Leita í þessu bloggi
fimmtudagur, febrúar 16, 2012
Jæja draumaráðningaherrar mínir og frúr þarna úti, hér er afrakstur næturinnar: Ég var stödd í einhverjum heimi sem ekki er til í alvörunni, en mér fannst vera framtíðarheimur, og var þar að reyna að koma grænmeti sem ég hafði ræktað í verð. Ég var semsagt með rabbarbara og gúrkur sem ég hafði ræktað og hljóp á milli sjálfsala sem líka voru greiðsluvélar. Þú gast keypt grænmeti þar, en líka lagt inn grænmeti og fengið seðla borgaða undir eins. Ég hafði vafið grænmetinu í klút og haft inná mér, og það var mikið hættuspil að komast á milli þessara sjálfsala, því allir voru að reyna að ræna mig til að selja grænmetið mitt sjálfir. Ég þurfti að hlaupa yfir bersvæði, laus við gróður og liti, og það var þoka og kalt og ég var illa klædd. Ég fann fyrir návist þeirra sem voru að fylgjast með þeim sem voru á ferli en einhverra hluta vegna fékk ég að fara í friði, líklega ekki litið út fyrir að vera með söluvænt grænmeti innan klæða. Ekki tók betra við þegar ég hafði loks náð að finna sjálfsala sem var ekki annað hvort fullur af grænmeti eða tómur af seðlum. Ég fékk borgað og það mjög ríkulega, í fimmþúsundkallabúntum sem ég vafði í klútinn minn og setti í umslag sem var vatnshelt og setti aftur inn á mig. Þá átti ég eftir að hlaupa yfir mörg bersvæði til að komast með peningana mína í öruggt skjól. Áður en ég lagði í hættuförina taldi ég samt hvað ég átti mikið og mér taldist til að ég væri með rúmar þrjár milljónir í 5þúsund-köllum (!). Ég var glöð að eiga þennan pening, en jafnframt skíthrædd um að verða rænd og vaknaði með dúndrandi hjartslátt. Ætti ég að vera í sambandi við félag ylræktarbænda og stjórnvöld og benda þeim á fordæmi slíkra framtíðardraum úr Biblíunni? Eða er það að dreyma peninga kannski fyrir skít?
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Veit ekki hvort peninga- og skíttengingin virkar á báða vegu -
þetta er hinsvegar dæmigerður draumur ef þú varst komin í spreng, undirvitundin þá að vekja mann með einhverju móti (geðshræringar eða líkamleg óþægindi )sbr. hjartsláttinn.Undirvitundin náttúrlega eins og "supervisor" í tölvustýrikerfi. Kkv. ÍDJEI.
Skrifa ummæli