Leita í þessu bloggi
mánudagur, júlí 31, 2006
Hún pakkaði samloku, epli og vatnsflösku. Regngallinn fór með, því allur er varinn góður og eftir langa umhugsun ákvað hún að láta bækur,blöð, skriffæri, geislaspilara og diska eiga sig, en hún fer varla út úr húsi venjulega án þess að hafa heilan helling af þessu meðferðis. Hún ákvað að hjóla í átt að Innri-Njarðvík og reyna að finna náttúru, annað var nú ekki planað. Leiðin hófst niðri á bryggju í Njarðvík, og hún velti fyrir sér hve oft hún hefði hjólað niður á bryggjur í gegn um tíðina. Bryggjur hafa óneitanlega mikið aðdráttarafl, en samt hræðist hún að keyra niður á þær. Hún óttast að keyra fram af og út í sjó, og vera föst í bílnum. Hins vegar naut hún hjólaferðarinnar um bryggjuna, og andaði að sér söltu sjávarloftinu. Því næst var ferðinni heitið áfram í átt að skilti sem á stendur ,,Gefið fuglunum". Hún hló innra með sér þegar hún afbakaði slagorðið í ,,Gefið fuglunum blóð", og bjóst varla við því að sjá það slagorð nokkru sinni á prenti, en fannst þetta að lokum svo sniðug skrýtla að hún hló upphátt, og uppskar grunsemdar-augngotur frá gangandi vegfarenda fyrir vikið. Hún hjólaði eftir þar til gerðum hjólastígum í kringum fuglana sem þurftu ekki blóð, og einn stígurinn endaði niðri í fjöru. Þar voru vegsummerki um fyrri mannaferðir: Ein bjórdós, nokkrir sígarettustubbar, notaðar eldspýtur og blaut samankuðluð íþróttatreyja í unglingastærð, blá. Af þessum vísbendingum að dæma hafði hér unglingadrykkja farið fram sem endaði með sjóbaði, og hún settist á steiptan stokk, og reyndi að ímynda sér hvað hafði farið fram, á meðan hún fékk sér vænan slurk úr vatnsflöskunni. Að hvíldinni lokinni hjólaði hún tvíelfd af stað, og fór nú fram hjá fuglaskilti og alla leið að Íslendingi, víkingaskipi sem er til sýnis. Þar voru mörg skilti sem bönnuðu allt klifur upp á þak á torfbæ sem þarna var einnig til sýnis, en þar sem enginn var bekkurinn án þess að hafa útsýni út á hraðbrautina, snaraði hún sér upp á bæjarvegginn, án þess þó að klifra upp á þak, og braut því strangt til tekið enga reglu. Þar sat hún og borðaði eplið sitt og drakk vatn af áfergju, þegar eldri hjón mættu til að virða Íslending fyrir sér. ,,Noh, það er bara verið að éta hér", sagði maðurinn stuttur í spunann. ,,Góðan dag", sagði hún, aðeins of seint fyrir manninn til að heyra. Hjónin gáfu sér góðan tíma til að skoða, en á leið frá skipinu sagði maðurinn, sem greinilega hafði orð fyrir þeim, ,,Góðan daginn", og svaraði hún að bragði: ,,Góðan dag", og þá fékk hún svarið: ,,Nú, svo þú ert íslensk". ,,Já", svaraði hún og sagði ekkert meira, en hló innra með sér. Hún lokaði augunum og ímyndaði sér að hljóðin í bílunum á brautinni væri fossaniður. Í bland við lyktina af grasi og mold var hún komin langt aftur í tímann, þar sem fólk hugsar meira en það talar. Hún opnaði augun, stökk niður og fann til farangur og hjólaði af stað í sömu átt og hún kom. Á leiðinni heim fann hún tvo leikvelli, og heimsótti einn sem hún átti róluminningar um. Rólurnar hennar voru horfnar, og hún stóð örskamma stund og syrgði liðna tíma, áður en hún settist í brekku og át samloku með smjöri, osti og gúrkum. Drakk restina af vatninu með. Svo fór hún heim...
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli