega glöð að heyra að fólk söng með, bæði í Don't let me down og í La det svinge. Næturvörðurinn var skemmtilegur á laugardagskvöld og mikið hringt. Ég get hér með tilkynnt að fyrri hlutinn verður tekinn upp næsta laugardagskvöld, sökum júróvisjónkeppninnar, og verður þemað BLÓÐ, en það er hugmynd að þema frá engum öðrum en Bubba Morthens.
Blóð-lög næsta laugardag, í boði Bubba Morthens, og nú vil ég sjá fullt af hugmyndum í kommentakerfið hér fyrir neðan!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli