Leita í þessu bloggi
mánudagur, júlí 31, 2006
Hún pakkaði samloku, epli og vatnsflösku. Regngallinn fór með, því allur er varinn góður og eftir langa umhugsun ákvað hún að láta bækur,blöð, skriffæri, geislaspilara og diska eiga sig, en hún fer varla út úr húsi venjulega án þess að hafa heilan helling af þessu meðferðis. Hún ákvað að hjóla í átt að Innri-Njarðvík og reyna að finna náttúru, annað var nú ekki planað. Leiðin hófst niðri á bryggju í Njarðvík, og hún velti fyrir sér hve oft hún hefði hjólað niður á bryggjur í gegn um tíðina. Bryggjur hafa óneitanlega mikið aðdráttarafl, en samt hræðist hún að keyra niður á þær. Hún óttast að keyra fram af og út í sjó, og vera föst í bílnum. Hins vegar naut hún hjólaferðarinnar um bryggjuna, og andaði að sér söltu sjávarloftinu. Því næst var ferðinni heitið áfram í átt að skilti sem á stendur ,,Gefið fuglunum". Hún hló innra með sér þegar hún afbakaði slagorðið í ,,Gefið fuglunum blóð", og bjóst varla við því að sjá það slagorð nokkru sinni á prenti, en fannst þetta að lokum svo sniðug skrýtla að hún hló upphátt, og uppskar grunsemdar-augngotur frá gangandi vegfarenda fyrir vikið. Hún hjólaði eftir þar til gerðum hjólastígum í kringum fuglana sem þurftu ekki blóð, og einn stígurinn endaði niðri í fjöru. Þar voru vegsummerki um fyrri mannaferðir: Ein bjórdós, nokkrir sígarettustubbar, notaðar eldspýtur og blaut samankuðluð íþróttatreyja í unglingastærð, blá. Af þessum vísbendingum að dæma hafði hér unglingadrykkja farið fram sem endaði með sjóbaði, og hún settist á steiptan stokk, og reyndi að ímynda sér hvað hafði farið fram, á meðan hún fékk sér vænan slurk úr vatnsflöskunni. Að hvíldinni lokinni hjólaði hún tvíelfd af stað, og fór nú fram hjá fuglaskilti og alla leið að Íslendingi, víkingaskipi sem er til sýnis. Þar voru mörg skilti sem bönnuðu allt klifur upp á þak á torfbæ sem þarna var einnig til sýnis, en þar sem enginn var bekkurinn án þess að hafa útsýni út á hraðbrautina, snaraði hún sér upp á bæjarvegginn, án þess þó að klifra upp á þak, og braut því strangt til tekið enga reglu. Þar sat hún og borðaði eplið sitt og drakk vatn af áfergju, þegar eldri hjón mættu til að virða Íslending fyrir sér. ,,Noh, það er bara verið að éta hér", sagði maðurinn stuttur í spunann. ,,Góðan dag", sagði hún, aðeins of seint fyrir manninn til að heyra. Hjónin gáfu sér góðan tíma til að skoða, en á leið frá skipinu sagði maðurinn, sem greinilega hafði orð fyrir þeim, ,,Góðan daginn", og svaraði hún að bragði: ,,Góðan dag", og þá fékk hún svarið: ,,Nú, svo þú ert íslensk". ,,Já", svaraði hún og sagði ekkert meira, en hló innra með sér. Hún lokaði augunum og ímyndaði sér að hljóðin í bílunum á brautinni væri fossaniður. Í bland við lyktina af grasi og mold var hún komin langt aftur í tímann, þar sem fólk hugsar meira en það talar. Hún opnaði augun, stökk niður og fann til farangur og hjólaði af stað í sömu átt og hún kom. Á leiðinni heim fann hún tvo leikvelli, og heimsótti einn sem hún átti róluminningar um. Rólurnar hennar voru horfnar, og hún stóð örskamma stund og syrgði liðna tíma, áður en hún settist í brekku og át samloku með smjöri, osti og gúrkum. Drakk restina af vatninu með. Svo fór hún heim...
sunnudagur, júlí 30, 2006
skemmtilegt letistuð á mér. úthvíld en afskaplega löt. held ég helli í mig smá meira kaffi og svo fullt af vatni, og fari svo bara eitthvað út að hjóla. þarf nauðsynlega að vera úti í súrefni. er alltaf að keyra í bíl, eða að vinna inni, og það til skiptis verður þreytandi, þegar alls kyns spennandi veður eru úti sem maður missir af. soersigurrós í kveld. úti. já, þetta verður útidagur. pakka bara útifötum og nesti í litla tösku og halda á vit óvissunnar. mér finnst ég eigi að gera það í dag. get allt, bara spurning um að byrja.
föstudagur, júlí 28, 2006
andleg mótmælastaða gegn styrjöldum í heiminum. hefst núna, og lýkur þegar mannkyn áttar sig á því að það leysir engin vandamál að drepa einhvern. ok, ef ég og einhver stelpa eru að rífast um eitthvað og hún verður fúl út af einhverju sem ég sagði, fer hún þá og drepur einhvern í minni fjölskyldu í von um að það hafi áhrif á rifrildið? Nei. Það ætti einnig að eiga við um þjóðir sem eru að rífast. Er þetta ekki bara svona einfalt? Bannað að drepa einhvern, í öllum tilvikum, og það leysir heldur ekki nokkkurn skapaðan hlut. Kemst ekki í mótmælastöðu fyrir utan bandaríska sendiráðið en sendi hlýjar hugsanir þangað og ef einhver les þetta fljótlega þá er mótmælastaðan að hefjast klukkan 17:30 og stendur áfram.....
fimmtudagur, júlí 20, 2006
World jump day í dag. Allir að fara inn á http://www.worldjumpday.org/ og skoða þetta. Vorum ekki alveg viss með tímann þannig að við hoppuðum í 2 mínútur til öryggis klukkan 10:39:13, en svo gæti það verið klukkan 11:39:13 og við ætlum bara að hoppa aftur þá. Öll fjöskyldan að hoppa í bakgarðinum. Góð leið til að byrja daginn.
mánudagur, júlí 17, 2006
sunnudagur, júlí 16, 2006
þriðjudagur, júlí 11, 2006
Heimasíða Næturvarðarins Næsta þema er hjarta/hjörtu-Heart(s). Óskaþema frá hlustanda. Koma svo með uppástungur, en einnig hægt að senda mér þær í pósti frá heimasíðunni.
mánudagur, júlí 10, 2006
fimmtudagur, júlí 06, 2006
mánudagur, júlí 03, 2006
Kominn júlí. Fann ekki fyrir júní. Hefði getað verið október. Verðum að vona að það skíni aðeins á kinnarnar og búi til nokkrar freknur í júlí. En það gerist náttúrulega ekki nema ég leyfi kinnunum að vera úti undir beru lofti. Stefni að því, á laugardaginn. Verð í Reykjavíkurborg um morgunn á fundi, svo í giftingu klukkan 18:00, og þaðan beint í útvarpið, en ég er ekki frá því að milli 12 og 18 sé ekkert spes að gerast. Hver vill koma að þvælast, hanga og gera ekkert í nokkra klukkutíma, helst í sól og þá úti?
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)